Vegalög

29. fundur
Miðvikudaginn 03. nóvember 1993, kl. 14:51:20 (1039)

[14:51]
     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég spurði einnar spurningar og ég hef ekki fengið svar við henni. Það er í sambandi við flutning Vegagerðarinnar í Borgarnes. Mér finnst þetta vera skylt mál þegar verið er að tala um þetta frv., vegáætlun, og ég ætla að endurtaka þessa spurningu mína. Í öðru lagi er alveg hárrétt það sem hæstv. samgrh. sagði í sambandi við lánin. Ef ekki er borgað af lánunum þá aukast upphæðirnar, það er svo einfalt. Samgrh. þekkir þetta atriði þegar tekin eru stór lán til framkvæmda. Í fyrra tók ríkisstjórnin 1,5 milljarða að láni til vegaframkvæmda þannig að þetta er bæði ný og gömul saga að menn taki stór lán til framkvæmda.