Útsendingar sjónvarps og útvarps til fiskimiða

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 17:12:13 (992)

[17:11]
     Flm. (Guðjón Guðmundsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um útsendingar sjónvarps og útvarps til fiskimiðanna kringum landið. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, Eggert Haukdal, Sturla Böðvarsson, Svanhildur Árnadóttir, Árni R. Árnason og Árni M. Mathiesen.
    Tillagan sem er á þskj. 99 er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að láta gera könnun á þeim kostum sem í boði eru til að bæta útsendingar sjónvarps og útvarps til fiskimiðanna kringum landið með hliðsjón af þeirri tækniþróun sem orðið hefur á sviði ljósvakamiðlunar.``
    Eftir því sem ég kemst næst mun áætlun um dreifingu sjónvarpssendinga á fiskimiðunum umhverfis landið ekki hafa verið gerð síðan 1974. Í skýrslu sem menntmrn. gaf út 29. nóv. 1974 er sýndur viðauki við þáverandi dreifikerfi og til hvaða svæða sjónvarpsmerkið næði. Síðan hefur dreifikerfið verið stækkað en sá viðauki hefur þó óverulega beinst að fiskimiðunum nema þeim sem næst liggja ströndum landsins.

    Við kostnaðaráætlunina 1974 framreiknaða hefur síðan verið stuðst þegar þetta mál hefur komið til umræðu á Alþingi, síðast árið 1990, en þá kom fram í svari þáv. menntrmh. við fyrirspurn að kostnaður við sjónvarp til sjómanna var talinn um 490 millj. á verðlagi í árslok 1988. Og að í áætlunum um dreifingu sjónvarps til sjómanna væri gert ráð fyrir aflmiklum sendum sem ná munu um 25--50 sjómílur út fyrir grunnlínu landhelginnar. Þar kom einnig fram að af fjárhagsástæðum hefði áætlun um framkvæmdir við þetta viðamikla verkefni ekki verið tímasett en auk stofnkostnaðar mundi fylgja tvöföldun á rekstrarkostnaði dreifikerfis sjónvarpsins sem væri áætlaður 34 millj. á ári.
    Væntanlega hefur margt breyst frá 1974 varðandi möguleika á útsendingum sjónvarps og hljóðvarps. Því er hér lagt til að gerð verði könnun á þeim kostum sem í boði eru til að bæta útsendingar sjónvarps og útvarps til fiskimiðanna með hljóðsjón af þeirri tækniþróun sem orðið hefur á sviði ljósvakamiðlunar. Tækniþróun á sviði sjónvarps og útvarps er mjög ör, gervihnattatækni og annarri útsendingartækni hefur fleygt fram á undanförnum árum. Það hlýtur að vera tímabært að skoða möguleika á notkun gervihnattasendinga fyrir hljóðvarp og sjónvarp sem bætt geti þjónustu við sjómenn á hafi úti og jafnframt þjónað dreifikerfinu innan lands. Móttökuskilyrði sjónvarps og útvarps eru mjög misjöfn á hafinu kringum Ísland. Skipverji á Víkingi AK 100 sem hefur fylgst vel með móttökuskilyrðum undanfarin ár gerði þann uppdrátt sem fylgir þessu þskj. Ef farið er hringinn í kringum landið þá er lýsing hans á móttökuskilyrðum sjónvarps þannig: Sýn sést frá Látrabjargi alla leið til Reykjavíkur. Ríkissjónvarpið sést inni í Ísafjarðardjúpi, dettur út við Stigahlíð, sést við Súgandafjörð og Dýrafjörð, ekki út af Patreksfirði og Tálknafirði nema á kafla í Nesdýpi, dettur út tvær mílur út af Straumnesi. Fyrir sunnan Látrabjarg heyrist talið en mynd sést ekki nema það sé háþrýstisvæði yfir landinu. Byrjar að sjást 20 mílur fyrir sunnan Látrabjarg og sést að Öndverðarnesi. Dettur svo út að mestu en kemur aftur inn við Hellnanes og þá mjög óskýrt en næst svo mjög skýrt þegar 22 mílur eru í Akrafjall, sést svo alveg óslitið mjög vel að Ingólfshöfða. Dettur út fyrir austan Ingólfshöfða og kemur aftur inn við Hornafjörð, smáfjarar svo út og er alveg dottið út við Stokksnes. Kemur ekki inn aftur fyrr en fyrir Langanes þar sem það sést ef legið er í vari. Dettur svo út þegar siglt er fyrir Langanes, kemur ekki aftur inn fyrr en við Grímsey þar sem það nær 15 mílur norður fyrir eyjuna og er skýrt frá Grímsey og inn á Eyjafjörð. Dettur út aftur við Húnaflóa en kemur svo aftur inn við Djúp. Ef það er háþrýstisvæði yfir landinu lagast skilyrðin. Þá næst sjónvarp t.d. út af Djúpavogi, við Seley, og út af opnum fjörðum fyrir austan og vestan. Í skipunum sem ég nefndi áðan er mjög gott loftnet og sjá skipverjar oft sjónvarp þó lítið sjáist í nálægum skipum. Þeir sjá norska sjónvarpið á Breiðafirði og út af Vestfjörðum, einnig út af Norðurlandi og Austfjörðum. Norska og færeyska sjónvarpið sjást mun lengra frá ströndum en það íslenska. Norska sjónvarpið er mjög skýrt 100 mílur frá strönd Noregs og það færeyska 50--60 mílur frá eyjunum.
    Eins og sést af þessari lýsingu eru móttökuskilyrði sjónvarps mjög misjöfn á fiskimiðunum umhverfis landið. Það má segja að þau séu allgóð frá Faxaflóa og austur að Ingólfshöfða en ýmist gloppótt eða afleit annars vegar.
    Móttökuskilyrði útvarps eru einnig mjög misjöfn. Langbylgja heyrist víðast hvar, þó illa út af Vestfjörðum og á Breiðafirði. Miðbylgja heyrist út af Norðausturlandi, Austfjörðum og Suðausturlandi. Bylgjan heyrist vel á Breiðafirði, við Jökul og inn Faxaflóa og Rás 2 heyrist alls staðar þar sem sjónvarp næst. Erlendar stöðvar yfirgnæfa langbylgju og miðbylgju þegar dimmir. Það er stór hópur sjómanna sem er langdvölum úti á sjó, þetta á við um farmenn, togarasjómenn, þá sem stunda rækju- og loðnuveiðar, skipverja á línuskipum og fleiri.
    Það hlýtur að teljast sanngjarnt að þessi fjölmenni hópur geti fylgst með útsendingum sjónvarps og hljóðvarps að jafnaði. Þessir menn eru oft og tíðum sambandslausir við umheiminn og þeir heyra ekki í útvarpi og sjá ekki sjónvarp, farsíminn virkar ekki á stórum hafsvæðum og þá er eina sambandið við land gegnum talstöð. Ef hún bilar er sambandsleysið algjört sem skapar að sjálfsögðu verulegt öryggisleysi þegar ekki er einu sinni hægt að fylgjast með aðvörunum um hættu t.d. fárviðrisspám og tilkynningum um ís.
    Við sem flytjum þessa tillögu leggjum ekki dóm á hvaða kostir eru vænlegastir til að bæta útsendingar sjónvarps og útvarps til fiskimiðanna. Bent hefur verið á að loftnet á Bolafjalli mundi gera stórkostlegt gagn og einnig loftnet á Gunnólfsvíkurfjalli. Við teljum að kanna þurfi alla möguleika sem bætt geta ástandið og við þá athugun verði höfð hliðsjón af því hvað tækni hefur fleygt fram á þessu sviði á undanförnum árum.
    Hæstv. forseti. Ég legg til að tillögunni verði að lokinni fyrri umræðu vísað til síðari umr. og hv. menntmn.