Húsaleigulög

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 16:09:09 (981)


[16:09]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. síðasti ræðumaður hefur eitthvað misskilið orð mín og ég held reyndar misskilið grundvallarhugsunina á bak við húsaleigubætur. Ég held að það hafi aldrei staðið annað til en að stofn til húsaleigubóta yrði sannanlega greidd húsaleiga sem hægt er að sýna fram á að hefur verið greidd og er þannig fram talin. En kostnaður leigjandans og það yrði síðan aftur til þess að þessi mál almennt kæmu meira upp á yfirborðið af þeirri ósköp einföldu ástæðu að leigjendur mundu frá og með upptöku húsaleigubótanna að sjálfsögðu sjá sér hag í því að telja skýrt og skilvíslega fram allan þann kostnað sem þeir hefðu vegna leigu íbúðarhúsnæðis. Það hlýtur að vera markmið í sjálfu sér að þessi mál komi upp á yfirborðið og um leiguviðskiptin séu gerðir samningar sem tryggja réttarstöðu beggja aðila. Skattaleg meðferð leiguteknanna er svo aftur annað mál ef hv. þm. var að láta að því liggja eða lýsa sig stuðningsmann þess að það yrðu skattfrjálsar tekjur, þá er það bara algerlega ( ÞurP: Það ætla ég ekki að gera. ) nei, nei. En þó svo væri, þá væri það algerlega sjálfstætt mál hvernig menn vilja skattleggja leigutekjurnar sem slíkar, en það hlýtur að vera markmið okkar allra að þær séu taldar fram, að báðir aðilar geri með réttum hætti grein fyrir þessum færslum. Núverandi ástand er bersýnilega óréttlátt gagnvart leigjendunum. Það er ekki hægt að mæla á móti því að á sama tíma og þeir sem eru að kaupa eða hafa verið að byggja sér húsnæði fá stuðning í gegnum vaxtabætur til þess að mynda þá eign, þá fá leigjendur ekki neitt skattalegt hagræði en bera kannski ekkert ósvipaðan kostnað vegna leigu á íbúðarhúsnæði og aðrir bera í gegnum afborganir af þeirri eign sem þeir eru þó að mynda með stuðningi hins opinbera í gegnum vaxtabætur. Þetta ástand er bersýnilega óréttlátt, þetta er mismunun.