Tilflutningur sýslumannsembætta

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 17:27:18 (945)

[17:27]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins lýsa yfir algjörri andstöðu minni við það viðhorf sem kom fram hjá hæstv. dómsmrh. að það þurfi ekkert að skoða aðra hluti í sambandi við svo róttæka ákvörðun sem hér er gert ráð fyrir að taka, að leggja niður þriðjung af öllum sýslumannsembættum í landinu. Ég held að það þurfi ekki annað en að líta á þskj. 168 þar sem tveir stjórnarþingmenn gera tillögu um athuganir á því að auka umsvif sýslumannsembættanna og styrkja þessi embætti, að þarna er réttmætt að líta til margra átta. En ég held að hið upphaflega svar hæstv. ráðherra staðfesti aðeins að þarna hafa málin lítið verið skoðuð enda hefur það komið fram að þær tölur sem lagðar eru til grundvallar eiga ekki við rök að styðjast.