Húsaleigulög

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 15:24:07 (961)

[15:24]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef nú einhvern veginn á tilfinningunni að hæstv. félmrh. sé dálítið brugðið. Það var mikill titringur í ríkisstjórninni hér fyrir nokkrum vikum vegna húsaleigubóta, en nú segir hæstv. félmrh. að það standi til að sveitarfélögin taki þetta að sér og það standi til að leggja þetta frv. fram hið fyrsta og gildistakan verði árið 1995. ( Gripið fram í: Hvenær á árinu?) Í ársbyrjun 1995, ef ég tók rétt eftir. Mér finnst að þetta sé svona merki þess að hæstv. félmrh. sé á hægu undanhaldi í málinu og ég spyr: Er búið að ræða það við sveitarfélögin og forustu þeirra að taka þetta mál að sér og með hvaða hætti á það að vera? Ég hygg að þá muni falla niður það hagræði sem yrði hægt að hafa af þessu í skattkerfinu, eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. kom inn á. Ég tel að þetta mál sé á hægri siglingu út og suður, eins og þar stendur.