Seðlabanki Íslands

30. fundur
Fimmtudaginn 04. nóvember 1993, kl. 14:25:27 (1101)

[14:25]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég fer nú að halda ef dæma á af blæbrigðum míns ágæta vinar, hv. þm. Páls Péturssonar, að ef einhverjir eru með sárt enni í þessu máli, þá sé þeirra nú frekar að leita í Framsfl. en í mínum flokki. Þetta mál snýst ekkert um það. Þetta mál snýst um það að við höfum ýmsir úr Alþb. verið að reyna hér í nokkur ár að reyna að koma einhverju viti í stjórnskipun Seðlabankans. Við höfum verið að reyna það hér í ræðustól á Alþingi, með tillöguflutningi í bankaráði Seðlabankans að fá menn til að hverfa

frá þessum gamla hugsunarhætti sem mér fannst því miður allt of mikið einkenna sumt í ræðu hv. þm. Páls Péturssonar. Og ég tel að sú ákvörðun sem ríkisstjórnin hefur nú tekið sé skref í þessa átt. Það er að vísu gallað skref eins og hér hefur verið bent á að gefa til kynna að það eigi að taka upp gamla kerfið að nýju í árslok 1994. Það er hins vegar mesti misskilningur hjá hv. þm. að ég telji að hæstv. viðskrh. hafi skákað mér eitthvað í þessu máli. Málið er ekkert þannig vaxið. Málið er vaxið einfaldlega á þann veg að viljum við flytja Seðlabanka Íslands inn í nútímann eða ekki eða á að halda áfram að manna þessa mikilvægustu peningastofnun landsins með uppgjafa alþingismönnum? Á kerfið að vera þannig áfram hvort sem þeir heita Geir Hallgrímsson, Birgir Ísleifur Gunnarsson eða Jón Sigurðsson? Eða Tómas Árnason? Eða þeim sem ráðherrar hafa velþóknun á eins og Guðmundur Hjartarson svo að ég taki einnig dæmi úr mínum eigin flokki? Á þetta að halda svona áfram langt fram á næstu öld? Við segjum nei. Við viljum ekki að þetta gamla kerfi haldi áfram.