Sameining barnaverndarnefnda

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 16:20:37 (918)


[16:20]
     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Mér þykja svör hæstv. ráðherra benda til þess að ótti fólks hafi ekki verið alveg ástæðulaus þegar ýmsir töldu að það þyrfti að kveða skýrar á um fyrirkomulag og hvernig ætti að standa að sameiningu og samvinnu barnaverndarnefnda. Vera kann að tillögur um sameiningu sveitarfélaga hafi dregið þetta mál á langinn en engu að síður hefur tími liðið sem að mínu mati hefði betur verið varið til þess að þrýsta á um þessa sameiningu og ég held að það hefði kannski verið ágætis prófsteinn á samvinnu sveitarfélaga sem nú er lagt til að sameinist.
    Það má vera að eftir 20. nóv. nk. verði einhver sveitarfélög sem tillögur eru um að sameinist búin að fella þá tillögu. Þetta geri ég ráð fyrir að hæstv. ráðherra sjái að geti orðið og þá langar mig að spyrja hvort ráðuneytið hafi í hyggju að ýta með einhverjum hætti frekar á þau sveitarfélög sem enn hafa ekki sinnt þessum hugmyndum og þessum tilmælum í lögunum og í rauninni lagaákvæði sem að vísu er óskýrt og þá með hvaða hætti.