Vegalög

29. fundur
Miðvikudaginn 03. nóvember 1993, kl. 14:57:33 (1043)

[14:57]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Það má segja að það sé kannski ástæðulaust að svara hv. þm. þegar hann talar eins og hér áðan, fór rangt með það sem sagt var beint fyrir framan hann og var með útúrsnúninga.
    Það er í fyrsta lagi svo að sú nefnd sem undirbjó vegalagafrv. gerði það mjög vel eins og frv. ber með sér. Það breytir ekki því að samgn. mun taka frv. til efnislegrar athugunar eins og nauðsynlegt og rétt er og þar mun stjórnarandstaðan eins og meiri hlutinn geta komið fram sínum athugasemdum.
    Í öðru lagi það sem hann sagði um Herjólf var enn útúrsnúningur. Hitt er auðvitað reginhneyksli þegar menn skrifa undir smíðasamning eins og Herjólfs tveim eða þrem dögum fyrir kosningar.
    Í þriðja lagi vil ég að það komi alveg skýrt fram að sú könnun sem fram fer á því hvort rétt sé að bjóða út Hvalfjarðargöng og láta borga þau með vegagjaldi, sú ákvörðun var tekin og frv. um það efni var flutt af ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og má kannski segja, sérstaklega vegna þess að ég hef stundum verið kallaður framsóknarmaður, að það komi vel á vondan að framfylgja þeim lögum.