Vandi skipasmíðaiðnaðarins

29. fundur
Miðvikudaginn 03. nóvember 1993, kl. 16:03:07 (1057)


[16:03]
     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. En því miður er ég ekki mjög miklu nær eftir hana um það hvað hæstv. iðnrh. og hæstv. ríkisstjórn ætla sér að gera í þessum málum. Ég óska eftir

því að hann tali pínulítið skýrar hér á eftir, og það komi svör við því hvenær menn mega eiga von á ákvörðunum ríkisstjórnarinnar í þessum málum. Hvort það eigi t.d. að bjarga fyrirtækjunum frá því að fara í gjaldþrot og og þar með fólkinu frá því að lenda í því atvinnuleysi sem slík niðurstaða mun leiða yfir það og hvort skapaður verði grundvöllur undir skipsmíðaiðnaðinn í landinu með því að setja á jöfnunartolla eða með einhverjum öðrum ráðum sem koma auðvitað til greina. Styrkir koma alveg til greina við þessar aðstæður. Það hljóta allir menn að sjá þegar hægt er að leggja fram á borðin útreikninga sem sanna það að ríkissjóður græðir hundruð milljóna á því að þessi iðnaður vinni þessi verkefni frekar en menn séu að kaupa verkefnin erlendis frá.
    Hv. 6. þm. Norðurl. e. sagðist ekki taka undir árásir á útgerðina í landinu. Ég er einn af þeim sem hafa gagnrýnt útgerðarmenn fyrir þeirra afstöðu. Þeir hafa haft mjög skammsýna afstöðu til íslensks skipaiðnaðar. Þeir hafa krafist þess að fá að kaupa öll sín verkefni erlendis frá án afskipta ríkisins þrátt fyrir það að þeir sjái að íslenskur skipaiðnaður er að líða undir lok vegna þessara aðstæðna. Og þeir vita það auðvitað að eftir svolítinn tíma mun þessi iðnaður ekki geta sinnt þeim, mun ekki geta veitt íslenskri útgerð þá þjónustu sem hún þarf á að halda. Og þegar þeir þurfa að fara að sækja smærri verkefni, viðgerðir og breytingar, erlendis þá hætta þeir líka að græða á því að sækja þjónustuna til útlanda.
    Ég vil svo segja að það er mín skoðun að ekki sé langt í að það verði veruleg verkefni á ferðinni í íslenskum skipaiðnaði. Við vitum það að allur gamli togaraflotinn, ísfisktogaraflotinn, er úreltur. Hann er orðinn allt of gamall og hann er líka úreltur af öðrum ástæðum. Það er ekki lengur nútíminn að gera út ýsuskip sem koma inn eftir 6, 8 eða 10 daga með afla. Það er einfaldlega ekki eðlilegt lengur. Þar fá menn lægra verð og eru með verra hráefni.
    Ég hef lengi haldið því fram að það hvernig fer fyrir íslenskum skipaiðnaði sé prófsteinninn á ræðurnar um íslenskan iðnað almennt. Íslenskur skipaiðnaður sé sem sagt prófsteinninn á það hvort eitthvað sé að marka þennan fagurgala sem menn hafa á góðum stundum um íslenskan iðnað. Þegar menn hafa ekki fengist til þess að taka ákvarðanir, til að verja iðngrein eins og þessa þar sem hægt er að leggja á borðið útreikninga fyrir því að íslenska þjóðin í heild stórgræðir á því að hafa þennan iðnað hér í landinu, samt er ekki tekið á málinu, þá fer maður nú að halda að svoleiðis geti farið líka þegar menn tala um aðrar iðngreinar. Og við munum sitja uppi með það eftir ekki mörg ár að það fari eins fyrir fleiri iðngreinum í landinu en skipasmíðaiðnaðinum og húsgagnaiðnaðinum og ullariðnaðinum að í samkeppninni við útlendinga áfram verði við völd menn sem alltaf eru kaþólskari en páfinn, vilja aldrei hjálpa íslenskum iðnaði í þessum slag.
    Ég las upp hér nokkrar tölur áðan um það hvað þjóðirnar í kringum okkur styrkja sinn iðnað þrátt fyrir alla samningana um viðskiptafrelsi. Við erum með pínulítið brot, við erum með 4 þús. kr. á ári í stuðning við hvert ársverk í landinu ef dregnar eru frá ríkisábyrgirnar á sama tíma og aðrar þjóðir hér í kringum okkur eru með 120 þús. í styrk við almennan iðnað. Og þannig er hægt að telja upp þessa hluti allt í kringum okkur. Ef menn ætla ekki að rísa upp úr þessari gröfinni, þá verður ekki burðugt hér í atvinnulífinu á næstu árum.
    Ég skora á hæstv. iðnrh. að lýsa því yfir skýrt og skorinort að hann og þessi hæstv. ríkisstjórn sem hann situr í ætli sér að taka á þessum málum og hún ætli að svara spurningunum um það hvenær og með hvaða hætti núna strax innan fárra daga, því að tíminn er auðvitað liðinn fyrir löngu.