Vandi skipasmíðaiðnaðarins

29. fundur
Miðvikudaginn 03. nóvember 1993, kl. 15:37:46 (1052)


[15:37]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Við tölum enn einu sinni hér á Alþingi um vanda skipasmíðaiðnaðarins. Þetta er sjöunda árið mitt í iðnn. og við erum búin að ræða þetta á hverju einasta ári, stundum oftar en einu sinni á ári, bæði hér á Alþingi og eins í iðnn. og ekkert gerist. Það virðist enginn vilji vera til þess, hvorki í þessari ríkisstjórn né þeirri fyrri að gera nokkurn skapaðan hlut í málinu. Að vísu var sami iðnrh. í báðum þessum ríkisstjórnum, en það er sama hvor heldur er, það hefur ekkert gerst. Ég veit ekki hvort við eigum að vona núna að nýr ráðherra taki kannski til hendinni. En tillögurnar liggja allar fyrir. Á hverju einasta ári hafa komið hér fram ýmsar tillögur sem hægt væri að taka tillit til og gera með nokkuð auðveldum hætti en ekkert er gert. Það þýðir ekkert að vitna til þess að það sé búið að gera skýrslur og fleiri skýrslur og enn þá eina skýrsluna í viðbót og eina nefnd í viðbót til að koma með tillögur og ekkert gerist. Það getur vel verið að það sé ágætt að mótmæla bæði hjá GATT, EB og EES og út um allan heim, en það þýðir ekkert að bíða eftir því að einhverjir aðrir breyti hjá sér. Við verðum að taka til hendinni hér og nú.
    Ráðherrann sagði að verið væri að undirbúa aðgerðir og hann skyldi beita sér fyrir því að það yrði gert sem fyrst. Það er vel ef það er gert strax, en það liggur á. Staðan versnar ár frá ári og nú er svo komið að skipasmíðaiðnaðurinn er að deyja út sem iðngrein. Það er ekki einu sinni reynt að nota þau tæki sem alþjóðasamningar heimila okkur. Það þarf ekkert að tíunda hér hversu mikilvægur skipasmíðaiðnaðurinn er okkur. Fiskveiðiþjóð eins og við Íslendingar getur ekki án þessa iðnaðar verið og ég veit ekki hvernig menn hafa hugsað sér að reka fiskiskipaflotann ef ekki verður neinn skipasmíðaiðnaður hér í landinu. Ég átta mig ekki á hvað útgerðarmenn eru að hugsa jafnvel þó að þeir fái verkefnin örlítið ódýrari erlendis. Þá hlýtur það að vera umhugsunarefni og getur orðið umhendis þegar frá líður ef ekki er einu sinni hægt að fá smáviðgerðarverkefni gerð hér heima vegna þess að iðnaðurinn hefur lagst af.
    En þetta er ekki bara mikilvægt fyrir skipasmíðaiðnaðinn sjálfan. Þetta skiptir máli fyrir almenna iðnþróun í landinu, fyrir málmiðnaðinn, fyrir rafiðnaðinn og fleiri iðngreinar. Þetta tengist mjög mörgum iðngreinum og það er ekki hægt að horfa á þetta einangrað. Þetta skiptir máli fyrir iðnþróun í landinu almennt.
    Hér hefur verið tíundað og komið fram að aðrar þjóðir styrkja sinn skipasmíðaiðnað verulega. Eins og hér hefur komið fram hefur skipasmíðaiðnaðurinn á Íslandi ekki farið fram á ríkisstyrki heldur að gripið verði til annarra aðgerða. Aðrar þjóðir hafa gripið til verndartolla, t.d. Bandaríkin og Kanada, og til ríkisstyrkja einnig. Skipasmíðaiðnaðurinn á Íslandi getur ekki starfað við þau skilyrði sem honum eru búin núna. Hann verður að fá að geta starfað á jafnréttisgrundvelli. Það er grundvallaratriði. Það þýðir ekki lengur að sitja með hendur í skauti eins og gert hefur verið sl. áratug. Og eins og ég sagði áðan bendir ekkert til þess að aðrar þjóðir vilji breyta. Þær halda áfram að styrkja sinn iðnað. Við getum bent t.d. á Norðmenn. Þeir hafa ekki í hyggju að leggja sína styrki af og tel ég að íslenskur skipasmíðaiðnaður geti ekki beðið eftir því að mótmæli hæstv. iðnrh., þó þau séu kröftug á alþjóðavettvangi, hafi áhrif á aðrar þjóðir. Við getum ekki beðið eftir því. Við verðum að grípa til aðgerða. Það er hægt að taka upp sumar af þeim tillögum sem iðngreinin hefur sjálf bent á, t.d. að stöðva allar lánveitingar úr Fiskveiðasjóði og reyndar öðrum opinberum sjóðum til skipasmíðaverkefna erlendis, en til slíkra aðgerða hafa t.d. Norðmenn gripið. Það má leggja á undirboðs- og verndartolla, ég held að við hljótum að geta gert það, sem samsvarar ríkisstyrkjum erlendis. Einnig vaknar sú spurning hvort ekki sé eðlilegt að styrkja atvinnugreinar sérstaklega sem eru í beinni ríkisstyrktri samkeppni erlendis. Þetta þarf auðvitað allt að athuga. En aðalatriðið er: Það þarf að grípa til aðgerða nú þegar.