Vandi skipasmíðaiðnaðarins

29. fundur
Miðvikudaginn 03. nóvember 1993, kl. 15:42:35 (1053)


[15:42]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að taka þessa umræðu hér upp. Það er fyllilega tímabært. Við stöndum frammi fyrir mjög alvarlegum aðstæðum í íslenskum skipasmíðaiðnaði og það sem meira er, aðstæður hafa einnig breyst í okkar efnahags- og atvinnumálum og þá á ég ekki síst við það mikla atvinnuleysi sem nú hefur haldið innreið sína í landið á sl. tveimur árum. Það er enn síður en áður við þær aðstæður hægt að horfa á það þegjandi og hljóðalaust að þessi iðngrein deyi út í landinu, þegar þeirra manna sem þar hafa starfað gegnum tíðina bíður þar á ofan ekkert annað en atvinnuleysið ef svo fer sem horfir.
    Það er ekki nokkur vafi á því að það er enginn kostur ódýrari og skynsamlegri til í atvinnusköpun í landinu heldur en að verja störf í þeim iðngreinum sem fyrir hendi eru. Menn eru hér í tengslum við kjarasamninga eða á góðum stundum að slengja til milljörðum króna í svokallaðar atvinnuskapandi aðgerðir. Til hvers? Jú, til þess að reyna að skapa störf fyrir þá sem ella gengju atvinnulausir e.t.v. bara í eitt ár. En er þá ekki einhverju til kostandi varðandi rótgrónar atvinnugreinar í landinu sem eiga að geta átt hér

framtíð til frambúðar? Og er ég þó með þessum orðum ekki að gera lítið úr því sem menn hafa reynt á undanförnum missirum að gera til að hamla gegn vaxandi atvinnuleysi. En enn síður eiga menn þá að láta það aftra sér frá því að grípa til ráðstafana gagnvart aðstæðum eins og nú eru uppi í skipasmíðaiðnaðinum.
    Skipasmíðaiðnaður er lífsnauðsynlegur fyrir okkur Íslendinga.
    Í fyrsta lagi má þar nefna að annar iðnaður í landinu á gífurlega mikið undir því að hann þróist og sé fyrir hendi.
    Í öðru lagi má nefna það, og mættu forsvarsmenn útgerðarinnar í landinu muna etir því oftar en þeir gera, að það er lífsnauðsynlegt fyrir sjávarútveg og útgerð í landinu að hér sé þjónusta við flotann. Menn ætlast til þess þegar upp á koma skyndilegar bilanir um hávetur að geta siglt inn á næstu höfn og hafa þar helst tilbúna skipasmíðastöð sem vill vinna nótt og dag við að gera við. Ef menn eru í bullandi loðnuvertíð og það bilar hjá þeim blökk, þá ætlast menn til þess að það sé hægt að sigla inn á næstu höfn og fá gert við hana. En verður það ef enginn skipasmíðaiðnaður verður eftir í landinu? Nei. Og hvað kostar það þá að sigla til Noregs eða þaðan af lengra með smáviðgerðir?
    Í þriðja lagi ættu menn að minnast allrar þeirrar verkkunnáttu og þeirrar undirstöðu sem málmiðnaðurinn og ekki síst skipasmíðaiðnaðurinn hefur skapað og getur áfram gert ef hann er fyrir hendi.
    Í fjórða og síðasta lagi nefni ég auðvitað þau störf sem í greininni eru og þá gjaldeyrissköpun sem af tilvist hennar hlýst í landinu.
    Það hörmulegasta af þessu öllu saman er svo það að í reynd hefur íslenskur skipasmíðaiðnaður verið mjög samkeppnisfær atvinnugrein, ein sú fremsta sem við Íslendingar höfum átt í þeim efnum að undanskildum e.t.v. sjávarútveginum sjálfum, þ.e. fáar ef nokkrar aðrar iðngreinar hafa með þátttöku í útboðum getað sýnt fram á það að á sanngjörnum samanburðargrundvelli eru þær samkeppnisfærar en íslensku skipasmíðastöðvarnar hafa orðið að lúta í lægra haldi vegna beinna niðurgreiðslna og styrkja erlendis sem numið hafa tugum prósenta á undanförnum árum. Og það þarf ekki gengisfellingar og snilld núv. ríkisstjórnar til, hæstv. iðnrh. Það liggur fyrir í gegnum samanburð til margra ára að svona hefur þetta verið.
    En það er runnin upp ögurstund í málefnum þessarar iðngreinar. Síðustu fyrirtækin sem eftir eru í landinu berjast nú fyrir lífi sínu. Þau hafa flest ef ekki öll orðið að draga stórlega saman í starfsemi. Það er síðan að leiða til þess að þau eru núna að hætta að verða samkeppnisfær, m.a. vegna þess að með minnkandi mannahaldi hafa þau ekki lengur upp á þau afköst að bjóða sem til þarf að bjóða í stór viðhalds- og viðgerðarverkefni, svo ekki sé nú talað um nýsmíðar, og vinna þau á sambærilegum tíma. Sá þáttur er að tapast út úr fyrirtækjunum núna á þessum mánuðum og kemur ekki aftur ef svo heldur sem horfir. Jafnvel þau stærstu þeirra sem lengst hafa haldið úti eru nú að missa þessa stöðu, t.d. Slippstöðin á Akureyri sem nú er með um 100 manns í vinnu en hafði á fjórða hundrað þegar best lét fyrir nokkrum árum síðan. Verkefnastaða þess fyrirtækis er óljós og það er í greiðslustöðvun svo dæmi sé tekið.
    Ég verð síðan að segja það að mér fundust svör hæstv. iðnrh. rýr í roðinu. Hann hefði betur varið tíma sínum í annað heldur en vonlausa vörn fyrir forvera sinn í starfi og reynt að gefa okkur einhverjar upplýsingar um það hvað hann og núverandi ríkisstjórn eins og hún er skipuð ætlast fyrir í þessum efnum. Ég hef enga trú á því að mótmæli hæstv. ríkisstjórnar og iðnrh., þó hávær séu út um heimsbyggðina, hrópi niður erlenda styrki til skipasmíðaiðnaðar. Ég hef enga trú á því. Og ég hef enga trú á því að einhver ný nefnd leysi þetta heldur. Það sem þarf eru aðgerðir og það strax. Og ég spyr hæstv. iðnrh.: Er þess að vænta að lagðir verði jöfnunartollar á innflutt skipasmíðaverkefni á næstu vikum? Ef ekki, er þá ríkisstjórnin tilbúin til að grípa til annarra sambærilegra ráðstafanasvo sem í formi niðurfellingar gjalda eða endurgreiðslna sem jafna mundu samkeppnisstöðuna t.d. við skipasmíðaiðnaðinn í Noregi?