[14:59]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Samkvæmt viðtekinni skilgreiningu á þrískiptingu ríkisvaldsins er það eitt af hlutverkum Alþingis að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu og veita því aðhald. Alþingi fer með löggjafar- og fjárveitingavaldið svo sem kunnugt er en til að fylgjast grannt með framkvæmd fjárlaga og meðferð opinbers fjár hefur Alþingi Ríkisendurskoðun undir sinni stjórn. Ríkisendurskoðun sendir frá sér reglulega skýrslur um framkvæmd fjárlaga auk þess sem hún gerir úttektir á stofnunum og sjóðum hins opinbera samkvæmt beiðni. Allur gangur er á því hvernig farið er með skýrslur Ríkisendurskoðunar. Sumar eru yfirfarnar af fjárlaganefnd en aðrar fara því miður ofan í skúffur og sjást ekki meir þannig að oft má spyrja hvort Alþingi sinni því hlutverki sínu að veita viðkomandi ríkisstjórn nauðsynlegt aðhald, ekki aðeins hvað varðar meðferð opinberra fjármuna heldur einnig það sem varðar almenna stjórnsýslu í landinu. Að mínum dómi þarf Alþingi að finna farveg fyrir skýrslur Ríkisendurskoðunar þannig að þær ábendingar sem þar koma fram týnist ekki í skúffum þingmanna.
    Síðastliðið vor kom upp mikið deilumál hér í þinginu vegna ráðningar framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins til eins árs og þótti mörgum þingmönnum þar afar einkennilega að verki staðið svo ekki sé meira sagt. Dagskrárstjóri innlendrar dagskrárgerðar mætti til vinnu eftir fjögurra ára leyfi frá störfum, í mars sl., en undir lok þess mánaðar var honum sagt upp störfum við Ríkisútvarpið af ýmsum ástæðum. En þá gerði hæstv. menntmrh. sér lítið fyrir og setti manninn sem framkvæmdastjóra sjónvarps til eins árs.
    Í umræðum hér á Alþingi komu upp margar spurningar um gerðir hæstv. menntmrh. og tengsl setts framkvæmdastjóra sjónvarps við ýmsar opinberar stofnanir og sjóði. Niðurstaða þeirrar umræðu varð sú að Ríkisendurskoðun var beðin um úttekt á fjármálalegum samskiptum Hrafns Gunnlaugssonar við ýmsa opinbera aðila en það var miklu þrengri úttekt á málinu en stjórnarandstaðan vildi fá.
    Í júlí sl. birtist svo skýrsla Ríkisendurskoðunar og er þar skemmst frá að segja að Ríkisendurskoðun komst að þeirri umdeilanlegu niðurstöðu að settur framkvæmdastjóri hefði hvorki brotið af sér í starfi né hyglað sjálfum sér fjárhagslega, svo og var niðurstaðan sú að lög hefðu ekki verið brotin. Hins vegar komu fram í skýrslunni ótal athugasemdir og ábendingar sem beinast að framkvæmdarvaldinu og hæstv. menntmrh., svo alvarlegar ábendingar að það er óhjákvæmilegt að ræða skýrslu Ríkisendurskoðunar hér á hinu háa Alþingi ekki síst eftir að því var hafnað í menntmn. að ræða við fulltrúa þeirra stofnana og sjóða sem við sögu koma þannig að ljóst mætti verða hvað gerst hefði í kjölfar skýrslunnar. Það er skylda Alþingis að kanna hvernig athugasemdum Ríkisendurskoðunar hefur verið fylgt eftir og að krefja hæstv. menntmrh. svara við spurningum um þau vinnubrögð sem tíðkast í ráðuneyti hans.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um fjármálaleg samskipti Hrafns Gunnlaugssonar við ýmsa opinbera aðila er farið í gegnum samskipti hans við eftirfarandi aðila: Ríkisútvarpið, Menningarsjóð útvarpsstöðva, Norræna sjónvarpssjóðinn, Kvikmyndasjóð, Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðinn, Evrópska kvikmyndasjóðinn, menntmrn., Námsgagnastofnun, Lánasjóð Vestur-Norðurlanda og Launasjóð rithöfunda. Þess ber að geta að settur framkvæmdastjóri var í sérlegum tengslum við tvær af þessum stofnunum, þ.e. hann var í vinnu hjá Ríkisútvarpinu í mörg ár og kom þar aftur til starfa í mars sl., eins og ég hef áður minnst á, og einnig var hann um árabil í stjórn Kvikmyndasjóðs. Hann hlaut hærri styrki úr þeim sjóði á því tímabili en nokkur annar. Aðrar þær stofnanir og sjóðir sem mest koma við sögu í skýrslunni og skipta máli í þessari umræðu eru: Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn og menntmrn.
    Ég mun nú víkja að einstökum atriðum í þeirri röð sem þeirra er getið í skýrslunni og leggja spurningar fyrir hæstv. menntmrh. Víkur þá sögunni fyrst að kaupum ríkissjónvarpsins á kvikmyndum. Í skýrslunni er að finna langan lista yfir kvikmyndir sem ríkissjónvarpið hefur keypt og þar á meðan eru fimm kvikmyndir Hrafns Gunnlaugssonar. Án þess að ég leggi okkurn dóm á myndir hans þá vaknaði sú spurning í mínum huga hvort það sé hlutverk sjónvarpsins að kaupa nánast allar kvikmyndir sem framleiddar eru hér á landi. Í því sambandi vil ég spyrja hæstv. menntmrh.:
    1. Hvaða reglur gilda um kaup á íslenskum kvikmyndum hjá ríkissjónvarpinu? Líta stjórnendur Ríkisútvarpsins svo á að þeim beri skylda til að kaupa allar íslenskar kvikmyndir óháð efni og gæðum?
    2. Er það við hæfi að mati menntmrh. að ríkissjónvarpið kaupi sýningarrétt að ófullgerðri kvikmynd sem dagskrárstjóri þess, reyndar í leyfi, framleiðir? En eins og menn minnast þá festi sjónvarpið kaup á myndinni Hin helgu vé áður en hún var komin á lokastig.
    3. Eru kaup sjónvarpsins á Hinum helgu véum æskilegt fordæmi að mati ráðherra? Þarf ekki að setja reglur um slík kaup hjá ríkissjónvarpinu?
    Í skýrslunni koma fram ýmsar athugasemdir varðandi starfsemi Ríkisútvarpsins og m.a. er sjónum beint að því hvaða reglur gildi um leyfi starfsmanna og ekki síst er spurt um viðskipti sjónvarpsins við starfsmenn sína. Í því sambandi vil ég spyrja hæstv. menntmrh.: Hvaða reglur gilda um launalaus leyfi hjá Ríkisútvarpinu? Eru þær í samræmi við það sem gildir hjá öðrum opinberum stofnunum? Hafa verð settar reglur um viðskipti Ríkisútvarpsins við starfsmenn sína í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar frá í júlí 1993? En fyrir utan það að kaupa myndir af þessum starfsmanni sjónvarpsins þá voru einnig keyptar af honum vélar og tæki sem Ríkisendurskoðun sér reyndar ekkert athugavert við.
    Í skýrslunni er vikið að Menningarsjóði útvarpsstöðva en í stjórn þess sjóðs sat settur framkvæmdastjóri sjónvarps en hann er reyndar hættur þar og Ríkisendurskoðun gerir athugasemdir við að það skorti á reglur um starfsemi þessa sjóðs. Því vil ég spyrja hæstv. menntmrh.: Hafa verið settar nánari reglur um úthlutun styrkja úr Menningarsjóði útvarpsstöðva? Telur ráðherra þörf á skýrari reglum um sjóðinn? Þar með talið hverjir sitji í stjórn hans? Þetta síðasta tengist því að Ríkisendurskoðun vekur athygli á því að það hafi verið gagnrýnt að starfsmaður sjónvarpsins var settur af menntmrh. í stjórn þessa sjóðs og að þar hafi augljóslega verið um hagsmunaárekstra að ræða. En hann er sem sagt hættur í stjórn sjóðsins og þegar skýrslan kom út hafði ekki verið skipað í hans stað í stjórn sjóðsins. Því vil ég spyrja hæstv. menntmr.: Er búið að skipa fulltrúa í stjórn Menningarsjóðs útvarpsstöðva í stað Hrafns Gunnlaugssonar? Ef svo er: Hver er það?
    Þá víkur sögunni að Kvikmyndasjóði en eins og ég nefndi áður þá sat settur framkvæmdastjóri sjónvarps í stjórn hans um árabil. Ríkisendurskoðun gerir töluverðar athugasemdir við starfsemi Kvikmyndasjóðs og þá ekki síst það að menn hafi ekki gætt reglna um hæfi, þær reglur sem þó hafa hingað til verið í gildi um hæfi þeirra sem sitja í stjórn og hagsmunaárekstra sem þar kunna að eiga sér stað. Ríkisendurskoðun bendir á skort á reglum um starfshætti, úthlutun styrkja og að þeim kröfum, sem þó hafa verið gerðar um þau gögn sem umsækjendur eigi að skila, sé ekki sinnt. Menn hafi fengið styrki til kvikmyndagerðar án þess að nauðsynleg gögn hafi fylgt eða að menn hafi gert upp dæmið eftir á. Varðandi Kvikmyndasjóð vil ég spyrja hæstv. menntmrh.: Eru fyrirhugaðar breytingar á starfsháttum Kvikmyndasjóðs í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar? Hafa verið settar reglur um starfsemi Kvikmyndasjóðs, svo sem um kosningu manna í úthlutunarnefnd, starfssvið þeirra og starfsskyldur, eins og Ríkisendurskoðun bendir á í sinni skýrslu?
    Þá spyr ég einnig: Hvernig hyggst menntmrh. taka á hæfi manna til að sitja í nefndum og stjórnum á vegum ráðuneytis hans, samanber gagnrýni Ríkisendurskoðunar um þau efni? Telur menntmrh. við hæfi að sami maður sitji í stjórn opinbers sjóðs og sé um leið sá aðili sem hlýtur hæstu styrki úr þeim sama sjóði? Hvernig hyggst ráðherra taka á slíkum hagsmunaárekstrum í stjórnum menningarsjóða ríkisins? Við getum rétt ímyndað okkur að Kvikmyndasjóður er ekki eini sjóðurinn þar sem slíkir hagsmunaárekstrar eiga sér stað. Í síðasta lagi varðandi Kvikmyndasjóð spyr ég: Mun menntmrh. hlutast til um að reglum Kvikmyndasjóðs verði betur fylgt eftir en hingað til hefur tíðkast, samanber gagnrýni Ríkisendurskoðunar t.d. um að styrkir hafi verið veittir án fullnægjandi gagna og án þess að fjármögnun viðkomandi kvikmyndar sé tryggð? Það kemur sem sagt fram allmikil gagnrýni á Kvikmyndasjóð og það er stór sjóður sem skiptir kvikmyndagerðarmenn miklu máli og því er nauðsynlegt að þar séu starfshættir með eðlilegum og viðunandi hætti.
    Þá víkur sögunni að þeim þætti skýrslunnar sem er kannski hvað merkilegastur og undarlegastur, þ.e. því sem snýr að Norræna kvikmyndasjóðnum og þeirri fyrirgreiðslu sem settur framkvæmdastjóri naut af hálfu ráðuneytisins. En eins og menn muna átti settur framkvæmdastjóri í miklum bréfaskriftum vegna þess að umsókn hans var hafnað um styrk úr sjóðnum og ráðuneytið eða starfsmenn ráðuneytisins gengu í hans mál.
    Það er ekki tími til að rekja gang málsins og vil ég benda þingmönnum á að lesa þennan merkilega og furðulega kafla skýrslunnar. En í því sambandi vil ég spyrja: Er það viðtekin regla í menntmrn. að ráðherra og starfsmenn ráðuneytisins beiti sér í þágu einstaklinga líkt og lýst er í skýrslu Ríkisendurskoðunar vegna fjárhagserfiðleika --- en það voru fjárhagserfiðleikar sem voru ein meginskýringin á því hvernig menntmrn. beitti sér fyrir settan framkvæmdastjóra sjónvarps --- eða umsókna um styrki svo sem úr Norræna kvikmyndasjóðnum, þar sem m.a. bréfaskriftum og fulltrúa Íslands í sjóðnum var beitt í þágu eins umsækjenda? Hefur slíkt gerst fyrr eða síðar? Eiga allir Íslendingar kost á slíkri fyrirgreiðslu og er fleiri dæmi að finna um slíka málsmeðferð í ráðuneytinu? Telur ráðherra vinnubrögð af þessu tagi eðlilega stjórnarhætti?
    Þá er röðin komin að menntmrn. og þeim athugasemdum eða spurningum sem vakna út frá lestri skýrslunnar. Þar víkur sögunni fyrst að kvikmyndakaupum menntmrn., en það kemur fram í skýrslunni að þar var einnig um fyrirgreiðslu að ræða vegna fjárhagsörðugleika setts framkvæmdastjóra. Hæstv. menntmrh. keypti án heimildar kvikmyndirnar Óðal feðranna, Í skugga hrafnsins og Lilju. Það vakna auðvitað spurningar vegna þessara kaupa og hvað eigi að gera við þessar kvikmyndir vegna þess að sú regla hefur gilt að þær kvikmyndir sem keyptar hafa verið og afhentar Námsgagnastofnun hafa að sjálfsögðu verið ætlaðar til kennslu og yfirleitt verið byggðar á bókmenntaverkum þannig að það hefur verið hægt að tengja saman kennslu í bókmenntum og verkefni sem unnin eru upp úr kvikmyndum. En það er aðeins ein þessara þriggja mynda sem byggir á bókmenntaverki, þ.e. Lilja sem byggð er á smásögu eftir Halldór Laxness, en hinar tvær eru höfundarverk Hrafns Gunnlaugssonar og hans hugsýn, annars vegar úr nútímanum og hins vegar frá því um kristnitöku eða svo. Eins og ég nefndi hér í umræðu fyrr í vetur þá er þessi mynd að mínum dómi grautur upp úr Sturlungu. En það er auðvitað mitt mál hvernig ég met þessa mynd en það sem mig langar til að vita er hvernig hæstv. menntmrh. metur þessar myndir. Ég vil spyrja hann í því sambandi:
    1. Hafa kvikmyndirnar Lilja, Í skugga hrafnsins og Óðal feðranna verið afhentar Námsgagnastofnun? Hefur Námsgagnastofnun tekið afstöðu til þess hvort þessar myndir henti til kennslu?
    2. Hvers konar notkun á myndunum Í skugga hrafnsins og Óðal feðranna hugsaði menntmrh. sér þegar hann keypti þær fyrir Námsgagnastofnun, þar sem hvorug þeirra byggir á bókmenntaverkum eins og aðrar kvikmyndir sem keyptar hafa verið af eða fyrir Námsgagnastofnun?
    3. Telur menntmrh. myndina Í skugga hrafnsins hæfa til sýninga og kennslu í skólum í ljósi þess ofbeldis og manndrápa sem í henni er að finna og með þá staðreynd í huga að myndin byggir hvorki á sögulegum heimildum, þekkingu á fyrstu öldum Íslandsbyggðar né því sem vitað er um þjóðhætti þjóðveldisaldar? --- Ef ég man rétt þá var þessi mynd bönnuð börnum þegar hún var sýnd hér í kvikmyndahúsum.
    4. Hafa aðrir kvikmyndagerðarmenn boðið menntmrn. myndir sínar til kaups í kjölfar kaupanna á hinum þremur áðurnefndu myndum?
    5. Hefur mennmrn. keypt íslenskar kvikmyndir, aðrar en myndir Hrafns, það sem af er árinu 1993 eða stendur það til?
    6. Lítur ráðherra svo á að það sé hlutverk menntmrn. að kaupa íslenskar kvikmyndir af einstökum framleiðendum án sérstakrar heimildar frá Alþingi?
    Að lokum varðandi vinnubrögðin í menntmrn. vil ég spyrja hæstv. menntmrh.: Eru fyrirhugaðar breytingar á reglum um aðra menningarsjóði en Kvikmyndasjóð í kjölfar þeirrar gagnrýni sem fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar? Hefur starfs- og valdsvið embættismanna menntmrn. verið skilgreint nánar í ljósi þeirra bréfaskrifta sem þar áttu sér stað, án vitundar ráðherra, um samskipti Hrafns Gunnlaugssonar við Norræna kvikmyndasjóðinn?
    Þessar síðustu spurningar varða það atriði að það koma fram mjög sérkennileg vinnubrögð í ráðuneytinu sem tengjast fyrirgreiðslu við einstakling og ráðherra skuldar okkur skýringu á þessum vinnubrögðum.