Seðlabanki Íslands

30. fundur
Fimmtudaginn 04. nóvember 1993, kl. 14:55:23 (1107)

[14:55]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að rekja frekar hvernig ég sé þessa atburðarás fyrir mér, það sér hana sem sagt hver með sínum augum. Ég á hins vegar svolítið erfitt með að gera nokkrar athugasemdir við tilvitnanir hv. þm. í einkasamtöl hans við ýmsa aðila sem tengjast málinu. Ég hef enga möguleika á því en ég verð hins vegar að segja það að ég man ekki eftir því að hafa heyrt áður hér úr ræðustól í Alþingi vitnað eins frjálslega í einkasamtöl út og suður og hér hefur verið gert hér í dag í þessu máli. Það eitt út af fyrir sig held ég að hljóti að vera mjög mikið umhugsunarefni fyrir þann trúnað sem hlýtur að verða að ríkja á milli þeirra sem eru að vinna í stjórnmálum á hverjum tíma að menn geti átt von á því að það sé farið með einkasamtöl um slík mál í ræðustól á Alþingi.