[15:15]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Mér telst til að í ræðu hv. málshefjanda komi um eða yfir 30 spurningar til mín. Það er tiltölulega fljótlegt að lesa þær en það gefur auga leið að ég get ekki svarað þeim svo viðhlítandi sé á 15 mínútum. Ég geng því út frá því að ég fái þann tíma sem þarf til svaranna og gangi þá hreint til

verks og sleppi öllu slaufuverki.
    Spurningarnar hef ég áður fengið í hendur og ég svara þeim án þess að lesa þær upp að nýju nema nauðsynlegt sé samhengisins vegna.
    Það var fyrst spurt hvaða reglur gildi um kaup á íslenskum kvikmyndum hjá Ríkisútvarpinu.
    Engar skrifaðar reglur gilda um kaup á íslenskum kvikmyndum hjá Ríkisútvarpinu. Hins vegar hefur sjónvarpið keypt nær allar íslenskar kvikmyndir sem til voru þegar það hóf starfsemi sína og flestar sem síðan hafa verið framleiddar. Stjórnendur sjónvarpsins hafa ekki litið svo á að þeim beri skylda til að kaupa allar íslenskar kvikmyndir óháð efni og gæðum, en sjónvarpið hefur litið á það sem sitt hlutverk að styðja við bakið á íslenskri kvikmyndagerð eftir mætti og raunar mun hafa verið kveðið svo á í lögum á sínum tíma. Það mun oft hafa átt sér stað að ríkissjónvarpið kaupi dagskrárefni af núverandi og fyrrverandi starfsmönnum. Það þarf í sjálfu sér ekki að vera neitt óhæfilegt við það að ríkissjónvarpið kaupi sýningarrétt á ófullgerðri kvikmynd eða dagskrárefni sem starfsmenn stofnunarinnar eða dagskrárstjóri standa að á meðan þeir eru í launalausu leyfi. Við samninga við starfsmenn verður þó að gæta sérstaklega að því að ekki komi til hagsmunaárekstra enda kunna slík viðskipti að orka tvímælis ef ekki er vandað til ákvörðunartöku í einstöku tilviki.
    Það að einn afkastamesti kvikmyndaleikstjóri landsins er dagskrárstjóri ríkissjónvarpsins á ekki að útiloka að verk hans séu sýnd íslenskum sjónvarpsáhorfendum. En tengsl hans við stofnunina eða kaupanda sýningarréttarins gera þær kröfur til manna að vandað sé til samningsgerðar og að hann njóti þess ekki sérstaklega við upphæð greiðslna, tilhögun þeirra eða endurkröfurétt. Ákvörðun um kaup sjónvarpsins á Hinum helgu véum var tekin af framkvæmdastjóra sjónvarpsins sem átti engra persónulegra hagsmuna að gæta. Samningurinn á milli Hrafns Gunnlaugssonar og ríkissjónvarpsins á sýningarrétti á kvikmyndinni Hin helgu vé er ekki gagnrýndur í skýrslu Ríkisendurskoðunar. En í skýrslunni er tekið fram að greiðsla fyrir þessa kvikmynd sé óvenjuleg fyrir þá sök að hafa átt sér stað að fullu áður en myndinni er lokið. Það er síður en svo einsdæmi að ríkissjónvarpið kaupi sýningarrétt á dagskrárefni án þess að það sé fullgert þegar kaup fara fram. Það er t.d. allvel þekkt við kaup á heimildarkvikmyndum og norrænum samframleiðsluverkefnum. Kvikmyndin Hin helgu vé var fyrsta leikna kvikmyndin sem ríkissjónvarpið keypti sýningarrétt á á meðan kvikmyndin var á framleiðslustigi. Ríkissjónvarpið gerðist þannig meðframleiðandi að kvikmyndinni ásamt sænska sjónvarpinu og mun samningurinn við Hrafn Gunnlaugsson hafa tekið mið af þeim samningi sem þá var þegar gerður á milli sænska sjónvarpsins og Hrafns Gunnlaugssonar.
    Þá er spurt um hvort það sé æskilegt fordæmi að keypt sé mynd í vinnslu. Íslenskum sjónvarpsstöðvum ber skylda til að stuðla að framleiðslu á íslensku dagskrárefni. Það er í raun eitt mikilvægasta verkefni íslenskra sjónvarpsstöðva að kaupa innlent dagskrárefni. Þetta er óumdeilt sjónarmið. Almennt séð er það bæði eðlilegt og sjálfsagt að sjónvarpsstöðvar hér á landi taki þátt í framleiðslu kvikmynda hvort sem það eru leiknar kvikmyndir, heimildarkvikmyndir eða stuttmyndir. Framleiðsla kvikmynda er dýr svo það verður að leita allra leiða til að nýta þær fjármögnunarleiðir sem finnast. Það er rétt að nefna það hér að Stöð 2 tók þátt í framleiðslu á kvikmynd Lárusar Ýmis Óskarssonar, Ryð. Bæði Stöð 2 og ríkissjónvarpið eiga aðild að Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum ásamt öðrum norrænum sjónvarpsstöðvum og kvikmyndastofnunum en sá sjóður veitir styrki til framleiðslu m.a. leikinna kvikmynda. Það er allra hagur, bæði kvikmyndasjóða og sjónvarpsstöðva, að stuðla þannig að tilurð íslenskra kvikmynda og dreifa þannig fjárhagslegri áhættu. Þátttaka sjónvarpsstöðva í framleiðslu kvikmynda er vel þekkt í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Í því ljósi er það æskilegt fordæmi að sjónvarpið tekur þátt í framleiðslu myndarinnar Hin helgu vé og er það vonandi til merkis um nánara samstarf ríkissjónvarpsins og íslenskra kvikmyndaframleiðenda.
    Hvað varðar þá staðhæfingu að ríkissjónvarpið hafi ekkert haft um vinnslu kvikmyndarinnar að segja þá lágu að sjálfsögðu fyrir allar viðhlítandi upplýsingar um handrit, tökuáætlun og umgjörð kvikmyndarinnar þegar kaupin áttu sér stað sem gerði framkvæmdastjóra sjónvarpsins kleift að meta, með sama hætti og sænska sjónvarpinu, hvort kvikmyndin væri fýsilegt dagskrárefni. Samningur þessi var gerður í samráði við útvarpsstjóra.
    Þá er spurt hvaða reglur gilda um launalaus leyfi hjá ríkissjónvarpinu. Engar sérstakar reglur gilda um launalaust leyfi hjá sjónvarpinu, þar gilda almennar reglur ríkisins. Hins vegar má benda á að fyrirtæki með skapandi listamenn í liði fastráðinna starfsmanna þurfi fremur en önnur ríkisfyrirtæki að líta á slíkar beiðnir með velvild. Fjögurra ára leyfið sem Hrafn fékk til að vinna að Hvíta víkingnum var veitt með hliðsjón af samnorrænum reglum sem kveða á um að veita skuli ríkisstarfsmönnum allt að fjögurra ára leyfi þegar þeir vinna að samnorrænum verkefnum. Þótt þessar reglur hafi kannski ekki bindandi lagagildi fyrir sjónvarpið var höfð hliðsjón af þeim þegar umrætt leyfi var veitt Hrafni Gunnlaugssyni. Vegna þess að spurt var um hvort settar hefðu verið reglur um viðskipti Ríkisútvarpsins við starfsmenn sína þá hafa þær ekki verið settar og það er ekki mælst til þess sérstaklega af hálfu Ríkisendurskoðunar.
    Málefni Menningarsjóðs útvarpsstöðva eru til sérstakrar athugunar í ráðuneytinu og í útvarpslaganefnd. Þannig að svarið við spurningunni, hvort settar hafi verið þar nánari reglur um úthlutanir, er neitandi. Það þarf að endurskoða lagareglur um Menningarsjóð útvarpsstöðva og útvarpslaganefndin hefur það verkefni með höndum.
    Fulltrúi í stjórn Menningarsjóðs útvarpsstöðva hefur verið skipaður í stað Hrafns Gunnlaugssonar, það var gert í síðasta mánuði, og hann er Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri.
    Þá er spurt um hvort fyrirhugaðar séu breytingar á starfsháttum Kvikmyndasjóðs í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar og hvort settar hafi verið reglur um starfsemi sjóðsins. Núna er unnið að úttekt á starfsemi Kvikmyndasjóðs og það verk er á vegum Hagsýslu ríkisins. Ný reglugerð um Kvikmyndasjóð hefur verið undirrituð og er hún í meginatriðum í samræmi við tillögur stjórnar Kvikmyndasjóðs. Í reglugerðinni er sérstaklega fjallað um úthlutanir úr Kvikmyndasjóði, kosningu manna í úthlutunarnefnd, starfssvið þeirra og starfsskyldur og hæfisskilyrði. Reglugerð þessi mun öðlast gildi á næstu dögum.
    Þá er spurt hvernig ég hyggist taka á hæfi mann til að sitja í nefndum og stjórnum á vegum ráðuneytisins. Í reglugerðinni um úthlutun úr Kvikmyndasjóði er sérstaklega fjallað um hæfi stjórnarmanna og fulltrúa í úthlutunarnefnd. Um næstu áramót taka gildi ný stjórnsýslulög og ég mun senda öllum tilnefningaraðilum á sviði menntmrn. bréf þar sem þessi lög og efni þeirra varðandi hæfi er sérstaklega kynnt. Áskilinn verður réttur til að hafna tilnefningum ef hæfisreglna er ekki gætt. Í skýrslunni telur Ríkisendurskoðun ástæðu til að endurskoða það fyrirkomulag að fulltrúar hagsmunaaðila sitji í stjórn Kvikmyndasjóðs. Þetta fyrirkomulag er bundið í lögum um kvikmyndamál sem sett voru af Alþingi. Það að hagsmunaaðilar sitji í stjórnum sjóða er víða lögbundið í íslenskri löggjöf. Ég veit ekki hvað mönnum gengur til að gera það sérstaklega tortryggilegt að félög listamanna tilnefni fulltrúa í stjórn menningarsjóða þegar ákvæði um lögbundinn rétt hagsmunaaðila á öðrum sviðum þjóðlífsins er víða að finna í íslenskri löggjöf. Það breytir þó ekki því að full ástæða er til að huga að hæfisreglum og hagsmunatengslum. Nokkur dæmi:
    Í lögum um Framleiðnisjóð landbúnaðarins er kveðið á um skipan stjórnar sjóðsins. En hana skipa meðal annarra fulltrúar tilnefndir af Búnaðarfélagi Íslands og Stéttarsambandi bænda. Hvað með Framleiðsluráð landbúnaðarins? Í því eiga sæti fulltrúar sem kjörnir eru af Stéttarsambandi bænda og tilnefndir af Osta- og smjörsölunni og allra sláturleyfishafa í landinu. Sama á við um samráðsnefnd samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða en sú nefnd er m.a. skipuð fulltrúum samtaka sjómanna og samtökum útvegsmanna og á þessi nefnd m.a. að fjalla um álita- og ágreiningsmál varðandi veiðileyfi, úthlutun aflahlutdeildar og aflamark. Síldarútvegsnefnd má einnig nefna en þar sitja fulltrúar tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Félagi síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi og á Suðvesturlandi. Í stjórn Iðnlánasjóðs, samkvæmt lögum frá 1987, sitja fulltrúar tilnefndir af Landssambandi iðnaðarmanna og Félagi íslenskra iðnrekenda.
    Varðandi hættu á hagsmunaárekstrum í stjórnum menningarsjóða ríkisins að þessu leyti vil ég benda á að slík hætta er ekki einungis fyrir hendi í stjórnum menningarsjóða eins og ég hef nefnt.
    Þá er ég spurður hvort ég telji við hæfi að sami maður sitji í stjórn opinbers sjóðs og sé um leið sá aðili sem hlýtur hæsta styrk úr þeim sjóði. Það er ekki viðsættanlegt ef umsækjandi um fjárframlög tekur jafnframt ákvörðun um úthlutanir úr sjóðnum, en um það er ekki að ræða varðandi Kvikmyndasjóð. Það er ekki stjórn Kvikmyndasjóðs sem úthlutar úr sjóðnum til kvikmyndageðar heldur er það sérstök úthutunarnefnd. Mér vitanlega hefur enginn fulltrúi í úthlutunarnefnd Kvikmyndasjóðs jafnframt þegið styrk úr sjóðnum. Þess hefur verið sérstaklega gætt við val á fulltrúum í úthlutunarnefnd Kvikmyndasjóðs að þeir eigi ekki hagsmuna að gæta við úthlutun. Það hefur hins vegar verið gagnrýnt að hugsanlegir umsækjendur eigi hlut að því sem stjórnarmenn Kvikmyndasjóðs, tilnefndir af sínum fagfélögum samkvæmt lögum, að velja fulltrúa í úthlutunarnefnd. Þetta er lögbundin tilhögun sem Alþingi hefur sjálft ákveðið en í væntanlegu frv. til nýrra kvikmyndalaga, sem nú er unnið að, mun verða lögð til breyting í þessu efni. Það er e.t.v. rétt að geta þess hér, í tilefni af þessari spurningu, að í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að ekki verði með réttu sagt þegar á heildina er litið að Hrafn Gunnlaugsson skeri sig sérstaklega frá öðrum styrkþegum hvað fjárhæð styrkja varðar. Umfang styrkveitinga til Hrafns Gunnlaugssonar er ekki óeðlilegt í ljósi þess fjölda mynda sem hann hefur gert og þess hve lengi hann hefur starfað að kvikmyndagerð.
    Ég tel það rétt að ríkisvaldið eigi gott samstarf við fulltrúa atvinnulífsins og á það jafnvel við um fulltrúa listgreina sem fulltrúa sjávarútvegs eða landbúnaðar. En í ljósi hinna nýju stjórnsýslulaga mun ég ekki láta undir höfuð leggjast að kynna þær hæfisreglur sem þar eru settar og þeim hæfisskilyrðum mun verða beitt við skipan í stjórnir eða nefndir á vegum míns ráðuneytis.
    Þá er ég spurður hvort ég muni hlutast til um að reglum Kvikmyndasjóðs verði betur fylgt eftir en hingað til hefur tíðkast. Í reglugerð um úthlutanir úr Kvikmyndasjóði eru ítarleg ákvæði um að fullnægjandi gögn liggi fyrir og að fjármögnun sé tryggð svo sem kostur er.
    Þá voru það spurningar um Norræna kvikmyndasjóðinn í mörgum liðum sem ég les ekki hér aftur.
    Kaup ráðuneytisins á kvikmyndum Hrafns Gunnlaugssonar sem fjallað er um í skýrslu Ríkisendurskoðunar eru ekki einsdæmi. Frá árinu 1983 hefur ráðuneytið keypt sýningarrétt að samtals sjö myndum, til 12--15 ára að jafnaði. Kaupverð ráðuneytisins á kvikmyndum Hrafns Gunnlaugssonar á síðasta ári var um 2,6 millj. kr. fyrir hverja kvikmynd og er það næstlægsta kaupverð kvikmynda sem ráðuneytið hefur greitt miðað við framreiknað kaupverð, samanber skýrslu Ríkisendurskoðunar. Sýningarréttur var keyptur til 12 ára. Kvikmyndir Þorsteins Jónssonar voru keyptar á mun hærra verði eða 4,7 millj. kr. hvor kvikmynd og það er hæsta verð sem ráðuneytið hefur greitt fyrir kvikmynd og var sýningarréttur að þeim kvikmyndum aðeins til fimm ára. Hvort ráðherra á þeim tíma var að beita sér í þágu einstaklinga vegna fjárhagserfiðleika læt ég ósagt um, enda veit ég ekkert um það.
    Varðandi Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðinn er út af fyrir sig ekki óeðlilegt að íslenskir ríkisborgarar leiti aðstoðar hjá ráðuneyti ef þeir telja sig órétti beitta af fjölþjóðlegri stofnun sem ráðuneytið á aðild að. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt. Ég hef þó talið að bréfaskriftir vegna slíkra málefna eigi að bera undir ráðherra enda er það allajafna gert, en svo var ekki í því tilviki sem hér var gert að umræðuefni.
    Spurt er hvort myndirnar þrjár hafi verið afhentar Námsgagnastofnun. Kvikmyndirnar hafa ekki verið afhentar Námsgagnastofnun og stofnunin hefur ekki lagt kennslufræðilegt mat á myndirnar. Innan Námsgagnastofnunar hefur sú hugmynd verið rædd að stofna sérstakan flokk íslenskra bíómynda hjá stofnuninni. Sá flokkur yrði óháður námsefni skóla en gæti staðið sem sjálfstætt efni aðgengilegt skólum t.d. til að kenna um kvikmyndagerð almennt, um mismunandi listform, túlkun í gegnum fjölmiðla o.s.frv. Starfsmenn Námsgagnastofnuar hafa auk þess látið í ljós þá skoðun að kvikmyndin Lilja gæti hentað grunnskólum þar sem sagan sem myndin byggir á er lesin í skólum.
    Þá er spurt hvers konar notkun á myndunum Í skugga hrafnsins og Óðal feðranna ég hafi hugsað mér þegar þær myndir voru keyptar. Það er að mínu mati fráleitt sjónarmið að einungis eigi að kaupa þær íslenskar kvikmyndir til notkunar í skólum sem gerðar eru eftir bókmenntaverkum. Það er æskilegt ef unnt væri að koma á kennslu í myndmáli í grunnskólum og framhaldsskólum. Það er mjög miður ef ekki er séð til þess að íslenskar kvikmyndir séu kynntar í skólum þannig að íslenskum nemendum gefist kostur á að kynna sér íslenskt myndmál.
    Þá er spurt um myndina Í skugga hrafnsins, hvort ég telji hana hæfa til sýninga og kennslu í skólum. Kvikmyndin Í skugga hrafnsins er íslensk kvikmynd gerð af íslenskum listamönnum og spunnin úr íslenskri sagnahefð. Myndin er ekki heimildarkvikmynd heldur leikin kvikmynd, leikin skáldsaga sem sögð er á myndmáli. Hún hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu og ég tel að hún sé síst hættulegri íslenskum framhaldsskólanemendum með tilliti til ofbeldis en ýmsar sögur úr sígildum bókmenntaverkum okkar sem lesnar eru í skólum. Og það er rétt að nefna það að Svíar hafa mikið notað Hrafninn flýgur og Í skugga hrafnsins við kennslu í skólum.
    Þá er spurt hvort aðrir kvikmyndamenn hafi boðið ráðuneytinu myndir sínar til kaups og hvað hafi verið keypt það sem af er árinu 1993 eða standi til. Já, aðrir kvikmyndagerðarmenn hafa boðið ráðuneytinu myndir sínar til kaups og hafa raunar gert það bæði fyrir og eftir kaup ráðuneytisins á þessum myndum en það stendur ekki til að kaupa fleiri myndir á þessu ári.
    Þá er spurt hvort ég líti svo á að það sé hlutverk ráðuneytisins að kaupa íslenskar kvikmyndir af einstökum framleiðendum án sérstakrar heimildar frá Alþingi. Ég lít ekki á það sem hlutverk menntmrn. að kaupa íslenskar kvikmyndir án sérstakrar heimildar frá Alþingi. Ég tel hins vegar að ráðherra geti ákveðið slík kaup án þess að bera það undir Alþingi enda hafi hann til þess fjármuni og það hefur verið látið átölulaust allt frá árinu 1983. Það sem Ríkisendurskoðun gagnrýnir er greiðsluloforð sem ég gaf með samþykki fjmrh. Ég er ekki sammála Ríkisendurskoðun um þetta atriði.
    Þá er spurt hvort fyrirhugaðar séu breytingar á reglum um aðra menningarsjóði en Kvikmyndasjóð í kjölfar gagnrýninnar sem fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá júlí. Félög listamanna tilnefna fulltrúa í úthlutunarnefndir samkvæmt lögum um listamannalaun. Þessi lög eru mjög ný og ég tel rétt að það verði látið betur á þau lög reyna. Það hefur verið sátt um þá tilhögun sem lögin kveða á um og ég tel ekki rétt að breyta henni af þessari ástæðu. Hins vegar verða stjórnsýslulögin kynnt listamannafélögum eins og áður segir með sérstöku bréfi frá ráðuneytinu og ráðuneytið mun fylgjast vel með því að hæfi skilyrða sé gætt. En þykir mönnum sem hagsmunaárekstur geti orðið við úthlutun úr Kvikmyndsjóði? Kann að vera meiri hætta annars staðar? Ég nefni í því samhengi Launasjóð rithöfunda. Þriggja manna úthlutunarnefnd er þar öll tilnefnd af stjórn Rithöfundasambands Íslands. Það kemur enginn annar þar nærri. Það getur svo verið verkefni fyrir siðavanda alþingismenn og rannsóknarblaðamenn að athuga hvort stjórnarmenn Rithöfundasambandsins eða frambjóðandi til stjórnar hafi fengið betri afgreiðslu en aðrir hjá úthlutunarnefndum sem þeir hafa sjálfir valið. Komi það í ljós er sjálfsagt að athuga með breytingar á lögunum en um það hefur Alþingi síðasta orðið.
    Þá er spurt hvort starfs- og valdsvið embættismanna menntmrn. hafi verið skilgreint nánar í ljósi þeirra bréfaskrifta sem þar áttu sér stað án vitundar ráðherra um samskipti Hrafns Gunnlaugssonar við Norræna kvikmyndasjóðinn. Starfssvið eða valdsvið embættismanna ráðuneytisins hefur ekkert sérstaklega verið skilgreint nánar. Ég ber fullt traust til embættismanna ráðuneytisins og þeim er vel ljóst hvaða mál þeir þurfa að bera sérstaklega undir ráðherra.
    Hæstv. forseti. Í byrjun aprílmánaðar setti ég Hrafn Gunnlaugsson til þess að gegna starfi framkvæmdastjóra sjónvarpsins um eins árs skeið. Þessi ákvörðun hefur valdið slíku írafári meðal þingmanna og fjölmiðla að með ólíkindum má telja. Ráðherra verður að sjálfsögðu að vera viðbúinn gagnrýni á ákvarðanir sínar. Ég biðst ekki undan henni ef hún er málefnaleg. Á það hefur mjög skort í allri þessari umræðu til þessa og það er umhugsunarvert hversu illskeytt þessi umræða hefur verið. Þar hefur margt orðið fallið sem betur hefði ósagt verið.