Endurmat iðn- og verkmenntunar

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 17:54:54 (999)

[17:54]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með síðasta ræðumanni og þakka fyrir þessa tillögu sem hér er fram komin. Þó hún sé ekki ný af nálinni þá er hún sígild og kærkomin hér sem umræðuefni vegna þess að eins og komið hefur fram þá er iðn- og verkmenntun í landinu þannig fyrir komið að ástandið er að verða mjög alvarlegt og það er mjög nauðsynlegt að taka á þessum hlutum. Ef ég man þær tölur réttar þá lítur dæmið einhvern veginn þannig út að af fólki sem fer í framhaldsnám þá ljúki u.þ.b. 45% af hverjum árgangi stúdentsprófi eftir einhvern tiltekinn tíma, aðeins um 15% einhvers konar verkmenntun og um 30% komi án nokkurra starfsréttinda út á vinnumarkað. Þetta getur auðvitað ekki gengið og alls ekki núna þegar öllum þjóðum er ljóst að það sem skiptir máli í atvinnuháttum framtíðarinnar er starfsmenntun, verkmenntun, og að hafa vel menntað starfsfólk. Þetta er það sem öllu máli skiptir nú um stundir og þess vegna getur þetta ekki gengið svona eins og það hefur gengið hjá okkur.
    Ég talaði hér um að 15% árgangs kæmi með einhvers konar verk- eða iðnmenntun út á vinnumarkaðinn. Þá verðum við að hafa í huga að stór hluti af þessum 15% eru í stóru iðngreinunum okkar sem eru húsasmíðarnar og málm- og skipasmíðar. Þetta eru iðngreinar sem liggur við auðn í nú um stundir og ekki eru líkur á því að verkefni aukist í þessum greinum á næstunni. Það þarf því að gerast verulegt átak í iðn- og verkmenntun ef við ætlum að eiga fólk til að vinna hér í iðngreinunum. Þá vil ég leggja áherslu á að við tölum ekki bara um hinar svokölluðu löggiltu iðngreinar sem hafa verið inni í Landsambandi iðnaðarmanna. Við verðum að fara að snúa okkur að því að mennta mun fleira fólk í þeim greinum sem hingað til hafa heyrt undir Félag íslenskra iðnrekenda og hafa byggt nær einvörðungu á ófaglærðu fólki. Það verður að mennta mun fleira fólk í þessum greinum og þess vegna fagna ég því að ráðherra skyldi lýsa því yfir hér áðan að menn væru að huga að því í ráðuneytinu að koma upp nýjum starfsmenntagreinum á framhaldsskólastiginu og einnig stuttu starfsnámi, því þetta er einnig mjög mikilvægt. Við verðum að auka

fjölbreytnina í starfsmenntatilboðum til ungs fólks. Þar verðum við að huga að matvælagreinunum, við verðum að huga að ferðaþjónustunni, við verðum að huga að hönnun og listiðn og ýmsu slíku. Ég held að þarna sé eins og ég segi alveg óplægður akur sem þarf að taka verulega til hendinni í.
    En ef menn ætla að gera þetta þá þýðir ekki á sama tíma að spara og skera stöðugt niður í menntakerfinu og skólakerfinu. Auðvitað vitum við að bóknám er almennt ódýrara heldur en verknám og þess vegna hefur kannski tilhneigingin verið sú að beina fólki frekar í bóknámsgreinar heldur en verknámsgreinar. Þá er ég persónulega þeirrar skoðunar að bóknám vegi oft of þungt í verknáminu, eða iðnnáminu. Það er mjög útbreidd skoðun hjá Íslendingum að bóknámið sé ævinlega grunnurinn, það verði að byggja fyrst einhvern grunn sem sé þá einhver bóknámsgrunnur og síðan ofan á það eða samhliða því einhverja verkmenntun. Það er að segja, við verðum að fara frá hinu almenna til hins sértæka. Mér finnst alveg eins hugsanlegt að við getum farið hina leiðina, þ.e. frá hinu sértæka til hins almenna, þannig að fólk geti byggt bóknám ofan á ákveðna verkmenntun. Nú vitum við að það eru stórir hópar krakka og unglinga sem hefur mistekist í skólakerfinu, þeir eru með ákveðna andúð á skólakerfinu, þeim er illa við nám ekki síst bóknám þar sem þeim hefur mistekist kannski æ ofan í æ í skóla. Ef þau færu verknámsleiðina og mundu síðan, eftir að þau eru búin að vinna bug á þessari andúð gagnvart skólakerfinu, byggja bóknámið ofan á það þá held ég að það væri vel þess virði að reyna það. Sem sagt, fara báðar leiðir, vera ekki að einblína endilega á það að það verði að vera frá hinu almenna til hins sértæka.
    Ég minntist hér á að þetta væri mikilvægt vegna atvinnuhátta framtíðarinnar. Ég er sannfærð um að í þessum atvinnuháttum mun vægi hvers starfsmanns og menntun hvers starfsmanns skipta miklu meira máli en það gerir í dag. Þessi svokölluðu stórfyrirtæki sem hafa byggt mjög mikið á svona færibandastarfsemi þar sem starfsmenn eru nánast eins og ,,robotar`` eru að hverfa í auknum mæli. Það er miklu meiri áhersla lögð á það að hver og einn starfsmaður hafi ákveðnu eftirlitshlutverki að gegna og verði að vera vaxandi í sínu starfi þar sem hann er. Þess vegna mun vægi hvers starfsmanns aukast og mjög miklu skipta að hver og einn starfsmaður sé vakandi í sínu starfi og vel menntaður.
    Þá er annað sem er líka ljóst og það er að fólk mun skipta um starfsvettvang oftar en einu sinni og oftar en tvisvar jafnvel á ævinni. Það verður að vera undir það búið og þess vegna er talað um það núna að þegar fólk er að reyna að tryggja atvinnuöryggi sitt, þá reynir það að tryggja það með menntun, að eiga kost á þessari svokölluðu símenntun og endurmenntun þannig að það geti, þó svo að það missi eitt starf, með tiltölulega auðveldum hætti gengið inn í annað.
    Þetta vildi ég segja, virðulegur forseti, og ég tek undir það með hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að ég held að það væri alls ekki til skaða fyrir ráðherra og menntmrn. þó að þingmenn tækju sig nú saman í andlitinu og ályktuðu eitthvað um þetta mál. Það gæti ekki verið til annars en til að styðja það starf sem fer fram í ráðuneytinu.