Endurmat iðn- og verkmenntunar

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 17:47:56 (998)


[17:47]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég held að hér sé borið fram eitt veigamesta málið sem sýnt hefur verið á þessu þingi. Ég vil þakka hv. flm. fyrir að hafa lagt það fram að nýju. Ég held að ástandið í iðnnámi í landinu sé allalvarlegt og svo er komið í nokkrum iðngreinum að við auðn horfir. Við þetta getum við auðvitað ekki unað og ég get engan veginn sætt mig við það sem hæstv. ráðherra sagði áðan, að það væri ekki ástæða til að samþykkja þessa tillögu þar sem verið væri að vinna í þessum málum. Þetta er rangt. Alþingi Íslendinga á að samþykkja þessa tillögu og sýna þannig í verki vilja sinn til að á þessum málum verði tekið. Þar með er ég ekkert að draga í efa að hæstv. ráðherra sé allur af vilja gerður að vinna að þessum málum. En Alþingi Íslendinga hlýtur auðvitað að hafa leyfi til að lýsa sínum eindregna vilja því ég get ekki ímyndað mér að hér sé nokkur hv. þm. sem ekki hefur áhyggjur af þessum málum. Sannleikurinn er sá að þessi vandræði eiga sér alllanga sögu. Það hefur því miður verið svo um langt skeið að menn hafa vanmetið verkmennt í landinu. Ég minnist þess allar götur frá því að ég var sjálf í gagnfræðaskóla að mikill munur var gerður á bóknámi og verknámi. Úr þessu hefur vissulega verið bætt með árunum en þegar niðurskurður og samdráttur er í þjóðfélaginu þá er ég ekki í nokkrum vafa um að hann bitnar verr á verkmennt heldur en bókmennt.

    Það er hins vegar ekki alveg rétt sem hv. 1. flm. sagði hér áðan að þessum málum hefði verið sýndur lítill sómi. Aðeins höfum við fleiri gert þau að umræðuefni þó að við höfum ekki flutt eins myndarlega tillögu og hér liggur frammi. Ég vil minna hv. þm. á og frú forseta, að ég hef hvað eftir annað gert að umræðuefni verkmenntakennslu í grunnskóla, vegna þess að ég er sannfærð um að þar á að hefja starfið. Sú hefur orðið raunin á að verkmenntakennsla í grunnskólanum hefur mér er óhætt að segja, næstum því lagst af. Það hófst með því að farið var að kenna piltum og stúlkum sömu handmennt án þess að tvöfalda kennslutímann þannig að úr varð hvorki fugl né fiskur. Þetta hefur löngu verið viðurkennt hér á hinu háa Alþingi þar sem þáverandi hæstv. menntmrh., Svavar Gestsson, sinnti beiðni minni um að gerð yrði könnun á þessu, sem hv. þm. Arndís Jónsdóttir studdi einnig, hún var hér inni sem varaþingmaður Sjálfstfl., enda handmenntakennari og skildi þess vegna alvöru málsins. Í þeirri skýrslu sem ráðherra lagði fram kom í ljós það sem við höfðum verið að halda fram að kennsla í grunnskólum í verkmennt er miklum mun minni heldur en hún var á árum áður. Það ætti að vera flestum ljóst að til þess að hvetja börn til að finna sér farveg þarf auðvitað að komast að því snemma hvar hæfileikar barnanna liggja bestir. Það er afar erfitt að fara að kenna fullorðnu fólki að sauma spor eða negla nagla ef börnin hafa aldrei vanist því að umgangast slíka hluti og menn þurfa helst að þekkja mun á tré og járni áður en þeir koma inn í iðnskóla.
    Þess vegna vil ég leggja á það áherslu að ekki einungis verði unnið að því að efla verkmenntaskólana heldur einnig verkmennt í grunnskólanum. Ég held að það sé afar mikilvægt. Ég verð að segja alveg eins og er að ég hef ákaflega litla virðingu og áhuga fyrir því að iðnaðarmenn og þeir sem í iðnaði vinna þurfi endilega að komast upp á háskólastig. Ég hef ekkert á móti því, en ég sé svo sem ekki hvaða tilgangi það þjónar. Alla vega finnst mér hégóminn einn hvort það heitir háskólastig eða einhvers konar annað framhaldsnám. Aðalatriðið er að okkur verði skilað góðum, vel menntuðum iðnaðarmönnum, því að sjálfsögðu hefur sú þróun orðið í veröldinni að kröfur hafa aukist. Ég geri ráð fyrir að það sé ekkert auðvelt að fylgjast með þróun í iðnaði án þess að kunna eitthvað fyrir sér í tungumálum, svo að dæmi séu tekin, sem menn gátu komist af án hér fyrir áratugum síðan. Það sem við þörfnumst er auðvitað vel menntað iðnaðarfólk og hönnuðir af öllu tagi ef við eigum að fylgjast með samkeppninni í þessum greinum í heiminum í dag.
    Þess vegna legg ég á það mikla áherslu, hæstv. forseti, að við mönnum okkur upp, þó að við séum nú ekki mörg í salnum núna, og vil þá beina máli mínu til hv. menntmn. þar sem formaður hennar situr hér, að menn leggi til hliðar lítilmótleg flokkssjónarmið og sjái nauðsyn þess að Alþingi sendi ríkisstjórninni skýr skilaboð um að úr þessum málum verði bætt. Það er að verða vandamál hversu illa mannaðar sumar iðngreinar eru og við getum séð í hendi okkar hvernig fer ef heilu greinarnar horfa fram á sína eigin auðn.
    Ég vil því enn og aftur skora á hæstv. ráðherra að vinna að sjálfsögðu áfram að því sem verið er að gera í ráðuneyti hans en ég vil jafnframt biðja hv. menntmn. að sinna þessu máli vel og myndarlega í nefndinni.