[14:22]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Hér hafa orðið nokkrar umræður um það mál sem er á dagskrá, um fjöleignarhús og hafa þær að mestu lotið að því hvað þetta frv. er ítarlegt. Ég get stytt mál mitt eftir ræðu hv. 3. þm. Vestf. Það voru kannski einkum tveir þingmenn sem gagnrýndu það mjög hve ítarlegt frv. væri og mér fannst hv. þm. Einar Guðfinnsson gera ítarlega grein fyrir því af hverju nauðsynlegt er að þetta frv. væri svo ítarlegt sem raun ber vitni. Ég spurði vissulega sjálfa mig þegar ég fékk þessi frumvarpsdrög á borðið og leitaði svara við því af hverju þyrfti að vera að leysa af hólmi löggjöf sem væri 19 greinar með 80 greinum og fékk við því að mínu viti fullnægjandi svör. Þessi löggjöf er mjög mikið notuð og reynslan sýnir okkur gegnum árin að það hafa risið upp ýmis deilumál, ágreiningsmál, milli eigenda í fjölbýlishúsum sem hafa iðulega þurft að fara fyrir dómstólana. Ef við hefðum haft ítarlega löggjöf sem tekur á þeim atriðum sem upp hafa komið þá er ekki víst að þess hefði þurft.
    Það er auðvitað svo að í svo ítarlegri löggjöf eins og hér er til umræðu er hægt að finna ýmsar greinar og ákvæði sem menn geta hent gaman að en engu að síður er það mitt mat að nauðsynlegt sé að hafa löggjöfina mjög ítarlega. Það er alveg rétt sem hér kom fram að ég var nokkuð gagnrýnd fyrir það á síðasta þingi að leggja fram frv. sem þingmenn töldu að þyrfti ítarlega reglugerð til þess að hægt væri að framfylgja en hér er þetta með öðrum hætti.
    Ég vil vísa til þess að það eru mjög margir aðilar sem hafa fjallað um þetta frv. sem gerst þekkja til í þessum málum þannig að ég tel að í alla staði sé ítarlega tekið á þessu máli og hér sé um vandaða frumvarpssmíð að ræða. En vissulega er það svo að félmn. mun fjalla um þetta. Þarna er ýmislegt sem mætti skoða sem menn hafa nefnt eins og húsfélög og fleiri þætti en það er líka rétt sem hér hefur fram komið að umsagnirnar sem borist hafa um þetta frv. ganga að verulegu leyti út á það að ýmis ákvæði séu ófullnægjandi, þurfi að skýra betur og gera ítarlegri.
    En ég vænti þess að sú nefnd sem fær frv. til meðferðar fjalli ítarlega um þetta mikilvæga frv. og því verður auðvitað vel tekið ef fram koma gagnlegar ábendingar og athugasemdir og brtt. sem gera megi frv. enn betur úr garði en hér er.