Endurmat iðn- og verkmenntunar

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 18:14:10 (1003)

[18:14]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð til viðbótar því sem ég sagði hér áðan. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagðist ekki geta sætt sig við þau orð mín að mér þætti ekki ástæða til að samþykkja þessa tillögu. Þetta má nú ekki leggja út á verri veg fyrir mér. Ég sagði að samþykkt tillögunnar hefði ekki sérstaka þýðingu vegna þess að málið væri þegar í vinnslu og hefði verið undanfarin missiri. Ég var ekki að leggja til að tillagan yrði felld, alls ekki og ég hef í sjálfu sér ekki nokkurn skapaðan hlut á móti því að hún verði samþykkt, en mér finnst það vera spurning fyrir þingið yfirleitt hvort það á að vera að samþykkja tillögur um málefni sem vitað er að verið er að vinna að og hefur verið unnið að í langan tíma.
    Hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði líka að þessi umræða um verkmenntunina, þessi vandræði í kringum hana ætti sér langa sögu og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði að þetta væri ekki nýtt mál, þetta væri sígild tillaga og það er nú einmitt málið. Þetta hefur verið rætt svo lengi. Svo lengi sem ég man hafa menn verið með tillögur uppi um að það þyrfti að auka verkmenntunina í landinu og sýna henni meiri virðingu. En af einhverjum ástæðum höfum við ekki komist neitt áfram í þessum efnum. Ég trúi því og treysti að það verk, sem nú er verið að vinna af nefnd um mótun menntastefnu sem ég setti á laggirnar í marsmánuði 1992, fái góðan stuðning hér í þinginu vegna þess að þetta er eitt af þeim meginatriðum sem nefndinni var falið að gera tillögur um, hvernig við gætum lyft verkmenntuninni í landinu á þann stall sem hún á skilið. Að þessu veit ég að er unnið af fullri einlægni í þessari nefnd.
    Hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði líka að við ættum að leggja til hliðar lítilmótleg flokkssjónarmið og senda ríkisstjórninni skýr skilaboð í þessum efnum. Ríkisstjórnin hefur þegar markað stefnuna í þessum málum, hvert hún vill halda, og vinna nefndarinnar er komin á lokastig og frumvörp um þetta efni verða kynnt nú á allra næstu vikum og lögð fyrir þingið öðru hvoru megin við áramót.
    Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði líka að það þýddi ekki að vera að tala um bætta verkmenntun í landinu á sama tíma og verið væri að spara og skera stöðugt niður. Mér er það alveg ljóst að verkmenntun í landinu verður ekki bætt nema til þess verði veitt aukið fjármagn. Það er mér alveg ljóst og ég tók það sérstaklega fram í ræðu minni áðan að á næstu árum yrði að veita sérstakt fjármagn til eflingar starfsnámi. Annars yrði

hætt við að tillögur nefndar um mótun menntastefnu, um endurskipun þess, næðu ekki fram að ganga. Ég hlýt hins vegar að taka fram að þegar um takmarkað fjármagn er að ræða þá verðum við að raða í forgangsröð og hagræða í rekstri skóla og það er það sem við höfum verið að gera. Við höfum verið að hagræða t.d. í rekstri skólanna með því að skipuleggja námsframboð þeirra, ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem margir skólar eru verkmenntaskólar og iðnskólar. Og þegar um takmarkað fjármagn er að ræða þá höfum við ekki efni á að bjóða fram sama námsframboð sem er dýrt í iðn- og verknámi í öllum þessum skólum. Það höfum við verið að gera og um það er held ég ekki mikill ágreiningur. Það held ég ekki.
    Þetta vildi ég taka sérstaklega fram að gefnu tilefni. Ég styð auðvitað í öllum meginatriðum það sem þessi tillaga gengur út á. Það hélt ég að ég hefði líka tekið fram áðan og ég treysti því að hér á þinginu síðar í vetur takist góð samstaða um það að efla iðn- og verkmenntun í landinu.