Vegalög

29. fundur
Miðvikudaginn 03. nóvember 1993, kl. 14:27:23 (1032)

[14:27]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Spurningin laut eiginlega að því hvort það væri nauðsynlegt að kveða sérstaklega á um það í lögum hvað sé vegur. Ég held að það sé svona flestum nokkuð ljóst alveg eins og það er nokkuð ljóst held ég í hugum hér um bil allra hvað sé hús. En spurning mín til hv. þm. laut eiginlega frekar að því hvort hún sé sammála þeim hv. þm. sem talaði í gær um það að ekki væri þörf á því að skilgreina í lögum hvað væri hús, hvort hv. þm. væri sammála þeim þingmanni um það að þá væri væntanlega ekki þörf á því, úr því að það væri svona ljóst í hugum allra, að kveða á um það sérstaklega í lögum. Það er meinalaust af minni hálfu hvort skilgreint er í vegalögum hvað sé vegur, en hins vegar sýnist mér á þessum lagatexta að það sé ekki alveg rétt sem hv. þm. sagði að vegur þyrfti endilega að nema við jörð því að ég sé ekki á lagatextanum að það sé sérstaklega kveðið á um það þannig að það er alveg gert ráð fyrir því að vegir geti verið hér án þess að nema við jörð og séu þá á einhverjum stólpum, en það er auðvitað fullkomið aukaatriði.