Fagleg ráðgjöf fyrir barnaverndarnefndir

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 16:37:16 (924)


[16:37]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil ekki láta hv. 9. þm. Reykn. standa einan í þessum fsp. vegna þess að ég tel að þær séu mjög brýnar og nauðsynlegar og vil þakka henni fyrir að bera þær fram.
    Sannleikurinn er auðvitað sá eins og við höfum mörg hver sagt hér oft í þessum ræðustól að barnaverndarnefndarstarf í landinu hefur verið í hreinum ólestri. Ekki af slæmum vilja heldur skorti á bæði fé og starfsfólki og satt best að segja hefur það oft verið meira til skaða en gagns og það er kannski alvarlegur hlutur að segja en ég held að margir fagmenn sem til þekkja mundu taka undir þau orð.
    Ég hef um skeið átt sæti í nefnd sem er að fjalla um úrlausnir í málefnum barna og hef átt þess kost að starfa þar með fólki sem er mjög kunnugt þessum málum. Það sem það fólk kvartar yfir er skortur á heildarstefnu og leiðbeiningum til nefndanna, til hvers sé í raun og veru ætlast af þeim. (Forseti hringir.) Ég er rétt að verða búin, hæstv. forseti. Nú er ekki langt síðan hæstv. félmrh. tók við þessum málaflokki og er því ekki við hana að sakast en ég vona að það verði unnið að því að koma betri skipan á þessi mál.