Seðlabanki Íslands

30. fundur
Fimmtudaginn 04. nóvember 1993, kl. 14:27:41 (1102)

[14:27]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Ég veit ekki hvað hv. þm. er að fara. Með fullri virðingu fyrir Jóni Sigurðssyni sem ég ber mikið traust til, þá held ég að það verði ekki komið neinu sérstöku viti í Seðlabankann með því að gera hann þar að einræðisherra eins og hv. þm. vill gera og hefur lagt sitt af mörkum til að gera. Það að manna seðlabankastjórnina með uppgjafaalþingismönnum, það orðalag hv. ræðumanns finnst mér ekki smekklegt. Ég tel að Geir heitinn Hallgrímsson hafi verið ákaflega hæfur til þess að taka að sér starf seðlabankastjóra. Ég tel að Tómas Árnason hafi líka verið ágætlega hæfur til að gera það. Ég tel að Birgir Ísl. Gunnarsson hafi verið ágætlega hæfur til þess að gegna þessu starfi og ég tel að Jón Sigurðsson sé alveg prýðilega hæfur til að vera einn af þremur bankastjórum Seðlabankans.