Húsaleigulög

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 15:47:01 (968)


[15:47]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta er bara formhyggja hjá hv. þm., formalismi af verstu tegund. Auðvitað er hægt að setja hlutinn svona fram að af því að húsaleigubætur í frv., sem einhvern tímann verði flutt, heyri undir fjmrh., þá komi honum ekkert við þegar hér er verið að fjalla um húsaleigubætur og þá sé ósanngjarnt að óska eftir nærveru hans. En málið liggur þannig að það eru hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh. sem takast á um þessi mál í ríkisstjórninni. Félmrh. upplýsir að það sé engin niðurstaða í þeim efnum og þá er náttúrlega fullkomlega eðlilegt að óskað sé eftir svörum frá hinum ráðherranum sem málið snertir, þ.e. fjmrh. Það er ekki hægt með neinum rökum að mæla á móti því að húsaleigubætur eru auðvitað eitt af undirstöðuatriðunum varðandi kjör leigjenda. Í öðru orðinu segir hv. þm. að þetta frv. sé mikilvæg réttarbót fyrir leigjendur, en ætlar hv. þm. að halda því fram að húsaleigubætur séu það ekki líka? Og er óeðlilegt þegar hér er mál á ferðinni sem varðar réttarstöðu og kjör leigjenda í landinu að þá sé spurt um húsaleigubætur? Ég skil ekki svona tilraunir til útúrsnúninga, ég verð að segja það alveg eins og er, og formhyggju sem er hv. þm. ekki samboðin. Við þurfum ekki að vera að fara slíka þrengslavegi hér í umræðum og skoðanaskiptum á Alþingi. Hins vegar skal ég ekki þrasa um þetta frekar. Ef ríkisstjórnin er þannig á sig komin að það er beinlínis stórhættulegt fyrir stjórnarsamstarfið að orðið sé við saklausri ósk af þessu tagi og fjmrh. komi hér og svari spurningum, þá verður stjórnin náttúrlega að meta það hvort hún leggur það á sig að hunsa slíkar sanngjarnar óskir til þess að reyna að lengja líf sitt a.m.k. um einhverja daga, sem þá væntanlega eru.