Endurmat iðn- og verkmenntunar

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 18:06:57 (1001)


[18:06]
     Sigríður A. Þórðardóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er hreyft mjög mikilvægu máli sem er staða iðnmenntunar á Íslandi. Gerð er tillaga um það að skipaður verði sérstakur starfshópur til þess að endurmeta iðn- og verkmenntunina. Mér er þetta mál kannski að nokkru leyti mjög skylt vegna þess að frá því í mars á síðasta ári hef ég stýrt nefnd sem endurskoðar lög um grunnskóla og framhaldsskóla. Í þeirri endurskoðun er iðnmenntunin að sjálfsögðu mjög veigamikill þáttur.
    Nefnd um mótun menntastefnu skilaði áfangaskýrslu í janúar sl. og þar koma fram tillögur um það hvernig skipa megi verkmenntun í framtíðinni og, með leyfi forseta, vil ég lesa nokkrar af þeim tillögum:
    Þróað verði stutt og langt starfsnám í einstökum greinum með virkri þátttöku atvinnulífsins.
    Iðnmenntun verði samstarfsverkefni ríkis og viðkomandi starfsstétta.
    Atvinnulífið ákveði námsmarkmið einstakra iðngreina.
    Aðilar úr samtökum atvinnurekenda og launþega eigi sæti í stjórn iðnmenntaskóla eða deilda innan þeirra í tilraunaskyni.
    Menntmrn. og atvinnulífið hafi eftirlit með gæðum námsins.
    Tryggja þarf að nemendur eigi kost á markvissum undirbúningi undir nám á háskólastigi í framhaldi af iðn- eða starfsnámi.
    Þetta er ofurlítil innsýn í þær tillögur sem nefnd um mótun menntastefnu hefur þegar sett fram, en lögin og vinnan að þeim eru nú á lokastigi og verður frv. þá væntanlega lagt fram á þinginu mjög fljótlega og eins og ég nefndi áðan er iðnfræðslan mjög veigamikill þáttur í þessari endurskoðun. Eins og ráðherra nefndi hér áðan var samþykkt frv. sl. vor sem lýtur að tilraunastarfi í starfsnámi. Það er þegar hafið tilraunastarf við Iðnskólann í Reykjavík varðandi bókiðngreinar eins og ráðherra kom inn á hér áðan og það er ýmislegt fleira sem er á lokastigi í undirbúningi og þá get ég nefnt t.d. bílgreinarnar.
    Það komu fram í máli hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar áhyggjur af því hversu fáir nemendur framhaldsskólans færu í verknám. Þetta eru svo sannarlega áhyggjur sem vert er að hafa. Það er alveg ljóst að þessu er allt öðruvísi farið hjá okkur Íslendingum heldur en hjá mörgum öðrum þjóðum og þá get ég nefnt til samanburðar Þjóðverja þar sem 70% af nemendum framhaldsskóla ljúka einhvers konar starfsnámi.
    Það má líka geta þess og það kemur fram í skýrslu Félagsvísindastofnunar um námsferil í framhaldsskóla að einungis 9,4% nemenda sem ljúka grunnskóla hefja strax starfsnám að loknu grunnskólaprófi. Þetta er líka athyglisverð staðreynd sem segir mjög mikið um áhuga nemenda fyrir slíku námi. Langsamlega flestir þeirra kjósa fremur bóknám en verknám og það leiðir að sjálfsögðu hugann að því hver staða verknámsins er. Það eru raunar nokkrir þingmenn hér sem hafa komið inn á það og ég held að það sé alveg óhætt að taka undir það að viðhorfið til verknáms og starfsmenntunar virðist vera þannig að nemendur sem standa frammi fyrir að velja hvaða leið þeir eiga að fara að loknu grunnskólaprófi virðast ekki telja starfsnám raunhæfan kost. Þannig er það mjög mikið verkefni

að breyta þessu viðhorfi og það verður að sjálfsögðu ekki gert öðruvísi en að leggja stóraukna áherslu á starfsmenntunina og að auka þar líka áhrif aðila vinnumarkaðarins. Og þá ber að leggja áherslu bæði á stuttar og langar starfsnámsbrautir og stefna að því að stórauka það hlutfall nemenda sem mundi þá telja það fýsilegan kost að sækja sér starfsnám.
    En það er alveg ljóst að uppbygging fjölbreyttrar starfsmenntunar er brýn nauðsyn og með því að byggja upp starfsmenntun með miklu kröftugri hætti heldur en gert er í dag, þá er hægt að koma betur til móts við þarfir ólíkra nemenda og jafnframt að treysta stöðu íslensks atvinnulífs í þessari síharðnandi alþjóðlegu samkeppni sem snýst að sjálfsögðu um gæði þjónustu, vöru og vinnuafls. Ég reyndar vænti þess og veit að við eigum áreiðanlega eftir að eiga hér í vetur miklar og góðar umræður um menntamál þegar þau frumvörp sem eru í vinnslu koma fram. Ég vil líka að það komi fram við þessar umræður að ég tel það löngu tímabært og það þurfi miklu meiri og opnari umræður um menntamál í þjóðfélaginu vegna þess að ég tel að þau mál þurfi forgang og hafi kannski aldrei þurft eins mikinn forgang og einmitt núna.