Húsaleigulög

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 15:51:34 (971)

[15:51]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef ekkert legið á liði mínu í félmn. að frumvörp nái þar fram að ganga sem mér eru að skapi. Ég er alveg skýr á því hvaða frv. er til umræðu en hins vegar er það svo að það er nauðsynlegt til þess að gera sér grein fyrir hvaða áhrif þetta frv. hefur á stöðu leigjenda að vita það, hvort ætlunin er að leggja fram annað frv. jafnhliða sem fjallar um húsaleigubætur. Ég veit það alveg fullvel að það frv. er ekki hér á dagskrá því það er ekki komið fram. Ég er ekki svo skyni skroppinn að ég telji að frumvörp séu hér á dagskrá í þinginu sem er ekki búið að leggja fram, en hins vegar er það nauðsynlegt að vita hvort það kemur fram því að það hefur auðvitað áhrif á þá löggjöf sem við erum að ræða um og áhrif á það hvað hún er miklar réttarbætur fyrir leigjendur og leigusala í landinu.