Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

30. fundur
Fimmtudaginn 04. nóvember 1993, kl. 12:25:55 (1079)

[12:25]
     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Ég kvaddi mér nú hljóðs þegar hv. þm. Steingrímur Hermannsson var að ljúka máli sínu til þess eiginlega að taka undir svo til hvert orð af því sem sá ágæti þingmaður sagði og þá hugsun sem að baki orðum hans liggur. Ég held að það sé tilgangslaust eða ástæðulaust að ég sé að endurtaka mikið af því sem við hlustuðum á og þá þeir aðrir sem heyra umræður í fjölmiðlum, þeir hafa fengið að heyra það sama og við. En það er vissulega ástæða til allrar þeirrar varúðar sem fram kom af hálfu hv. þm. og geri ég hans orð að mínum.
    Raunar hafa fleiri ágætir þingmenn komið upp í pontuna eftir að ég bað um orðið og ég held að ég geti fallist á flest af því sem þeir sögðu líka.
    Hér í gamla daga þegar var verið að undirbúa stór baráttumál eins og t.d. sóknina að 200 mílunum þá var oft á svona litlum morgunfundum sem áhugamenn fóru að ræða sín á milli héðan úr pontunni hvað hyggilegast væri að gera og svo ræddu menn auðvitað málin betur á bak við tjöldin á flokksfundum og nefndafundum o.s.frv. Menn sáu ekki kannski í fyrstu umræðu hvaða möguleikar voru. Það var oft og tíðum svo að menn sögðu: Þetta getum við ekki gert, það er ekkert það í alþjóðalögum sem heimilar okkur þetta og síðan hristu menn höfuð sitt. En auðvitað var ekkert til í alþjóðarétti nema það sem búið var til, það kom ekki af sjálfu sér. Og að Íslendingar hefðu ekki mikið að segja á þeim vettvangi og í þeim umræðum öllum saman er alger misskilningur. Íslendingar voru leiðandi og leyfi ég mér nú að nefna Hans G. Andersen sérstaklega og svo auðvitað leiðandi íslenska stjórnmálamenn og þess vegna höfum við núna mjög litla landhelgi, ekki stóra.
    Það er alltaf verið að tala um 200 mílur að við höfum einhverjar 200 mílur. Það er mesta fásinna, við eigum miklu meira en 200 mílur. Það er allt saman komið í þjóðarréttinn ef því er haldið til haga. Og hafsbotnsréttindin eru fullveldisréttur, það var nefndur fullveldistéttur hér áðan. Við eigum hafsbotninn og það sem á honum er og í honum er. Þróunin er að verða sú eins og áður var að sá sem á botninn á líka hafið yfir botninum. Þetta byrjaði allt saman með því að ritstjórnargrein var skrifuð í New York Times 1945, ég hef sagt þetta 20 sinnum héðan úr pontunni en ekki núna síðustu árin, þar sem bent var á það þegar Suður-Ameríkuríkin voru að færa út sín réttindi að sá sem fengi hafsbotnsréttindi mundi auðvitað fá réttindi á hafinu yfir botninum. Það varð svo og nú er farið að viðurkenna hafsbotnsréttindi, t.d. hjá Indlandi minnir mig að það séu 1.500 mílur. Við eigum hafsbotnsréttindi á Hatton-Rockall svæðinu sem eru um 600 mílur, við eigum réttindi alla leið á Norðurpólinn. Og við eigum síðast en ekki síst Reykjaneshrygginn 350 mílur.
    Allt þetta eigum við auðvitað að verja og vernda. Og það er eiginlega grátlegt að sjá það og heyra að menn skuli enn þá vera að tala um að það sé ekki unnt að nýta auðæfin á Reykjaneshrygg alla leið út í 350 mílurnar. Það erum við sem eigum þetta svæði og öll réttindi til að nýta þau og engir aðrir. Við eigum að stugga þessum skipum frá en ekki að auðvelda þeim að stunda þá iðju sem þau hafa stundað. En það er nú einhvern veginn svona að menn eru lengi til hér í hinu háa Alþingi, en ég held að svona rabbfundir eins og við eigum núna gætu kannski hvatt menn til að hugsa nánar um það sem t.d. hv. þm. Steingrímur Hermannsson var hér að segja.

    Við þurfum að herða á allri löggjöf gagnvart útlendingum, ekki að auðvelda þeim eitt eða neitt. Við eigum þessi réttindi og eigum að nýta þau og eigum að nýta þau til hins ýtrasta. Þróunin er öll á þann veginn að strandríkin eru að taka sér aukin réttindi. Þau eru um það bil 3 / 4 hlutar af ríkjum heimsins, strandríkin, og auðvitað eru þau að taka þessi réttindi, þessi ríki, löglega og þó er nú alþjóðarétturinn yfirleitt myndaður de facto, í raun. Þannig verður sá réttur venjulega til. Sú þróun er núna í gangi og það sem meira er, nú er því snúið nokkuð við frá því sem áður var að nú er ekkert lengur fínt orðið að vera áhangendur einhverra stórríkja eða bandalaga. Nú eru þjóðirnar einmitt að sælast eftir því að auka sitt þjóðerni með sína þjóðmenninguna en ekki einhverja alþjóðlega menningu og á því ber víða. Ég veit ekki hverjir ættu ekki að gera það ef ekki væru við Íslendingar. Við mundum njóta stuðnings fjölmargra smáþjóða og þeirra flestra hygg ég sem ekki kæra sig neitt um það að vera amt í einhverju veldi sem áður var stórveldi eða í einhverjum samtökum sem eru að reyna að þjappa saman nýjum stórveldum.
    Þetta er nú svona að láta hugann reika eins og ég var að segja áður. Ég held að allir þeir sem hér eru inni a.m.k. skilji hvað ég er að segja. Við eigum engin vopn, við erum svo heppin að við eigum engin vopn. Við getum ekki farið í stríð af því að okkur vantar vopnin. Þeir geta ekki skotið á varðskipin af því að heimurinn mundi hlæja að þeim. Það var eitt aðalvopnið okkar þegar við vorum að reyna að ná í 200 mílurnar að benda vinum okkar á þetta víða erlendis á alþjóðaráðstefnum. Það er eitt vopnið: Ætlið þið að skjóta okkur niður? Hvar er ykkar réttur og hvar er okkar réttur? Það er að skapast nýr réttur. Við segjum: Hann skal vera á þennan veginn en ekki hinn og við ætlum að verja þetta. Við ætlum að fara með skipin okkar inn á fiskslóðirnar og neita ykkur um að vera þar nema eitthvað tímabundið eftir samningum. Síðan settust menn niður og fóru að hugsa þetta og sáu hvað heimurinn var orðinn ógnarlítill að það þurfti einmitt smáríkin til þess að ríða á vaðið og fikra sig áfram. Vopnin giltu ekki neitt, það var ekki hægt að nota þau og er ekki enn í sambandi við hafréttinn og þess vegna erum við alþjóðlegir í þeim skilningi að við viljum samninga og réttláta samninga. En hitt hygg ég að sé óhætt að endurtaka að vald smáríkjanna á þennan veg, sem ég hef verið að reyna að lýsa, fer vaxandi. Ríkja sagði ég, þjóða kannski frekar vegna þess að ríkin eru að breytast og það eru þjóðirnar sem taka völdin á því svæði sem þær hafa byggt um aldur og ævi. Það eru þjóðirnar sem taka þau völd, vonandi sem óvíðast með vopnum heldur með réttlæti.
    En það var sem sagt þetta sem kveikti í mér, þessi staðfesta í hv. þm. Steingrími Hermannssyni og líka það að við þurfum öll að taka mjög alvarlega þetta mál sem núna er til umræðu og ræða það með festu og í þingflokkum og manna á meðal og við höfum svo oft getað orðið sammála og þegar við erum sammála um stóru málin, þá er ýmislegt annað sem leysist greiðlega.