Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

30. fundur
Fimmtudaginn 04. nóvember 1993, kl. 13:31:53 (1094)

[13:31]
     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans svör hér áðan og ætla ekki að fara um þau mörg orð en minnast aðeins á tvö, þrjú atriði. Ég tek svör ráðherra um 2. gr., um heimild ráðherra til að skylda fyrirtæki til að selja hlutabréf sín, þannig að hann sé út af fyrir sig samþykkur því að það komi leiðbeining, ef ekki í lög þá í framsögu fyrir þessu atriði þegar frv. kemur frá nefndinni. Það þykir mér gott að heyra og ég held að nefndin ætti að skoða það mjög vandlega.
    Ráðherra ræddi líka um virkjunarmálin og orkulindirnar. Ég hef ekki miklar áhyggjur af því að nokkur erlendur aðili keypti hlutabréf í Rafmagnsveitum ríkisins, ég held að erfitt væri að finna þann aðila sem hefði áhuga á því. Ég skil það mætavel að þau verði ekki boðin ef fyrirtækið verður gert að hlutafélagi. Hins vegar er allt annað t.d. með Landsvirkjun og ráðherra svaraði því ekki hvort hann telur að því verði framfylgt sem segir í hvítbók ríkisstjórnarinnar að gera Landsvirkjun að hlutafélagi því það tel ég vera afar hættulegt og varhugavert skref, því jafnvel þótt þar yrði bundið, eins og ég reyndar rakti áðan, að ekki megi selja hlutabréf ríkisins nema með samþykki Alþingis þá hef ég mínar efasemdir um að unnt væri með lögum að setja sömu kvöð á aðra hluthafa. Þess vegna vildi ég gjarnan ef ráðherra kýs að koma hér upp aftur að hann komi aðeins inn á það atriði.
    Ég vil taka undir það með hæstv. ráðherra að ég tel einnig að það væri gott að fá öflugan, erlendan banka. Ég held að hann mundi veita vissa samkeppni og aðhald og kannski yrði þá ekki nauðsynlegt að beita handafli til lækkunar á vöxtum. En hvað um það. Ég tel hins vegar afar mikilvægt að hér sé örugglega innlendur sterkur banki og þetta vildi ég gjarnan heyra aðeins nánar um. Er ráðherra mér ekki sammála í því að það væri óæskilegt ef allar innlánsstofnanir eða við skulum segja allir bankar landsins yrðu í höndum erlendra aðila? Hér væri sem sagt enginn innlendur banki. Ég hygg að fjárhagslegt sjálfstæði okkar væri þá mjög skert ef svo færi, mjög skert. Ekki síst vegna þess að alþýðuflokksmenn hafa töluvert lýst fylgi við það að einkavæða ríkisbankana báða þykir mér ástæða til að nefna þetta hér og spyrja hæstv. ráðherra um hans viðhorf.
    Ég vil svo þakka hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni fyrir hans ummæli áðan og tek undir það með

honum að það er út af fyrir sig mjög gott að hafa rabbfundi, eins og hann orðaði það, og menn geta þá velt vöngum yfir ýmsum mikilvægum málum. Því er ekki að neita að yfir fundum sem þessum er meiri ró heldur en kannski yfir einhverjum kappræðufundum á þinginu sem stundum vill vera. Ég held satt að segja að það væri afar þarft ef menn gætu skipst á skoðunum um það hvernig á að stuðla að erlendri fjárfestingu í landinu.
    Ég nefndi áðan það mat sem mun vera í hinu þekkta blaði Economist um fjárfestingar erlendra aðila hér á landi og ráðherra kom dálítið inn á það, ég þakka honum það. En ég hef oft spurt sjálfan mig að því hvort hér er nógu markvisst að því unnið að fá erlent fjármagn inn í landið. Á hvaða sviðum teljum við t.d. að helst kæmi til greina erlend fjárfesting? Höfum við gert það upp við okkur? Við höfum rætt um fríhafnir. Það hefur ekkert orðið úr því. Þetta er margra, margra ára umræða og hún virðist alltaf detta einhvers staðar niður í skrifborðsskúffu og svo er hún dregin upp aftur eftir nokkur ár. Hvar stendur svoleiðis mál?
    Ég las nýlega afar fróðlega grein sem birtist í því ágæta ameríska riti Dialogue og þar er skýrt frá því hvernig Írar hafa tekið þessi mál mjög markvisst fyrir. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að þeir gætu veitt erlendum aðilum mikla þjónustu með því að sérhæfa sig í alls konar tölvuútreikningum. Þar starfa núna nokkur hundruð manns sem þjóna amerískum tryggingafélögum í því að meta tjón sem tryggingafélögin verða fyrir í Bandaríkjunum. Þetta hljómar dálítið einkennilega en þeir sýndu að þeir gátu metið slíkt og ráðlagt í slíku miklu ódýrar og hraðar en tryggingafélögin gátu sjálf í Bandaríkjunum. Þetta finnst mér dálítið langsótt en þessu höfðu þeir gert sér grein fyrir fyrir nokkrum árum og þeir lögðu áherslu á að skapa þarna vettvang fyrir erlent samstarf. Ég er þeirrar skoðunar að með því að leggja mikla áherslu á að auka hér menntun á ýmsum hátæknisviðum og kynna það vandlega erlendis þá kynni að vera og muni vera mikill möguleiki á samstarfi erlendra aðila og jafnvel fjárfestingu þeirra hér í þessari auðlind, sem yrði þá þekking Íslendinga á þessum sviðum. Þarna er mjög mikil þekking og ég held að hægt sé að taka miklu skipulegar á þeim málum og nýta þessa þekkingu miklu skipulegar heldur en gert hefur verið. Þetta þarf að gera með langtímamarkmið í huga, beina bæði menntun og fjarskiptum og öðru inn á þá braut að sinna slíku langtímamarkmiði. Ég held einnig að á vissum sviðum ferðaþjónustu kunni að vera mjög miklir möguleikar, en ég er sannfærður um að það þarf að gera einnig með langtímamarkmið í huga og samræmdar aðgerðir af hinu opinbera til stuðnings.
    Ég er farinn að rabba hér eins og hv. þm. Eyjólfur Konráð nefndi það áðan. Ég vil hins vegar taka undir það með honum að lokum að ég vona svo sannarlega að allir hafi það grundvallarsjónarmið að tryggja í íslenskum höndum það sem nauðsynlegt er til þess að við getum talist efnahagslega sjálfstæð þjóð og raunar sjálfstæð þjóð. Ég lít svo á að það sé fyrst og fremst þrennt; það sé landið sjálft, auðlindir hafsins og auðlindir í orkulindum landsins. Mér hefur heyrst á þeirri umræðu sem hér hefur farið fram að menn væru sammála um þetta. En ég vil ljúka þessu með því að hvetja ríkisstjórnina til að skoða mjög vandlega hvernig má koma á framfæri við erlenda fjárfesta öðrum auðlindum sem við eigum í landinu og vinna þá markvisst að því að það geti orðið þjóðhagslega arðbært.