Montreal-bókun um efni sem valda rýrnun ósonlagsins

30. fundur
Fimmtudaginn 04. nóvember 1993, kl. 10:39:52 (1065)

[10:39]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Með þessari þáltill. fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili fullgildingu breytingar á Montreal-bókuninni frá 16. sept. 1987, um efni sem valda rýrnun ósonlagsins, en samningurinn var gerður í Kaupmannahöfn 25. nóv. 1992.
    Ísland gerðist aðili 1989 að Vínarsamningi frá 22. mars 1985 um vernd ósonlagsins og að Montreal-bókuninni um efni sem valda rýrnun ósonlagsins. Hinn 16. júní 1993 varð breyting á Montreal-bókuninni frá 29. júní 1990 fullgilt fyrir Íslands hönd.
    Á fjórða fundi aðila að Montreal-bókuninni í Kaupmannahöfn 25. nóv. 1992 var samþykkt breyting á henni. Hún er birt sem fylgiskjal 1 með þáltill. Helstu breytingar eru þessar:
    1. Ákvæði eru sett um takmörkun um notkun á framleiðslu vetnisklórflúorkolefna. Ákvæðin miða að því að minnka notkun þessara efna í áföngum fram til ársins 2030, en þá skal notkun þeirra hætt.
    2. Vetnisbrómflúorkolefnum er bætt á skrá bókunarinnar. Notkun og framleiðslu þessara efna skal hætt frá og með 1. jan. 1996.
    3. Efninu metýlbrómíð er bætt á skrá bókunarinnar. Frá og með 1. jan. 1995 skal notkun og framleiðsla þessa efnis ekki fara fram úr neyslu- og framleiðslumagni ársins 1991.
    Á Kaupmannahafnarfundinum voru einnig samþykktar lagfæringar á ákvæðum Montreal-bókunarinnar og eru þær birtar sem fylgiskjöl 2 og 3 með þáltill. þessari. Samkvæmt þeim eru hert ákvæði um notkun og framleiðslu þeirra efna sem þegar eru á skrá bókunarinnar.
    Á fundi ríkisstjórnarinnar 12. maí 1992 var samþykkt að stefna að því að Ísland fylgi áætlunum þeirra þjóða sem ganga hvað lengst í að draga úr notkun ósoneyðandi efna. Haft hefur verið náið samráð við hagsmunaaðila hérlendis um að draga enn frekar úr notkun ósoneyðandi efna í samræmi við þá áætlun sem samþykkt var á Kaupmannahafnarfundinum.
    Íslenskur iðnaður mun hafa drjúgan tíma til að laga starfsemi sína að öðrum efnum og/eða nýrri tækni. Jafnframt mun mikið af þeim búnaði sem er í notkun og krefst notkunar þessara efna úreldast á því tímabili, sem nýja áætlunin tekur til. Einnig eru komin, eða eru að koma á markaðinn, ný efni sem geta gegnt hliðstæðu hlutverki en hafa ekki ósoneyðandi áhrif.
    Framkvæmd þessarar áætlunar felur því ekki í sér neina fyrirsjáanlega örðugleika í framkvæmd.
    Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til að tillögu þessari verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og utanrmn.