Vegalög

29. fundur
Miðvikudaginn 03. nóvember 1993, kl. 14:19:52 (1028)


[14:19]
     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þm. Guðna Ágústssyni um það að reiðvegagerð hefur verið hornreka í vegáætlunum mörg undanfarin ár. Og ég get líka tekið undir þær vonir að núna kunni að vera lag til þess að bæta hér úr. Ef við lítum á 16. gr. fyrirliggjandi frv., þá get ég ekki séð að þar sé neitt til fyrirstöðu að Alþingi marki með fjárveitingum í komandi vegáætlunum aukið fé til reiðvega. En þá verður Alþingi að gera það upp við sig að taka fé úr almennri vegagerð til þess að efla reiðvegagerðina. Um það fjallar hið pólitíska val. Ég trúi því að þannig hafi málum verið háttað áður og hef trú á að svo verði áfram og ég get tekið undir með hv. þm. Guðna Ágústssyni að skoða það rækilega ef þessi 16. gr. verður einhvern tíma að lögum. Ég vil sérstaklega fagna þessu ákvæði sem hér er að finna um að það verði höfð náin samvinna við hestamenn um reiðvegagerðina og ég held að það sé gott mál að hestamannafélögin eins og aðstæður frekast leyfa hafi með höndum reiðvegagerðina sjálf. Það held ég að spari fé og lengi reiðvegi.