Vegalög

29. fundur
Miðvikudaginn 03. nóvember 1993, kl. 14:31:27 (1034)

[14:31]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna og ýmislegt sem hann kom að. Það sem ég átti við og beindi til hans væri kannski að gera snögga úttekt á því hvar stærstu slysagildrurnar væru sem yllu hestamönnum áhyggjum. Ég vil í framhaldi af því spyrja hann: Væri hann t.d. tilbúinn að beita sér fyrir því í fjárlögum, svipað og farið var í stórverkefnasjóð þar sem milljarðar voru látnir í sérstaka vegi, að kannski 30, 40, 50 millj. verði settar í það af nýju fé í einhverri verkefnaáætlun til að koma í veg fyrir þessar alstærstu slysagildrur sem blasa við okkur víða á reiðleið hestamanna?
    Þetta er svona það sem ég vildi vekja athygli á. Ég rakti hér orð Sigríðar Sigþórsdóttur og hennar mat og mat hestamanna er það að frv. standi þannig að áætlunum um reiðleiðir að hestamenn verði að segja sig frá því. Þeir hafi ekki efni á því að leggja reiðvegina og þeir hafi alls ekki efni á því að sjá um viðhaldskostnað á reiðvegunum, fyrir utan hitt að það er spurning hvort þeim ber það. Við sjáum að Íslendingar hafa hundruð milljóna kannski í gjaldeyristekjur af mönnum sem sérstaklega koma til Íslands, ferðamönnum, til þess að ríða út á íslenskum gæðingum í íslenskri náttúru og fara um landið. Þess vegna er það mín skoðun og margra annarra að frv. verði að gera ráð fyrir því að Vegagerðin fari með reiðvegina eins og aðra nauðsynlega vegi fyrir umferð í þjóðfélaginu. Þessi baggi verður ekki settur á þennan áhugamannahóp hestamanna, nema að litlu leyti þá.