Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

30. fundur
Fimmtudaginn 04. nóvember 1993, kl. 13:39:55 (1095)

[13:39]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Orðaskipti okkar hæstv. viðskrh. urðu snubbótt í andsvörum áðan og þess vegna kveð ég mér hljóðs aftur. Ég vil taka það fram við hæstv. viðskrh. að ég þarf ekki milligöngu hæstv. ráðherra til þess að ræða við hv. 6. þm. Norðurl. e. og við getum alveg talað saman hjálparlaust og útskýrt málin hvor fyrir öðrum. Mér finnst það ótrúleg saga ef þeir eru, hv. 6. þm. Norðurl. e., Jóhannes Geir Sigurgeirsson, og hæstv. viðskrh., orðnir sammála um innflutning á landbúnaðarvörum eins og mér fannst hæstv. ráðherra láta liggja að. Ég vil hins vegar óska hæstv. viðskrh. til hamingju með útlendu gúrkurnar sínar og kannski fyrir það sérstaklega að hafa, þó handleggsbrotinn væri, getað beygt hæstv. landbrh. svo rækilega sem hann hefur gert. Þetta er ekki nema byrjunin á lengra ferli. Það eru gúrkur í dag, það verður skinka á morgun, kalkúnalappir hinn daginn og svo ef leyfin verða ekki veitt nógu hratt þá má alltaf grípa með sér einn og einn svínsbóg í gegnum tollinn. Þetta verður þróunin. Ég er hins vegar ekkert sammála henni.