Vegalög

29. fundur
Miðvikudaginn 03. nóvember 1993, kl. 14:54:57 (1042)


[14:54]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra ræðu hans. Ég get tekið undir með hæstv. ráðherra um þann þátt Vegagerðarinnar að því sem snýr að reiðhjólum og hjólandi fólki. Það er eitt atriðið og getur einmitt farið saman með reiðvegaáætluninni. Ég held að það sé mjög mikilvægt að huga að þeim málaflokki líka. Ég er í engum vafa um að við í samgn. munum skoða þetta frv. og ég vil þá enn spyrja hæstv. ráðherrann, hann sagði að það hefði ekki tekið því að kalla alþingismenn stjórnarandstöðunnar að frumvarpssmíðinni því að þar hefðu menn, eins og hann gaf til kynna, verið bara rétt til málamynda. Ég vil spyrja: Voru hv. þm. þar, Pálmi Jónsson, Árni Mathiesen, Gunnlaugur Stefánsson o.fl., svona rétt til málamynda? Er þetta embættismannafrv. og ekkert annað?
    Ráðherrann ræddi hér ferjur almennt. Ég get tekið undir ýmislegt í hans ferjutali. En Herjólfsræðuna skil ég ekki enn og hann leiðrétti sig engan veginn hvað þær dylgjur og það rugl sem hann viðhafði hér fyrir viku síðan í þingræðu, hann leiðrétti það ekki á neinn hátt. Ég tel það skyldu hæstv. ráðherra. Hann segir að jarðgangagerð sé ekki framkvæmanleg en samt fullyrðir hann að hún hafi verið ódýrari kostur heldur en Herjólfur. Þetta eru stór orð. Hann verður að finna þeim stað og hann verður að segja hvað hann meinti hér úr þessum stól.

    Síðan vil ég segja um ýmsar aðrar ferjur t.d. Akraborgina, að ég held því hiklaust fram að menn eigi að viðhalda Akraborginni eins og hún er og gleyma jarðgangagerð undir Hvalfjörð við þær aðstæður sem nú ríkja í þessu samfélagi. Við höfum ekki efni á jarðgangagerð undir Hvalfjörð og við eigum að gleyma því um sinn að ræða um fleira í þeim efnum heldur snúa okkur að því að koma þessari ríkisstjórn frá og rétta þjóðarbúið við.