Vegalög

29. fundur
Miðvikudaginn 03. nóvember 1993, kl. 14:24:41 (1030)


[14:24]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í gær fóru hér fram mjög gagnmerkar umræður um alls óskylt mál þar sem var fjallað svona um eðli lagasetningar, hversu langt ætti að ganga í lögum og hv. 2. þm. Vesturl. flutti þar ágæta ræðu og varpaði fram mörgum álitaefnum. Nú saknaði ég þess nokkuð í ræðu hv. þm. að ekki væri komið inn á það að í þessum frumvarpstexta er gert ráð fyrir því sama, að farið sé í að skilgreina grundvallaratriði eins og það t.d. hvað sé vegur. Í 1. gr. frv. segir og ég held að það sé nauðsynlegt að það komist inn í þingtíðindi hvað sé vegur:
    ,,Vegur merkir í lögum þessum akbraut, önnur mannvirki og land sem að staðaldri eru nauðsynleg til þess að vegur sé varanlegur, unnt sé að halda honum við og hafa af honum sem fyllst not.``
    Nú vildi ég gjarnan að hv. þm. greindi okkur frá því hvort hún teldi að það sé þörf á því að kveða á um það sérstaklega í lögum hvað sé vegur eða hvort það sé að breyttu breytanda ljóst öllum eða hvort það sé óskýrara almennt í hugum manna hvað sé vegur en hvað sé hús.