Yfirstjórn menningarstofnana

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 17:07:52 (990)


[17:07]
     Flm. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna ummæla hæstv. ráðherra um lögin og Þjóðminjasafnið vil ég segja að það sem ég tel að hafi vægast sagt orkað tvímælis í hans gerðum þar hafi verið það að samkvæmt lögum um Þjóðminjasafnið þá er safnstjórinn staðgengill þjóðminjavarðar. Ég tel að það hefði verið eðlilegra að safnstjórinn hefði fengið að gegna þessu starfi í forföllum þjóðminjavarðar heldur en að ná í mann utan úr bæ með þeim hætti sem hæstv. ráðherra gerði.
    Ég heyrði ekki betur, í öðru lagi virðulegi forseti, en að sú stjórnarnefnd sem hæstv. ráðherra nefndi varðandi þjóðbókasafnið, mér gest afar vel að þeirri uppsetningu sem hæstv. ráðherra gerði þar grein fyrir. Ég heyrði þó ekki hvaða hugmyndir væru um hinn æðsta starfsmann þessarar stofnunar en ef ég skil rétt mál ráðherra þá er þar kannski gert ráð fyrir því að þessi nefnd sem hann nefndi sé eins konar samvinnunefnd Landsbókasafnsins og háskólabókasafnsins og sé þar með stjórn safnsins en síðan er auðvitað eftir að ákveða hvernig forstöðumaður safnsins verður ráðinn.
    Það er út af fyrir sig rétt að lokum, virðulegi forseti, að samkvæmt núverandi stjórnskipun þá ber ráðherra býsna mikla ábyrgð, en ég spyr: Hvenær hefur reynt á hana? Hvenær hefur reynt á þessa ráðherraábyrgð? Er ekki kominn tími til þess að menn hugsi þessa ráðherraábyrgð upp á nýtt og geri sér grein fyrir því að ráðherrunum hefur nær alltaf tekist að skjóta sér undan henni þegar mikið hefur legið við. Þess vegna held ég að það sé skynsamlegra að ríkisstofnanirnar verði sjálfstæðar stofnanir með sjálfstæða faglega stjórn.