Árangur viðræðna við EB um landbúnaðarmál

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 17:28:47 (946)

[17:28]
     Fyrirspyrjandi (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Á þskj. 137 hef ég borið fram eftirfarandi fsp. til hæstv. landbrh. um árangur viðræðna við Evrópubandalagið um landbúnaðarmál, með leyfi hæstv. forseta:

    ,,Hvernig hefur ráðherra tekist að standa á verði um hagsmuni íslensks landbúnaðar í samningaviðræðum við Evrópubandalagið um viðbæti 2--7 við bókun 3 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið?``
    Þegar hæstv. utanrrh. skrifaði undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið 2. maí 1992 voru enn þá margir endar lausir. Svo var einnig þegar hann var til meðferðar og samþykktur á síðasta þingi. Þar á meðal var viðauki við bókun 3 sem eru nefndir viðbætar 1--7 og eru um ýmsar búvörur. Frá viðbæti 1 virðist þó vera búið að ganga og í 5. gr. hans eru sérákvæði um Ísland. Í niðurlagi þeirrar greinar segir að upphæð aðflutningsgjalda skuli þó aldrei vera hærri en Ísland lagði á innflutning frá nokkrum samningsaðila árið 1991.
    Eins og allir vita var innflutningsbann á þeim vörum og því engin innflutningsgjöld lögð á. Hæstv. utanrrh. sagði að þrátt fyrir þetta ákvæði takmarkaði það ekki rétt okkar til álagningar en aðrir gátu ekki skilið það. Því skiptir miklu máli að fá staðfest hvernig Evrópubandalagið túlkar þetta.
    Í viðbætum 2--7 er aðeins ein setning undir hverjum tölustaf sem á að gefa í skyn um hvaða efni þar skuli fjallað. Af þeim atriðum sem þar skipta miklu máli má nefna í fyrsta lagi hvert verður lágmarkshlutfall af kjöti í unnum vörum svo leggja megi jöfnunargjöld á kjötið.
    Í öðru lagi eigum við að miða mjólkurverð við mjólkina sem fer í vinnsluvörur eða á nýmjólk þegar jöfnunargjaldið er ákveðið.
    Í þriðja lagi við hvaða kjötverð verður jöfnunargjaldið miðað? Verður það dýrasti hluti skrokksins sem á að miða við? Þannig væri áfram hægt að telja þó þetta séu þau atriði sem mér eru efst í huga.
    En um þetta og fleiri atriði sem skipta miklu máli hafa verið ólíkar skoðanir og því nauðsynlegt að vita þegar á að fara að fullgilda samninginn í næsta mánuði hvernig hæstv. landbrh. hefur tekist að ná fram okkar sjónarmiðum og líka að gefnu tilefni, hvaða gögn hann hefur í höndunum sem staðfestir þá niðurstöðu hæstv. ráðherra.