Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

30. fundur
Fimmtudaginn 04. nóvember 1993, kl. 11:33:02 (1071)

[11:33]
     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þm. að þetta er mjög erfitt mál. Hins vegar var mikið um þetta fjallað á sínum tíma, m.a. í Framsfl., þeim sem fóru með þetta mál í ríkisstjórninni sem þá sat, og niðurstaðan varð sú að við töldum að til að verja þessa mikilvægu auðlind yrði að hafa ákvæði eins og var í lögunum. Þetta var niðurstaðan. Mér er kunnugt um þennan dóm sem féll og ég tel hann vera mjög ásættanlegan, þ.e. að hlutafé sem fyrirtækið hefði eignast áður en lögin voru sett væru undanþegin þessu ákvæði. En við teljum svo mikilvægt að við Íslendingar höfum tögl og hagldir í sjávarútveginum að við samþykktum ákvæðið svona og við erum enn sömu skoðunar.
    Það var mikið um það rætt hvaða fiskvinnsla yrði þarna undanþegin og eins og hv. þm. þekkir þá var ákveðið að binda þetta eingöngu við frumvinnslu. Sem sagt í áframhaldandi vinnslu geti erlend fjárfesting verið frjáls. Um þetta var líka mikið rætt og það voru skiptar skoðanir um það hvað þetta í raun og veru þýddi, sérstaklega þegar í vaxandi mæli er farið út í neytendavinnslu á sjávarafurðum sem sumir spá að verði hér allsráðandi í framtíðinni. Þá er náttúrlega ljóst að þar væri erlendum aðilum frjálst að koma inn í, a.m.k. ef þau fyrirtæki eru sjálfstæð og ekki þau sömu sem forða hráefninu frá skemmdum, sem sagt frumvinnslan. Ég hef ekkert annað svar um það en þetta, við höfum ekki séð aðra leið en þá sem þá var farin. En því fór ég þetta mörgum orðum um þetta nú að það væri fróðlegt að vita hvernig t.d. núv. hæstv. viðskrh. hyggst framkvæma þetta. Er hér leið? Ég spyr.