Fjöleignarhús

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 14:20:08 (954)

[14:20]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að það geti tæpast verið neinn ágreiningur með mönnum um það að lagasetningin í landinu sé skýr og helst af öllu að lögin séu stutt, knöpp, vel skrifuð og skýr. En stundum er það þannig að einhvern veginn mistekst mönnum þetta mikla ætlunarverk sitt og lagasetningin verður óskýr og stundum í mjög löngu máli og óskýr og allt þar á milli. Ég held að við séum kannski í þeim mikla vanda hér að við erum sammála um meginatriðin, við hv. 4. þm. Norðurl. e., um það að við viljum hafa löggjöfina sem allra skýrasta og gagnsæjasta fyrir allan almenning til þess að skilja, en þegar kemur að því að skrifa lagatextann þá getur málið vandast vegna þess að lagatextinn þarf að taka til margra ólíkra hluta sem snerta fólk í daglegri umgengni og það held ég að sé kannski þessi vandi sem við stöndum frammi fyrir varðandi þennan lagatexta sérstaklega. Ég nefndi áðan að ég vildi að hv. félmn. færi mjög vel ofan í þennan texta, sérstaklega með hliðsjón af því hvað væri hægt að fella út til þess að ekki væri um óeðlilega upptalningu eða forræðishyggju í lagasetningunni sjálfri að ræða. Eitt af þeim atriðum sem ég hafði m.a. í huga var spurningin um það hvernig ætti t.d. að fara með í lagasetningu þessi húsfélagsákvæði sem hv. 4. þm. Norðurl. e. gerði að umtalsefni. En þá bregður svo við að meðal þeirra umsagna sem hafa borist um þessi mál er athugasemd um að einmitt húsfélagsákvæðin í frv. séu ekki nægjanlega skýr. Það vanti verulega á það að ýmislegt í þeim efnum sé nægilega skýrt til þess að koma í veg fyrir alls konar vandamál sem sögð eru koma í ljós í framkvæmd. Þannig að þetta mál er auðvitað ekkert einfalt og ég var fyrst og fremst að velta því upp að þrátt fyrir það að almennt séð gætu menn verið sammála um þessi markmið við lagasetnginuna þá væri það einhvern veginn þannig þegar við værum komin í alvöru lífsins og að hinum praktíska vanda þá ætti maður kannski ekki jafngreið svör.