Endurmat iðn- og verkmenntunar

28. fundur
Þriðjudaginn 02. nóvember 1993, kl. 18:19:27 (1004)


[18:19]
     Flm. (Stefán Guðmundsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim sem hér hafa tjáð sig um þessa tillögu. Í sjálfu sér kemur mér ekki neitt svo sérstaklega á óvart sem hér hefur komið fram. Það staðfestir þó vissar grunsemdir hjá mér um það að mér finnst gæta ákveðinnar tregðu hjá ákveðnum aðilum við það að þetta mál nái í höfn og það veldur mér vonbrigðum, ágætir þingmenn sem ég hélt að hefðu fullan skilning á mikilvægi þessa máls. Ég geri mér grein fyrir því að það er allt rétt sem hæstv. menntmrh. segir, að það er verið að vinna að þessum málum uppi í ráðuneyti. Ég veit líka, af persónulegum kynnum mínum af hæstv. ráðherra, og ég hlusta grannt á það sem hann segir og skrifar um þessi mál, að hans viðhorf er ekkert langt frá mínum í þessum efnum. Ég veit að hann vill þessum málum vel, ég þekki það. En það vill hins vegar svo til að þetta er í þriðja skiptið sem ég kem og tala fyrir mjög svipaðri tillögu og þessari. Ég er ekki að flytja þetta mál hér inn á þing í fyrsta skipti til þess að það liggi skýrt fyrir hver vilji hv. alþm. er í þessum efnum. Hv. 10. þm. Reykn., Sigríður Anna Þórðardóttir, talaði hér, en hún er jafnframt formaður menntmn. þar sem þessi tillaga hefur fengið að hvíla í miklum friði, þrátt fyrir það, eins og ég gat um í mínum upphafsorðum, að allar umsagnir, allar umræður sem farið hafa fram í þinginu, hver og einn einasti þingmaður sem talað hefur hér í þessi þrjú skipti hefur verið jafnjákvæður og þeir sem töluðu áðan, hver og einn einasti. Umsagnirnar sem komu til formanns nefndarinnar voru allar á einn veg. Það þarf enginn að segja mér að það sé ekki eitthvað sem býr að baki og ég spyr, þó að hv. þm. segi að að þessu sé unnið og það séu fluttar tillögur um þetta mál og þær séu komnar fram, þá spyr ég bara aftur á móti: Af hverju bíða þá hundruð iðnnema sem hafa lent í þeim blindgötum kerfisins sem ég hef verið að vara við? Af hverju, hv. þm.? Gerðist það jafnhljóðlátt ef þetta ætti við í öðrum skóla og í öðrum greinum? Ég dreg það mjög í efa.
    Ég bendi á ákveðnar leiðir í þessu máli sem ég vil leggja þunga áherslu á og eru örugglega ekki mjög kostnaðarsamar fyrir ríkisvaldið miðað við það sem varið er til kennslumála. Það sem ég er að tala um er að þessir verkmenntaskólar á hverjum tíma taki upp samninga við meistara og fyrirtæki þannig að um leið og viðkomandi aðili skráir sig til náms í verkmenntaskóla þá liggi það fyrir hvort leiðin sé honum greið frá skóla í gegnum meistarakerfið. Það liggi bara fyrir þannig að nemandinn hefji ekki nám öðruvísi en hann viti hvort þessir samningar liggi fyrir milli skóla. Ég trúi því að það væri að mörgu leyti mikill kostur og eftirsóknarvert fyrir marga skóla að taka þetta upp. Ef ég man rétt, þá minnir mig nú --- og hér eru aðilar inni sem gætu leiðrétt mig í því --- að fyrir rétt um ári síðan hafi Verkmenntaskólinn í Neskaupstað einmitt tekið upp og gert hliðstæðar tilraunir og ég hef verið að tala um í þrjú ár. Ég legg því ekki svo mikið upp úr því að menn séu að tala um að þeir þurfi að óttast að hér sé verið að tala um mikinn kostnað.

Ég held að iðnmenntunin hafi ekki verið að sliga þetta þjóðfélag, það séu fremur aðrar greinar í þjóðfélaginu sem það hafi gert.
    En það sem fyrir mér vakir þegar ég tala á þennan hátt um það hvernig með tillöguna hefur verið farið þá er það það sem ég er að biðja um og þess vegna hef ég verið svo þrjóskur að flytja þessa tillögu nú enn og aftur, vissulega velti ég því fyrir mér hvort það hefði nokkurn tilgang. En Alþingi og alþingismenn eiga sinn rétt, að þetta mál eins og öll önnur fái þinglega meðferð. Alþingi á og má segja skoðun sína í þessu máli. Það er ekkert undir duttlungum einhverra nefndarmanna komið hvort þingmál nái hér fram eða ekki. Alþingismenn og Alþingi allt á rétt í þessum málum.
    Ég vil þakka þeim þingmönnum sem talað hafa í þessu máli, hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Guðjóni Guðmundssyni. Ég gæti sagt mjög margt til viðbótar við það sem þau hafa hér vikið að. Ingibjörg Sólrún vék einmitt að ýmsum nýjum greinum sem ætti og þyrfti að taka upp. Ég tek alveg heils hugar undir það og vík vissulega að því með örfáum orðum í minni greinargerð þar sem ég tala um ,,að þróa nýjar starfs- og iðnmenntabrautir``. Ég er auðvitað að tala um að það er margt sem bíður okkar í þeim efnum.
    Ég minnist líka á það á einum stað, ég veit ekki hvort menn hafi kannski gripið það hvað verið er að fara þegar ég tala um verkmenntabækur. Við sem höfum gengið í gegnum iðnnám, við þekkjum þetta gjörla þegar við förum í iðnnámið og vinnum með mönnum sem hafa unnið árum saman í ákveðnum iðngreinum án þess að hafa öðlast iðnréttindi. Hv. þm. Guðjón Guðmundsson vék aðeins að því áðan, þessir menn hafa langt til, ég segi ekki eins góða en mjög haldgóða þekkingu á sínum fögum. Iðnnemar vinna oft með þessum mönnum. Þessir menn vinna árum saman á ákveðnum launakjörum eins og við vitum. Ég vil og kem með þá hugmynd að það séu opnaðir möguleikar fyrir þessa menn að fá skráða í verkmenntabók starfstíma sinn sem gæti þá hugsanlega verið metinn, eins og þeir eiga eðlilegra rétt á, til bættra kjara. Mér finnst hér vera stungið á máli sem er réttlætismál. Ég tek undir það sem hv. þm. Guðjón Guðmundsson sagði, þar sem hann vék að iðnnemunum sjálfum með námið, að það þurfa ekki allir að sækjast eftir því að verða meistarar, það er rétt. Ég held líka eins með þessa aðila, þeir eru kannski ekki einu sinni að sækjast eftir því að verða iðnmenntaðir en það má vissulega gera vel við þá og betur heldur en oft er gert.
    Ég vil líka segja að það sem mér finnst á skorta, vegna þess að við höfum verið að tala um hvernig nemendur eru undirbúnir, að það hefur skort mjög á í menntakerfinu, og hér eru þingmenn sem þekkja það sjálfsagt betur en ég, það er námsráðgjöfin í skólum sem hefur ekki verið sinnt sem skyldi. Það er mjög mikilsumvert þegar nemendur þurfa að gera upp hug sinn hvert stefna skuli að þeir séu sæmilega og vel það upplýstir um það mál. Ég held að þar skorti verulega á. Nú er leiðin orðin nokkurn veginn greið upp í háskólann, ætli þar séu ekki 5.000--6.000 manns nú og mér sýnist að grisjunin til náms fari þar fram. Hún var á lægra stigi áður og ég dreg í efa að það sé til góðs.
    Hv. þm. Guðjón Guðmundsson vék einnig að meistaraskólanum og það gerði einnig hæstv. mennmrh. Það sem fyrir mér vakir með meistaraskólann er það að þegar að því kemur að menn fari í meistaraskóla, eins og nú er skylt til þess að öðlast meistarabréf, þá hefur margt breyst í lífi þess einstaklings sem það gerir. Hann hefur þroskast töluvert á sinni göngu, hann er orðinn fullorðinn maður eða nokkuð kominn af léttasta skeiði getum við alla vega sagt og kannski eru viðhorfin töluvert önnur og áhugi hans getur hafa breyst nokkuð. Þess vegna vil ég, ef hann kýs að fara í lengra nám, hvort sem það er til tæknináms eða einhvers annars, að þá sé leiðin gerð bærilega greið fyrir þennan einstakling og að það sé mjög passað upp á það að hann þurfi ekki að stíga mjög stór og mörg skref til baka. Það mun örugglega verða til þess að það munu færri sækjast eftir því að fara þessa leið.
    Ég fullyrði að það er mjög mikil þörf fyrir aðila í þjóðfélaginu sem hafa gengið þessa braut, iðnmenntabraut, síðan farið í gegnum meistaraskóla og tækniskóla. Þetta eru mjög ákjósanlegir starfsmenn í þjóðfélaginu og það á að gera þeim þetta mögulegra heldur en er í dag. Þegar menn eru komnir á þennan aldur þá hika þeir við að þurfa að stíga mjög stór skref til baka til þess að leita sér mennta.
    Virðulegi forseti. Ég gæti auðvitað sagt meira. Ég fagna því sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði áðan út af tillögunni og þakka henni góð orð. En ég ætla ekki að eyða lengri tíma hér og nú nema tilefni gefist til. En ég undirstrika það enn og aftur að ég bið hv. menntmn. að athuga að það er ekki verið að fara fram á neitt óeðlilegt með tillöguflutningi sem þessum og það er hart að þurfa jafnvel að heyra það þegar mælt er fyrir tillögu að þá sé hún af viðkomandi aðilum jafnframt dauðadæmd, að hún eigi enn að liggja í skúffunni. Alþingi á rétt á því að þessi tillaga og aðrar tillögur fái þinglega meðferð.