Yfirstjórn menningarstofnana

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 17:09:48 (991)


[17:09]
     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Aðeins tvö smáatriði. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði að frv. til þjóðminjalaga tók undarlegum breytingum í þinginu og ekki voru það síst hv. þingmenn hans eigin flokks sem tóku þar einkennilegar dýfur og voru þó ekki einir um það. Það er alveg rétt að þær breytingar voru tvímælalaust til hins verra. Þannig að ég skal ekki gera miklar athugasemdir um það þó eitthvað þurfi að endurskoða í þessum ágætu lögum.
    En aðeins að lokum, frú forseti, þetta ákvæði um að menn skuli helst ekki gegna mikilvægum störfum nema í átta ár kemur úr hörðustu átt á hinu háa Alþingi. Enginn telur menn úreldast hér á hinu háa þingi þó að þeir sitji átta ár og lengur og ég vil aðeins upplýsa, frú forseti, að til eru menn sem ég sakna héðan úr þinginu sem margir hverjir voru búnir að sitja hér áratugum saman og þykir endurnýjunin hafa tekist mjög illa. Þannig að ég held að við ættum ekki að leggja mikla áherslu á það að menn gegndu ekki áhrifastöðum meira en í átta ár og mér finnst fráleitt að ætla að fara að hygla mönnum með hærri launum vegna þess. Reynist menn vel í starfi á að sjálfsögðu að vera hægt að endurráða þá alveg eins og þjóðin endurnýjar kjörtímabil eftir kjörtímabil ágætustu þingmenn sína og óskar eftir að hafa þá áfram. ( Gripið fram í: Og fellir aðra.) Og fellir aðra. En auðvitað á að vera möguleiki á að skipta um starfsmenn ef þeir ekki reynast eins og skyldi. Þannig að ég legg enn áherslu á það að mér finnst slíkt ákvæði ekki hæfa og allra síst héðan.