Húsaleigulög

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 15:34:17 (964)

[15:34]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það að það kemur náttúrlega alveg berlega fram í þessari umræðu að ríkisstjórnin er búin að fresta að efna það loforð sitt að taka upp húsaleigubætur. Það er slæmt að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera hér, en hér er hv. þingflokksformaður Sjálfstfl. sem ætti að geta upplýst það hvort Sjálfstfl. ætlar sér að standa að þeim framgangi málsins sem hæstv. félmrh. boðaði hér áðan að húsaleigubætur eigi að taka upp í ársbyrjun 1995, sveitarfélögin eigi þá að taka yfir 300 millj. vegna þessa og hvort samkomulag sé orðið um þetta í hinum nýju stjórnarmyndunarviðræðunum sem hafa farið fram síðustu dagana, eftir að í ljós var komið að stjórnin stóð á kalkúnafótum, þá var tekið upp friðarhjal um síðustu helgi, og hvort það er tilfellið að húsaleigubætur hafi verið eitt af því sem datt upp fyrir á þessari friðarráðstefnu sem haldin var.
    Ég hafði það á tilfinningunni þegar hæstv. félmrh. talaði áðan og fór með sinn rökstuðning, að hún færi með hann svona eins og í minningarskyni í síðasta sinn fyrir okkur. Hún væri búin að fara með þennan texta um húsaleigubætur hundrað sinnum fyrir sína samstarfsmenn undanfarnar vikur og væri að fara með hann í síðasta sinn áður en þetta væri allt saman saltað.
    Ég er efins í því, jafnvel þó formaður Sambands ísl. sveitarfélaga hafi verið kallaður til þess að möndla um þessi mál, að það sé búið að ganga frá því að sveitarfélögin taki þennan pakka yfir, en hins vegar skal ég ekkert um það fullyrða á þessu stigi, það kemur auðvitað í ljós hvað verður í þeim efnum. En allt er þetta frekar dapurlegt og einkum dapurlegt fyrir hæstv. félmrh. sem var einlægur í þessu efni og lagði nokkuð mikið undir, það virðist vera búið að beygja hann.