Seðlabanki Íslands

30. fundur
Fimmtudaginn 04. nóvember 1993, kl. 13:49:41 (1098)

[13:49]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Mér finnst þetta vera hið sérkennilegasta mál. Það er verið að halda auðum bankastjórastól í Seðlabankanum og nota til þess lagafrv. sem lagt er fyrir Alþingi. Röksemd sem uppi hefur verið látin um sparnað af þessu tilefni er líklega nýtilkomin. Ef menn hefðu viljað spara og komast af með einn bankastjóra þá hefði auðvitað hæstv. forveri viðskrh. ekki þurft að ómaka sig í Seðlabankann. Þá hefði Jón Sigurðsson verið hér áfram á meðal vor ef sparnaðarhugmyndirnar hefðu verið til komnar og það væri eitthvert hald í þeim. Það voru ekki sparnaðarhugmyndir sem réðu því að hann var gerður að bankastjóra. Þaðan af síður bílakaupamál hans sem eru að verða skrautlegri og skrautlegri. Þessi jeppi sem Seðlabankinn hafði efni á að kaupa undir hann hefði dugað fyrir launum bankastjóra í talsvert langan tíma ( ÓRG: Eitt og hálft ár.) --- eitt og hálft ár segir hv. 8. þm. Reykn. Það er verið að vitna í breytingar á seðabankalögum. Við vitum af því að það liggur fyrir frv. sem var hér til meðferðar í fyrra. Það er vitað að það frv. nær ekki fram að ganga. Hæstv. ráðherra segir að það sé verið að breyta frv. og ég hef enga trú á því að endanleg gerð frv. eða endanlega afgreiðsla Alþingis á því máli verði með þeim hætti að einum bankastjóra verði trúað fyrir Seðlabankanum. Og ég hef enga trú á að það eigi eftir að njóta meirihlutastuðnings hér á Alþingi. ( Gripið fram í: Jú, jú.) Það er líka ástæðulaus og óskynsamleg breyting á núverandi skipulagi að ætla einum bankastjóra að annast málefni bankans eingöngu. Ég held að það séu full rök fyrir því að hafa þrjá bankastjóra fyrir Seðlabankanum. Þeir hafi nægileg verkefni til að sinna. Það getur vel verið að hégómaskapur einstakra manna spili þar eitthvað inn í, þá langi til að vera einn kóngur yfir þessari stofnun, en það er ekki skynsamlegt fyrirkomulag.
    Ég lít svo á að það sé eðlilegt að Seðlabankinn lúti pólitískri stjórn. Það er ekki hægt að stjórna þessu landi ef ein ríkisstjórn situr í Stjórnarráðinu og önnur ríkisstjórn í Seðlabankanum. Það getur ekki farið vel hvað þá ef það væri ríkisstjórn í Stjórnarráðinu en síðan væri einræðisherra í Seðlabankanum. Seðlabankinn verður á hverjum tíma að starfa í samræmi við stefnu ríkisstjórnar. Ég tel að honum eigi að bera skylda til þess og það sé skynsamlegt að hafa það fyrirkomulag og frasar sem menn hafa verið að éta upp eftir útlendinum um sjálfstæði seðlabanka séu fyrst og fremst runnir upp í seðlabönkum viðkomandi landa. Ég fullyrði að það hentar ekki við íslenskar aðstæður. Seðlabankinn á að lúta pólitískri stjórn og ríkisstjórn verður á hverjum tíma að hafa aðgang að og treysta stjórn Seðlabankans. Það er nefnilega ríkisstjórnar á hverjum tíma þó aum og vesöl sé að stjórna landinu ef hún hefur til þess umboð Alþingis. Ef hún hefur til þess þingræðislegt umboð Alþingis þá á hún að stjórna landinu. Það er eðlilegt að ríkisstjórninn eigi trúnað einhverra í bankastjórn Seðlabankans.
    Nú vil ég taka fram að ég geri enga kröfu til þess að flokkur minn, Framsfl., eigi þennan umrædda stól, síður en svo. Ég tel að vísu heppilegt að einhver framsóknarmaður sé í bankastjórn Seðlabankans vegna þess að þá býst ég við að ákvarðanir bankans verði skynsamlegri en ella og ég tel það algera nauðsyn ef Framsfl. situr í ríkisstjórn eða hefur forustu fyrir henni að Framsfl. eigi aðgang að stjórn Seðlabankans og gott samstarf við hana. Mér litist ekkert á það að núv. stjórnarandstaða, ef við hugsum upp dæmi, ef núv. stjórnarandstaða fengi t.d. þingmeirihuta til að mynda ríkisstjórn að hún gæti rækt hlutverk sitt með viðhlítandi hætti og fyrir væru í Seðlabankanum einungis þeir tveir ágætu vinir okkar sem þar sitja nú.
    Hv. 8. þm. Reykn., Ólafur Ragnar Grímsson, segist hafa samið þetta frv. fyrir viðskrh. Ég efa ekki að hv. 8. þm. Reykn. Ólafi Ragnari Grímssyni hafi gengið drengskapur til og ekkert nema drengskapur. Þetta er liður í siðbótarviðleitninni sem hefur, guði sé lof, verið yfir þingmanninum nú á haustdögum. En hæstv. viðskrh. sem er eins og dr. Hastings Banda ,,ákaflega hygginn maður``, ákaflega hygginn maður svo sem hæstv. utanrrh. orðaði það. Viðskrh. tók þessari hjálp fegins hendi. Honum gekk tvennt til, það var engin frambærilegur krati á lausu í bili. Það er nefnilega búið að planta þeim öllum --- nema þá kannski Ámunda --- í viðhlítandi störf, viðeigandi pósta. ( JGS: Birgir er farinn.) Ég ætlaði einmitt að koma að því, hæstv. umhvrh. Nú, það var ekki hæstv. umhvrh., ég er vanur að heyra í vinstra eyrað á mér gjammið í hæstv. umhvrh. ( ÓRG: Það var Jóhannes.) og snjallyrði hans og tók feil. Það var hv. 6. þm. Norðurl. e. sem greip fram í fyrir mér. Nú síðast fékk Birgir Dýrfjörð verðskuldaðan frama og er orðinn stjórnarmaður í Landsvirkjun. ( Gripið fram í: Ámundi er næstur.) Ámundi hefur ekki fengið neitt svo ég viti enn þá. En e.t.v. þykir hæstv. viðskrh. hann ekki henta í einmitt þetta starf og þó getur gengið annað til. Þriðjungur þingflokks kratanna eða því sem næst er nú horfinn af þingi þeirra sem kosnir voru síðast á nýjar og betri veiðilendur og varamenn komnir í þeirra stað og meira að segja einn varaþingmaðurinn orðinn að ráðherra. Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóri er kominn á Evrópskt efnahagssvæði í miklu betra umhverfi og launakjör en hann hafði hér heima. Svo er og um fyrrv. þingmann Guðmund Einarsson. Birgir Árnason er kominn í boðlegt starf hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Jón Sigurðsson í Seðlabankann, Karl Steinar í Tryggingastofnunina, Eiður Guðnason er ambassador í Ósló, Kjartan Jóhannson er í Genf, sem ambassador og tekur senn við framkvæmdastjórastarfi EFTA, guði sé lof, Stefán Friðfinnsson í hermangið, Magnús Jónsson er orðinn veðurstofustjóri, Árni Gunnarsson . . .  ( Gripið fram í: Jón Gunnar í Náttúrufræðistofnun.) Þar er kratastóll laus, kannski er hann handa Ámunda, ráðuneytisstjórastarfið í umhvrn. Árni Gunnarsson, fyrrv. þingmaður, er orðinn fyrir Heilsuhælinu í Hveragerði og Baldur Ólafsson frá Ísafirði er deildarstjóri í heilbrrn., ( Viðskrh.: Fyrirgefðu, hann er nú fæddur og uppalinn á Akranesi.) Leifur sem mér skilst að hafi komið frá Patrekstfirði er bílstjóri ráðherrans. Svo get ég talið upp 10--20 ungkrata, nýkrata vil ég kalla þá, þessa sem þið hafið fengið frá Ólafi Ragnari og hafa laðast að hinu góða veisluborði þessara miklu veitingamanna. Þeir eru komnir í utanríkisþjónustuna eða þá á völlinn, Árni Páll og þessir. Nú er fjölskylda Guðmundar Árna, hæstv. heilbrh., búin að taka að sér heilbrigðismálin í landinu. Jón H. Karlsson eða hvað hann heitir orðinn aðstoðarmaður ráðherrans, bróðir ráðherrans tók við heilbr.- og trn., hæstv. þingmaður Gunnlaugur Stefánsson, Margrét Björnsdóttir er aðstoðarmaður ráðherrans, Þorkell Helgason ráðuneytisstjóri. Hvað á ég að segja fleira? Guðmundur Ólafsson er orðinn stjórnarmaður í Strætisvögnum Reykjavíkur hf. Ég veit ekki hvað ég á að telja lengi. Mér mundi ekki endast dagurinn en ég læt hér staðar numið með þessa upptalningu. Ég óska þessu góða fólki öllu til hamingju með vegsemd sína og veit að það mun duga vel í þeim störfum sem því hafa verið falin.
    Ég kemst sem sagt að þeirri niðurstöðu að bæði hafi ráðherrann haft frið til að gera þetta vegna þess að það var enginn krati á lausu lengur úr því að hann vildi ekki Ámunda sem seðlabankastjóra. En athygli mína vakti dagsetning í 1. gr. frv. ,,Heimild þessi gildir þó ekki lengur en til ársloka 1994.`` Hvernig skyldi standa á þessu? Nú verð ég að trúa ykkur fyrir því að ég hef ekki trú á að hæstv. viðskrh. sé sérstaklega gráðugur í að bjóða sig fram oftar a.m.k. ekki á Vestfjörðum og kynni nú að vera að hann væri að geyma þarna stól handa sjálfum sér. Stól handa sjálfum sér . . .  ( ÓRG: Eins og fyrirrennari hans.) Eins og fyrirrennari hans. Við þekkjum nefnilega vinnubrögðin, nú erum við farnir að þekkja vinnubrögðin. Ég vil nú gerast svo djarfur að spá. Mér segir svo hugur um að fyrir árslok 1994 biðjist hæstv. viðskrh. lausnar sem ráðherra í ráðuneyti Davíðs Oddssonar og ráðherrann gerir greinilega ráð fyrir að það ráðuneyti muni endast út kjörtímabilið. Ég geri ráð fyrir því að Alþfl. þrábiðji 4. þm. Reykn. Rannveigu Guðmundsdóttur að taka að sér starf viðsk.- og iðnrh. Það kann að vefjast eitthvað fyrir henni hvort hún á að þiggja það eða ekki. En ég geri þó frekar ráð fyrir að hún láti undan hinni sterku kröfu sem vafalaust rís meðal flokksmanna Alþfl. og líklega þjóðarinnar allrar um að hún taki þetta að sér. Ef Björgvin Vilmundarson, bankastjóri Landsbankans, situr alveg blýfastur í stólnum sem ég reyndar reikna frekar með, maðurinn er ekki nema 58 ára gamall og hefur þokkalegt kaup, eitthvað á aðra milljón á mánuði, ef hann fæst nú ekki út úr Landsbankanum þá kynni það að verða þrautalending hæstv. viðskrh. að nota þennan stól sem þarna er verið að halda lausum í Seðlabankanum. Ég á von á því að staðan verði auglýst og það muni margir sækja og einn af þeim verður Sighvatur Björgvinsson alþm. Ég geri ráð fyrir að viðskrh., sem þá verður orðin Rannveig Guðmundsdóttir hv. þm., athugi nú allar umsóknirnar mjög vandlega. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. fái eitt atkvæði í bankaráðinu hið minnsta, þ.e. atkvæði Ágústs Einarssonar. Svo þegar ráðherra hefur athugað þetta í hæfilegan tíma þá spái ég því að niðurstaðan verði sú að hæstv. þáverðandi viðskrh., Rannveig Guðmundsdóttir, komist að þeirri niðurstöðu að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sé hæfastur til að gegna starfi seðlabankastjóra og kemur hann þá í samflot með sínum forna félaga í Seðlabankanum, Jóni Sigurðssyni, og taki til starfa og sleppi við þá raun og pínu að þurfa að bjóða sig fram einu sinni enn.