Fjöleignarhús

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 14:26:07 (956)


[14:26]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ef hæstv. félmrh. hefur verið að vísa til minna orða áðan þá vil ég bara leiðrétta það. Ég var í sjálfu sér ekkert að gagnrýna það óskaplega að menn vildu hafa þetta svona ítarlegt og mikið. Ég var með ýmsar almennar hugleiðingar í sambandi við það mál sem ég tel að eigi fyllilega rétt á sér og ég ætlaði alls ekki að fara að vera leiðinlegur eða liggja í einhverjum tittlingaskít í sambandi við orðalag á þessu enda mundi það æra óstöðugan. Það væri hægt að halda hálfsmánaðarvöku yfir því að velta sér upp úr þessum textum meira eða minna ef maður vildi. Ég hef líka vissar efnislegar efasemdir um t.d. að menn eigi að fara að halda út á þá braut að fara að skilgreina hugtak eins og hlutinn hús. Vita ekki nokkurn veginn allir heilvita menn hvað hús er? Fer það nokkuð á milli mála samkvæmt málvenju og ótal ákvæðum í margs konar lögum hvað er hús? Ég held að það þurfi ekki að fara að taka upp á því á árinu 1993 að skilgreina það. Það er spurning hvað langt ætla menn að ganga í slíkum efnum.
    En eitt vil ég biðja um og það segi ég í fullri alvöru, bæði við hæstv. félmrh. og eins það nefndafólk sem fær þetta til yfirlestrar: Í guðs bænum reyni menn nú að lesa þetta og komið þessu nokkurn veginn á íslensku. Það er þó alltaf einhvers virði að hafa á þessu sæmilegt málfar, en því er ekki fyrir að fara eins og textinn lítur út í dag. Ég bendi t.d. á 29. gr., hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Rúmist bygging innan samþykktrar teikningar og sé byggingarrétturinn í eigu ákveðins eiganda, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 28. gr., getur hann ráðist í framkvæmdir að fengnum nauðsynlegum byggingarleyfum, enda taki hann sanngjarnt tillit til annarra eigenda við framkvæmdirnar og kosti kapps um að halda röskun og óþægindum í lágmarki.``
    Þetta er í fyrsta lagi nokkuð löng setning og í öðru lagi hef ég ekki heyrt svona tekið til orða, a.m.k. er það ekki til fyrirmyndar að halda röskun í lágmarki. Það mundi heita á minni íslensku að valda sem minnstri röskun. Það er a.m.k. hægt að fara fram á það í allri hógværð að það verði litið yfir svona hluti.