Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

30. fundur
Fimmtudaginn 04. nóvember 1993, kl. 12:43:10 (1081)

[12:43]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls. Ég tel að í þessari umræðu hafi komið fram með mjög skýrum og skilmerkilegum hætti og án óþarfa málalenginga þau álitamál sem eru í þessu sambandi og þau mismunandi viðhorf sem uppi eru meðal stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka um þau skref sem stigin eru, bæði varðandi EES-samstarfið og eins varðandi það frv. sem hér er til afgreiðslu og er bein afleiðing af því.
    Flestallir eða allir þingmenn sem hér hafa tekið til máls hafa rætt um vandamál sjávarútvegsins í þessu sambandi og ég vil aðeins taka það fram að það hefur verið og er stefna allra stjórnmálaflokka í landinu að leyfa ekki fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi og frumgreinum fiskvinnslu. Það hefur ekki breyst sú stefna sem er sameiginleg hjá okkur öllum. Hins vegar vil ég mótmæla því sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði hér áðan að það væri mjög auðvelt að koma þessari stefnu í framkvæmd. Það er það nefnilega alls ekki vegna þess að málið er talsvert flókið eins og komið hefur fram hjá öðrum hv. þm. og ég get alveg tekið undir það sem hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði í sinni ræðu að meginatriðið til þess að tryggja það að yfirráðin yfir fiskimiðunum og frumvinnslunni verði áfram í höndum Íslendinga er að sjálfsögðu það að íslenskur útvegur og íslensk fiskvinnsla standi sem traustustum fótum. Það er öruggasta aðferðin til þess að tryggja það að þessar mikilvægu atvinnugreinar séu áfram í íslenskum höndum. Og það er líka rétt sem hefur komið fram í ábendingu frá einstaka hv. þm. að vandinn er m.a. sá að þó svo að Alþingi og stjórnvöld reyni eftir föngum að tryggja þá sameiginlegu stefnu allra stjórnmálaflokka að varðveita íslensk yfirráð yfir fiskimiðum og frumframleiðslu, þá er hægt að finna leiðir til þess að fara með óbeinum hætti í kringum það og kannski er það rétt sem hefur komið hér fram hjá nokkrum þingmönnum í umræðunni að það hafi nú þegar að einhverju leyti verið gert, jafnvel löngu fyrir tilkomu þessa EES-samnings sem er svo umdeildur, þ.e. í samskiptum íslenskra fyrirtækja eða einstaklinga sem fást við atvinnurekstur af þessu tagi og erlendra viðsemjenda þeirra. Um það vil ég ekki dæma. Það liggja ekki fyrir og verður mjög erfitt að sanna það og liggja ekki fyrir neinar sannanir um það, en menn hafa oft haft það á orði að það væri líklegt að þarna væru einhver tengsl á milli. Þess vegna er það alls ekki rétt að það sé mjög einfalt að skipa málum svo að þetta sé alfarið tryggt. Það er þvert á móti ekki einfalt heldur talsvert flókið.
    Ég skal fúslega lýsa því yfir að ég hef engar fyrirætlanir uppi um það að grípa þar inn í með þeim hætti að hægt væri að segja að ég væri þar að ganga gegn hagsmunum Íslendinga eða íslenskra fyrirtækja. Hins vegar er mjög erfitt hverju sinni að meta það þegar þriðji aðili á í hlut að hve miklu leyti eigi að framfylgja mjög fortakslausum ákvæðum eins og þau eru í lögum og það getur verið mjög erfitt að draga þá markalínu vegna þess að eins og hér hefur verið bent á, þá getur slík ákvörun haft ófyrirsjáanleg atvik í för með sér. Þess vegna finnst mér það rétt af mér sem ráðherra að beina því mjög eindregið til nefndarinnar sem fjallar um þetta frv. að skoða það mjög vandlega hvort hægt sé að draga þarna einhver tiltekin mörk og þá á ég að sjálfsögðu við fjárfestingar þriðja íslensks aðila í útgerð eða fiskvinnslu, hvort það sé skynsamlegt að draga þarna einhver mörk eða hvort hv. nefnd gæti látið í té einhverjar þær leiðbeiningar sem ráðherra gæti stuðst við í framkvæmdinni, því aðeins og ég segi, þetta er ekki einfalt mál. Það er erfitt að setja einhverjar fastar reglur um þetta sem við getum fullyrt fyrir fram að hægt sé að standa á og ég lýsi því yfir að ég hef engan áhuga á því að torvelda það að íslenskir bankar eða fyrirtæki geti stutt við bakið á útgerð eða fiskvinnslu sem þarf á aðstoð að halda. Ég hef engan áhuga á því að trufla það, en hins vegar verða menn náttúrlega að gera sér það ljóst að það er ákveðin lagakvöð sem hvílir á ráðherrum í því sambandi sem menn verða að umgangast með mikilli varúð. Ég á dálítið erfitt með að segja miklu meira um þetta á þessari stundu en ég tel rétt að nefndin sem fær málið íhugi hvort ástæða sé til að setja þarna ákveðnar afdráttarlausar reglur eða hvort hún geti látið í té í nál. eða framsöguræðu formanns einhverjar ábendingar til ráðherra um framkvæmd á þessu atriði.
    Ég skal líka taka það skýrt fram að ég tel að til þess að tryggja það afdráttarlaust að virkjunarréttur fallvatna og umráðaréttur námuauðlinda og djúphita séu í varðveislu þjóðarinnar og verði ei af henni tekinn eða burtu seldur nema þá fyrir atbeina Alþingis ef Alþingi kysi svo að halda á málum, sem ég hef

ekki nokkra trú á, ég tel að þetta verði ekki tryggt öðruvísi en með afgreiðslu sérstakra frumvarpa þar að lútandi frá Alþingi sem ríkisstjórnin hefur boðað flutning á. Og auðvitað þurfa menn ekki að spyrja að því hvernig stendur á því að það er ekki komið fram. Ástæðan er sú hin sama og ég var að ræða um það atriði sem kom til umræðu hér áður að það eru ýmis álitamál á frumvörpum af því tagi og ríkisstjórnarflokkarnir þurfa að sjálfsögðu að ná sátt og samkomulagi sín á milli um það hvaða tillögur þeir ætla að gera til löggjafans í því sambandi. Svo mun löggjafarviljinn að sjálfsögðu ráða hvernig fer um þá afgreiðslu. En mín skoðun er sú að þessi réttur, þessi eignarréttur þjóðarinnar sé ekki tryggður nema Alþingi samþykki sérlög þar um og mín skoðun er sú að það þurfi að gerast á því þingi sem nú situr og mín skoðun er enn fremur sú að það sé að styttast mjög mikið sá tími sem við höfum til ráðstöfunar til þess að fjalla um lagasetningu af því tagi.
    Um hugsanlega fjárfestingu erlendra aðila í bankastarfsemi á Íslandi verð ég að segja mína skoðun eins og hún er. Ég hef ekki miklar áhyggjur af því. Það er í lögum nú þegar heimild erlendra aðila til að stofna hér útibú frá erlendum bönkum. Það hefur enginn áhugi reynst hjá erlendum bönkum á slíku og ég mundi telja það bara af hinu góða ef erlendar bankastofnanir hefðu áhuga á því að leggja áhættufé til bankastarfsemi á Íslandi vegna þess að eins og málin standa nú ef það er eitthvað sem íslenskt viðskiptalíf þyrfti á að halda, þá væru það sterkari bankar, styrkari lánastofnanir heldur en við eigum um þessar mundir þannig að ég óttast það ekki að það ákvæði að heimila erlendum aðilum að fjárfesta í íslenskum viðskiptabönkum verði okkur til tjóns.
    Um þann hugsanlega möguleika að erlendir aðilar gætu keypt hlutdeild í íslenskum orkufyrirtækjum, þá held ég að umræður á Alþingi í fyrra hafi leitt það í ljós að eina raunverulega áhyggjuefnið í því sambandi sem nefndin þyrfti þá að hugleiða er hvað varðar íslenskt neysluvatn. Til þess að erlendir aðilar gætu hugsanlega með einhverjum hætti öðlast eignarrétt að íslenskum orkufyrirtækjum þá þyrfti í fyrsta lagi Alþingi að samþykkja það að breyta rekstrarformi þessara fyrirtækja yfir í hlutafélag og í öðru lagi dugar það ekki til því það þyrfti einnig að samþykkja heimildir til þess að ríkið seldi hlutafé sitt í þeim fyrirtækjum. Það eru ekki uppi í ríkisstjórninni neinar hugmyndir um það að þó að Rafmagnsveitum ríkisins verði breytt í hlutafélag eins og stefnt er að, fyrst og fremst til þess að laga rekstrarform og rekstraraðstæður Rafmagnsveitna ríkisins að eðlilegum rekstraraðstæðum í okkar samfélagi, þá eru engin áform uppi í ríkisstjórninni um að leggja það til að ríkisvaldið selji þau hlutabréf. Ég tel rétt að sjá svo um að slík sala geti ekki átt sér stað þótt samþykkt yrðu lög um að breyta Rarik í hlutafélag nema samþykkt Alþingis kæmi þá til sérstaklega. Það eru engin áform uppi í núv. ríkisstjórn, væntanlega hvernig í samfélaginu, um að ríkið ætti að losa sig við eignaraðild að orkufyrirtækjum eða orkuvinnslufyrirtækjum á Íslandi.
    Þá spurði hv. 7. þm. Reykn. hvort ég gæti skýrt af hverju mat erlendra aðila á Íslandi sem fjárfestingarkosti erlendra fjárfesta væri frekar neikvætt, hvað gæti valdið því að stjórnarfarið í landinu væri m.a. orðað við slíkt mat. Ég get að sjálfsögðu ekki svarað fyrir erlenda aðila í þessu sambandi en ég hygg þó að ég viti hvað þarna er átt við. Þarna er ekki átt við það að stjórnarfar á Íslandi sé ekki stöðugt því að stjórnarfar á Íslandi hefur að sjálfsögðu verið mjög stöðugt og menn geta reitt sig og treyst á íslensk stjórnvöld. Það sem hefur hins vegar verið mjög óstöðugt er afstaða Íslendinga til fjárfestinga erlendra aðila í landinu. Þar hafa orðið miklar breytingar með ríkisstjórnarskiptum á afstöðu ríkisstjórnar þannig að einn ganginn getur áhugi Íslendinga gagnvart erlendum aðilum fyrir erlendri fjárfestingu á Íslandi verið mikill og kannski skömmu síðar gerbreyst. Og það er þetta sem ég hef fundið fyrir í viðtölum við þá fáu erlendu aðila sem ég hef rætt við um fjárfestingarkosti á Íslandi. Menn fylgjast að sjálfsögðu mjög gaumgæfilega með breytingum á stjórnarfari og stjórnarháttum hér á Íslandi og það er þetta sem menn hafa rætt sérstaklega um, þ.e. hve afstaða íslenskra stjórnvalda til fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi og þá er ég ekki að tala um einstaka fjárfestingarkosti, einstök fyrirtæki heldur almennt um fjárfestingu erlendra aðila á Íslandi, hvað hún er breytileg. Og það liggur auðvitað fyrir að á þeim tíma þegar erlendir aðilar höfðu sem mestan áhuga á fjárfestingum á Íslandi og aðstæður voru betri en þær hafa verið síðan, þá var ekki jafnmikill áhugi hjá íslenskum stjórnvöldum á þeim kosti eins og var bæði undan og eftir það tímabil.
    Auðvitað væri hægt að orða þetta einhvern veginn öðruvísi. Ég gæti orðað þetta mjög einfaldlega á minn hátt hvað hér er átt við, en ég held að ég láti þetta nægja en ítreka það að ég hef að sjálfsögðu ekki neitt umboð til að tala fyrir hönd hinna erlendu matsfyrirtækja en mér kemur til hugar að þetta sé ástæðan því að ég hef heyrt hana frá þeim aðilum sem ég hef rætt við um hugsanlegar fjárfestingar erlendra aðila hér.
    Ég held að ég sé búinn að svara flestum fyrirspurnum því að margir þingmenn komu að sambærilegum málum. Það er þó ein fyrirspurn frá hv. 18. þm. Reykv., þ.e. hvernig standi á því að sá kostur er valinn í frv. að nefnd sú sem á að vera ráðherra til ráðuneytis um fjárfestingarkosti er skipuð af ráðherra en ekki kosin af Alþingi eins og nú á sér stað. Svarið við þeirri spurningu er einfaldlega að verði þetta frv. samþykkt, þá falla frá nefndinni öll mikilvægustu verkefni sem hún vinnur nú í dag og verða gerð að almennum reglum í okkar lagasetningu þannig að hlutverk nefndarinnar verður miklu takmarkaðra en það er í dag og nefndin verður nánast hluti af framkvæmdarvaldinu. Það sem kemur hins vegar á móti er það ákvæði í frv. að ráðherra er lögð sú skylda á herðar að flytja Alþingi reglulega skýrslu um erlendar fjárfestingar á Íslandi og þannig geti þingflokkar og Alþingi fylgst reglulega með hvað þar er að gerast.

    Að lokum vildi ég fara örfáum orðum um það sem hv. 6. þm. Norðurl. e. vék að. Ég lít svo á að við teljum okkur báða vera að gæta hagsmuna þjóðarheildarinnar. Við gerum það bara eða við erum ekki sammála um hvernig það skuli gert. Ég tel að það sé gert með því að stuðla að sem frjálsustum viðskiptaháttum milli Íslands og umheimsins. Það sé hagsmunum þjóðarheildarinnar fyrir bestu, bæði til skamms tíma og til lengri tíma. Hv. þm. telur hins vegar að það sé í samræmi við hagsmuni þjóðarinnar að reyna að vernda íslenska sérhagsmuni hvað varðar framleiðslu t.d. landbúnaðarins. Við erum báðir að reyna að berjast fyrir því sem við teljum að séu hagsmunir þjóðar og þjóðarheildar en við erum ekki sammála um það hverjir þeir eru.