Seðlabanki Íslands

30. fundur
Fimmtudaginn 04. nóvember 1993, kl. 14:40:26 (1105)

[14:40]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Þessi umræða hefur nú farið nokkuð um víðan völl, m.a. beinst mikið að núv. seðlabankastjóra og fyrrv. viðskrh. Nú er það svo að það kom nánast ekki fyrir að ég væri sammála þeim ágæta manni varðandi stjórnun peningamála. En mér finnst kannski of langt gengið þegar menn segja hér úr ræðustól að hann njóti ekki virðingar. Ég virði manninn fyrir hans skoðanir og það sem hann stendur fyrir þó að ég sé ekki sammála því þannig að mér finnst nú reyndar að hér hafi menn farið offari í ummælum um fjarstadda menn.
    Ég ætla að koma aðeins að þessu máli á svolítið svipaðan hátt og gert hefur verið hér áður og kannski frá öðrum vinklum líka. Ég byrja á því að ítreka þá spurningu til hæstv. ráðherra: Hvers vegna var þetta frv. ekki lagt fram á vordögum þegar lá ljóst fyrir að það stóð fyrir dyrum að tveir bankastjórar létu af störfum á þessu ári? Það hefði verið það rökrétta í málinu. Ég held reyndar ekki að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hafi samið þetta frv. alveg en mér sýnist orðið á öllu að hann hafi leikið illilega á hæstv. viðskrh. og viðskrh. hafi ekki alveg séð fyrir hvað hann var að gera þegar hann lagði þetta frv. fram.
    Í öðru lagi vil ég benda á það að ég tel algerlega óþarft að leggja þetta frv. fram þó svo ráðning seðlabankastjóra hafi frestast. Það hefur gerst oftar en einu sinni og oftar en tvisvar í sögu Seðlabankans að ráðning bankastjóra hafi dregist allt upp í 1 1 / 2 ár. Og ef menn hafa nú ekki farið frjálslegar með lög en þetta í sínum stjórnargerðum, ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, þá mega þeir nú vera engilhreinir. Ég get hins vegar tekið undir að það hefði verið eðlilegt eðli máls samkvæmt og það hefði jafnt átt við um báðar stöðuveitingarnar sem stóðu fyrir dyrum í vor að þeim yrði frestað meðan unnið væri að nýrri löggjöf. Til þess þurfti enga lagabreytingu eins og hér er verið að leggja til. Ég kem að því síðar.
    Varðandi þau ummæli hv. 8. þm. Reykn., Ólafs Ragnars Grímssonar, að það væri mjög mikilvægt að um þetta mál, skipan Seðlabanka, gæti náðst eins og hann sagði breið pólitísk samstaða hér á Alþingi, ég man nú ekki hvort hv. þm. sagði að sá sögulegi atburður gerðist, en hann gerir það nú iðulega í sínu máli og þó að hann hafi ekki tekið það fram um þetta, þá er ég sammála því að það væri mjög æskilegt. Mér sýnist hins vegar að framganga þeirra sem hafa gengið fra fyrir skjöldu í þessu máli, bæði hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar og hæstv. viðskrh. sé nú alls ekki gerð til þess að ná um málið breiðri pólitískri samtöðu, e.t.v. þvert á móti.
    Ég vil upplýsa hér og þá sérstaklega fyrir hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson að á einum fyrsta fundi efh.- og viðskn. eftir að hún kom saman nú í haust var farið yfir þau verkefni sem væru fram undan. Þar ræddi formaður nefndarinnar m.a. um það að við mundum væntanlega fá frv. um Seðlabankann aftur til umfjöllunar í vetur. Það er boðað í þeim lista sem ríkisstjórnin hefur lagt fram um mál. Formaður nefndarinnar lagði á það ríka áherslu að nefndin tæki sér nægan tíma í að vinna málið einmitt út frá þeim forsendum sem hv. þm. nefndi sjálfur hér áðan að það væri mjög mikilvægt að um svo mikilvægt mál eins og skipun Seðlabanka Íslands væri hægt að ná samstöðu á Alþingi. Þarna tel ég reyndar að þingið hafi verið búið að marka að nokkru leyti hvernig það mundi taka á þessu í vetur.
    Nú er það staðreynd að það er ekki mjög mikið samband á milli formanns og varaformanns Alþb. og nú er það svo að það er varaformaðurinn sem situr í efh.- og viðskn. Við þessa málsmeðferð var engum mótmælum hreyft í nefndinni en e.t.v. hafa skilaboðin ekki komist til formannsins og þess vegna hafi hann af vankunnáttu eða þekkingarleysi hafið þessa leikfléttu sem hann hóf og endaði með því að hann plataði hæstv. viðskrh. til þess að leggja fram þetta frv. Það má vel vera að þannig hafi málin æxlast í þessu tilfelli. Ég tek undir að það hefur verið sorglegt að horfa upp á það hvernig Alþfl. hefur beitt pólitískum stöðuveitingum á undanförnum mánuðum fram yfir allt sem nokkur glóra getur talist í. Ég vil þó segja það hér varðandi eðli Seðlabankans sem stofnunar að Seðlabanki hlýtur alltaf að vera stofnun í eigu ríkisins og lúta pólitískri stjórn og þar af leiðandi hljóta allar ráðningar þar, skipan bankaráðs og allar ráðningar i raun að vera pólitískar. Það leiðir af eðli máls. Og það leiðir einnig af því að það hlýtur að vera markmið allra stjórnmálhreyfinga að eiga ítök í Seðlabanka.
    Nú vil ég taka skýrt fram að það þarf ekkert endilega að vera þannig að hann eigi einn af einhverjum bankastjórum sem þar er, menn mega ekki skilja orð mín sem slík. En það ræðst síðan af þeim leiðum og þeim markmiðum sem menn setja Seðlabanka hvernig menn nálgast þetta mál og þess vegna tel ég að það hefði átt að bíða með allar aðgerðir í þessu þangað til Alþingi væri búið að fjalla um ný seðlabankalög.
    Það eru uppi aðallega tvö sjónarmið: Annað það að bankinn eigi í einu og öllu að framfylgja pólitískri stefnu þeirrar ríkisstjórnar sem er á hverjum tíma. Þetta sjónarmið hefur komið hér fram í þinginu og ef sú stefna verður ofan á, þá finnst mér í sjálfu sér skynsamlegast að það verði einn seðlabankastjóri og hann komi og fari með ríkisstjórnum ef þetta á að vera sú stefna sem bankinn á að vinna eftir. Hin stefnan sem rætt er um er sú að menn efli sjálfstæði Seðlabankans og hann vinni í raun sem sjálfstætt afl í þjóðfélaginu að mótun peningastefnu, en vissulega eins og ég sagði áðan er hann pólitísk stofnun og stjórn hans skipuð af Alþingi á hverjum tíma. Ef þessi leið er farin, þá eru enn uppi tveir möguleikar og það sáum við þegar við unnum í þessu máli í fyrravetur í nefndinni. Annar er sá að það verði til þess að gera fámennt bankaráð sem móti stefnuna en síðan verði fjölskipuð bankastjórn með þrem bankastjórum. Það

var sú leið sem nefndin sem samdi frv. komst að að væri sú rétta. Ekki ætla ég að segja neitt um það hvort hún sé endilega sú rétta, en það var sú leið sem nefndin lagði til, Alþb. reyndar lagði til annað.
    Hin leiðin er þá sú að bankaráðið sé fjölmennara og það sé sett saman þannig að það endurspegli hina ýmsu þætti í viðskipta- og efnahagslífi þjóðarinnar. Og það er sú leið sem margar þjóðir hafa farið af þeim þjóðum þar sem við kynntum okkur hvernig væri skipun Seðlabanka þegar við vorum að vinna að þessu frv. á síðasta vetri. Hjá ýmsum löndum eru uppi ákvæði um það að í bankaráði eigi að vera aðilar sem komi úr vissum þáttum viðskiptalífsins og hafi breiða yfirsýn, efnahagslega og pólitíska, yfir peningakerfið og efnahagskerfið á hverjum tíma. Sé þessi leið valin þá kemur að mínu mati fyllilega til greina að bankastjórinn verði einn. Nánast þá framkvæmdastjóri bankaráðsins. En þetta eru allt saman órædd og óuppgerð mál á Alþingi Íslendinga. Ég held að það væri öllum fyrir bestu að við gengjum í það verk og það benti ekkert til annars en að það væri hægt að gera og það lá fyrir, þótt það hafi ekki komið hér fram í ræðustóli í þinginu fyrr, vilji efh.- og viðskn. Alþingis til að ganga í málið. Það tel ég reyndar að sé hinn rétti vettvangur miðað við að hér er um að ræða mál sem var mælt fyrir í fyrra. Það fór í vinnslu í nefndinni og nefndin hélt um það nokkra fundi, kallaði menn til viðtala og fékk heilmikið af gögnum til þess að lesa. Mér hefði því fundist það hinn eðlilegi framgangsmáti málsins að það hefði verið lagt hér fram aftur, farið til nefndar og síðan lá ekkert á og það var ekkert sem rak á eftir og þurfti enga lagabreytingu til þess að það væri hægt að bíða með að skipa þriðja bankastjóra þangað til að þeirri umfjöllun væri lokið. Þannig að samandregið þá er það mín niðurstaða að það sjónarspil, sem hefur verið sett upp í kringum þetta mál núna, sé sett fram af einhverjum öðrum hvötum en þeim að stuðla að því að það gerist sá sögulegi atburður að það náist breið pólitísk samstaða um skipan Seðlabanka á Íslandi.