Fjöleignarhús

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 13:59:50 (952)


[13:59]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Þetta frv. sem hér um ræðir var lagt fram á síðasta þingi, 1. umr. lokið og því vísað til hv. félmn. en fékk þar ekki afgreiðslu, enda var liðið nokkuð á þingið þegar svo var komið málum. Engu að síður hafði þetta frv. orðið tilefni til nokkurra gamanmála eins og fram kom í máli hv. 2. þm. Vesturl. og við höfðum mjög mörg býsna gaman af ýmsum ákvæðum í frv. sem hér hefur nú m.a. verið drepið á þó að auðvitað hafi sennilega flestir hent mest gaman að 3. gr. frv. þar sem tekið er til við að skilgreina það óþekkta fyrirbrigði ,,hús`` sem annars hafði mjög vafist fyrir mönnum að vita hvað þýddi og hvaða merkingu hefði, sérstaklega hina lagalegu merkingu. Og það er auðvelt að taka undir það með hv. 2. þm. Vesturl. að ýmislegt í þessu frv. orkar mjög tvímælis svo að ekki sé nú meira sagt, hvaða erindi eigi inn í frv. og lagatexta af þessu taginu. Þess vegna fyrir oss fáfróða er það dálítið fróðleg lesning og fróðleg lífsreynsla að skoða þær ábendingar. Þær umsagnir sem hafa borist og það sem ég hef lesið af því hefur að sumu leyti orðið til þess að ég hef skipt um skoðun á eðli þessa frv. og hvaða þýðingu lagatexti af þessu tagi hefði. Það er nefnilega sammerkt nánast með öllum þessum umsögnum sem fram hafa komið að í fyrsta lagi er lokið almennu lofsorði á þennan frumvarpstexta en þær athugasemdir sem koma fram við frumvarpstextann lúta fyrst og fremst að því að gera textann sjálfan, sem manni finnst nú ærið nákvæmur fyrir, enn þá nákvæmari. Ég ætla að taka lítið dæmi.
    Hér var m.a. rætt allverulega um þessa skilgreiningaráráttu sem fram kemur í frv. og sem m.a. birtist hér í 3. gr. frv. þar sem verið er að skilgreina þetta óþekkta fyrirbrigði ,,hús``. Í ábendingu frá Verkfræðingafélaginu er talið helsti gallinn við þennan frumvarpstexta sá að hann sé ekki nægilega nákvæmur og þar þyrfti til viðbótar við fyrstu línuna þar sem segir: ,,Með húsi í lögum þessum er átt við byggingu sem varanlega er skeytt við land`` að koma: ,,og hefur stöðurétt samkvæmt lóðasamningi eða ábúðarlögum``. Þetta undirstrikar kannski að þrátt fyrir að okkur finnist þetta afar sérkennilegur og óvanalega nákvæmur lagatexti þá held ég að þetta sýni að þessi lagatexti þurfi í sjálfu sér að vera býsna nákvæmur því það er auðvitað rétt eins og kemur hérna fram í athugasemdum við þetta frv. að þetta eru hlutir sem skipta fólk e.t.v. meira máli en mjög margt í þeirri lagasetningu sem við höfum verið að sníða hér á Alþingi. En þetta eru hlutir sem snerta fólk í mjög nánum daglegum samgangi og þess vegna ríður á býsna miklu að þetta sé skýrt, réttindi og skyldur fólks í sambýli eins og það að búa saman í fjöleignarhúsi eða fjölbýlishúsi sem vissulega er eðlilegast að kalla þetta.
    Við höfum oft rætt um það og ég held að það sé ástæða til þess að ræða þetta svona kannski almennt við 1. umr. vegna þess að auðvitað fer frv. til félmn. og til 2. umr. síðar. Ég held að það sé rétt svona að ræða þetta almennt. Við höfum stundum talað um það í umræðum að við viljum leggja áherslu á það að lagatextinn sjálfur sé skýr og mjög fátt sé skilið eftir í valdi ráðherrans. Og hæstv. félmrh. hefur fengið inn duglegan skammt og rækilegan skammt af því að ráðherrann hafi tilhneigingu til þess að sölsa til sín vald. Við könnumst við þá umræðu sl. vor og hæstv. ráðherra lá hér undir miklum gusum í vor fyrir það að vilja að reglugerðarheimildir séu sem rúmastar, t.d. í lögum um Húsnæðisstofnun. Hér er hins vegar stigið skref frá þeirri hugsun og hér er beinlínis gert ráð fyrir því að það sem áður var kveðið á um í reglugerðum sé kveðið á um í lögum. Í athugasemdunum á bls. 27 segir svo, með leyfi hæstv. forseta, sem sýnir þetta:
    ,,Þá leggur nefndin til að horfið verði frá því sérkennilega fyrirkomulagi, sem valið var við setningu laga nr. 59/1976, að hnýta og flétta saman við lögin reglugerð um samþykktir fyrir húsfélög með þeim hætti sem gert var. Var það raunar eins og fleira að danskri fyrirmynd. Byggir nefndin á því eins og áður segir að sem allra mest eigi að vera í lögunum sjálfum og því er í frv. eða lagatextanum tekið á þeim atriðum sem nú eru í áðurnefndri reglugerð.``
    Ég get út af fyrir sig tekið undir það að ýmislegt í þessu frv. er náttúrlega óþarflega nákvæmt svo að ekki sé fastar að orði kveðið og ýmis skilgreiningaratriði verða hálfafkáraleg. En það breytir ekki því að ég held að það sé góður siður í lagasetningu að skilja rými til reglugerðarsetningar sem minnst eftir og í annan stað hitt, að það er einu sinni þannig að það koma upp mjög mörg álitamál í sambúð fólks í fjölbýlishúsum. Og það er nauðsynlegt að um þessi atriði séu skýrar reglur þannig að það sé ekki þörf á því að vera að túlka þetta frekar. Mjög margt af því sem segir í lögunum sjálfum er í svona venjulegri lagasmíð látið duga að kveða á um í athugasemdum eða látið nægja að kveða rækilegar á um í reglugerðum. Hér er sem sagt ekki stuðst við þá aðferð við lagasetningu og miðað við það að þessi lög snerta mjög persónulega og daglega hagi fólks og geta verið hlutir sem fólk þarf oft að standa skil á og þá er það alls ekki óskynsamlegt nema síður sé að hafa lagatextann býsna skýran sjálfan í þessum tilvikum. En það út af fyrir sig breytir því ekki að ýmislegt þarf hér auðvitað rækilegrar endurskoðunar við og örugglega er hægt að gera þetta mun skýrara og einfaldara en er í frumvarpstextanum.
    Ég vil sérstaklega leyfa mér að benda á það eins og fram kom í máli hv. 2. þm. Vesturl. að sumt í þessum skýra texta er þó þess eðlis að það þarf frekari áherslu við og þá má m.a. nefna 9. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Hafi einn eigandi kostað ákveðinn búnað, tiltekna framkvæmd eða byggingarþátt, þá eru á sama hátt líkur á að um séreign hans sé að ræða.`` Hér þarf auðvitað að kveða á um þetta mjög skýrt og greinilega því að þarna er mikil óvissa á ferð og gæti orðið tilefni til óþarfa deilna.
    Sömuleiðis er auðvitað álitamál sem hér kemur fram að gert er ráð fyrir býsna víðtækum lögveðsheimildum, bæði í 51. gr. og einnig í 48. gr. sem kann auðvitað að orka mjög tvímælis því að lögveðin geta þar með skapað óvissu gagnvart þeim sem hafa veðrétt í íbúðunum og hér held ég að sé ástæða fyrir félmn. að skoða þetta mál alveg sérstaklega vegna þess að hér getur skapast ákveðin réttaróvissa.
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé ekki skynsamlegt í 1. umr. að fara nákvæmlega yfir þetta mál. Þetta er eins og fram hefur komið býsna flókinn lagatexti. Hann er flókinn vegna þess að inn í hann eru núna felld ákvæði sem áður hafði verið skipað í reglugerðum og/eða gert ráð fyrir í athugasemdum frumvarpa, en það þarf auðvitað að fara mjög vel ofan í saumana á þessu, gera lögin eins skiljanleg og hægt er, þannig að þau séu mjög skýr og afmörkuð og verði ekki tilefni til einhverra deilna eins og hefur því miður gerst í ýmsum tilvikum miðað við núverandi lagaramma. Og ég vek alveg sérstaklega athygli á því að í athugasemdum hagsmunaaðila eins og Húseigendafélagsins, Neytendasamtakanna, Arkitektafélagsins, Sambands ísl. tryggingafélaga og annarra, þá er mjög hvatt til þess að þessi lagatexti sé sem skýrastur og í þeim dúr að það sé ekki verið að vísa hlutum inn í framtíðina með reglugerðarheimildum eða látin duga lögskýringarákvæði athugasemda og greinargerðar. Almennt tel ég því að það sé skynsamlegt við þessar aðstæður, við þessa lagasetningu, að lagasetningin sjálf sé skýr og um sem minnst kveðið á í reglugerð, þó að ég taki mjög undir að það séu mjög margir hortittir í þessum frumvarpstexta sem ástæðulaust er að fara sérstaklega ofan í, enda munu örugglega margir gera það sér til skemmtunar hér á eftir, það er ástæðulaust að vera að tína þá sérstaklega til. Það gerum við í þeirri vinnu sem fram undan er í félmn. en ég læt þetta duga að sinni.