[15:42]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu skýrsla frá því í júlí í sumar eins og þegar hefur komið fram og er viðfangsefnið fjármálaleg samskipti Hrafns Gunnlaugssonar við ýmsa opinbera aðila. Ég vil taka undir með síðasta ræðumanni hvað það snertir að það er slæmt hversu langt er liðið frá því að skýrslan kom út þegar hún kemur hér til umræðu á hv. Alþingi og ég hefði talið að það hefði verið heppilegra að þessi umræða hefði fengið að fara fram og frekari umfjöllun í hv. menntmn. í stað þess að ræða málið opinberlega hér í þinginu, en stjórnarsinnar höfnuðu því og því er hér rætt um þetta mál utan dagskrár. En með breytingum sem gerðar voru á þingskapalögunum 1991 var hugsunin m.a. sú að gera starf nefnda virkara og umræður færu fram í nefndum í ríkara mæli en minnkuðu í sjálfu þinginu, en ekki meira um það.
    Ég vil þakka hv. 18. þm. Reykv. fyrir þær spurningar sem hún lagði hér fram til hæstv. menntmrh. og ég vil enn fremur þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin. Þó að þau væru kannski frekar loðin mörg og ekki mjög afgerandi, þá lagði hann sig a.m.k. fram um það að svara þeim spurningum. En það að hv. 18. þm. Reykv. sá ástæðu til þess að leggja hér fram um 30 spurningar segir kannski meira en margt annað um skýrsluna og hversu fjarri hún er því að svara öllum spurningum og hreinsa settan framkvæmdastjóra sjónvarps í eitt skipti fyrir öll af öllum áburði. Sannleikurinn er nefnilega sá að þessi skýrsla vekur fleiri spurningar en hún svarar.
    Ég vil taka það fram að á sl. vori þegar ég tók til máls í sambandi við embættisfærslu hæstv. menntmrh., þá gerði ég nær eingöngu að umræðuefni óeðlileg inngrip stjórnvalda í þetta mál, þ.e. hæstv. menntmrh., sem eru sennilega þau grófustu sem átt hafa sér stað hér í áratugi á þessu sviði. En það sem einkennir þessa skýrslu er kannski fyrst og fremst það að hún er ekki afgerandi. Það er nánast á hverri síðu niðurstöður sem eru sem þessar, með leyfi forseta: ,,Orkar tvímælis, ekki hafið yfir gagnrýni, þokkalegu samræmi, hefur orðið vart við megna óánægju, óheppilegt, töluverður misbrestur, óvenjulegt, almennt er annar háttur hafður á, telja verður, kannski ekki sér á báti`` og svona mætti lengi telja. Ríkisendurskoðun leggur ekki siðferðilegt mat á málið, enda er það henni gersamleg ókleift. Sú gagnrýni sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu á síðustu mánuðum hefur hins vegar snúist um umfangsmikil viðskipti setts framkvæmdastjóra sjóvarpsins við stofnanir og sjóði, pólitíska fyrirgreiðslu og misnotkun valds og sú gagnrýni á rétt á sér þó að hæstv. menntmrh. kveinki sér undan henni og hún mun halda áfram þrátt fyrir þessa skýrslu. Það má því e.t.v. segja að um athæfi það sem skýrslan fjallar hafi sjaldan átt betur við orð fyrrv. alþm. og hæstv. ráðherra þegar hann sagði: ,,Þetta er löglegt en siðlaust.``
    Það má glögglega sjá að settur framkvæmdastjóri sjónvarpsins hefur notað Ríkisútvarpið sem hækju. Það er með hann eins og oft með menn með svipaðar stjórnmálaskoðanir að þeir hafa óttalega skömm á ríkisrekstri en finnst ágætt samt sem áður að vera á launum hjá ríkinu, sérstaklega ef þeir geta haft slíkt frjálsræði að geta gengið út og inn þegar þeim sýnist og starfað að sínum áhugamálum þegar þeim sýnist, farið í launalaust leyfi þegar þeim sýnist, selt ríkinu gömul tæki og tól þegar þeim sýnist.
    En einn er sá sjóður sem settur framkvæmdastjóri sjónvarps hefur aldrei sótt um styrki til og það er Menningarsjóður útvarpsstöðva. Hann er hins vegar formaður sjóðsins eins og fram hefur komið frá 27. nóv. 1991 og þar til hann tók til starfa á ný hjá Ríkisútvarpinu að hann óskaði eftir því við hæstv. menntmrh. að vera leystur frá þeim störfum. En það var ekki fyrr en 9. apríl 1991 sem heimildir sjóðsins eru útvíkkaðar þannig að einstaklingum er gert kleift að sækja um styrkveitingar til sjóðsins. Ég vil láta það koma fram að það er mjög hæpið að sú reglugerð standi samkvæmt útvarpslögum að mínu mati þar sem við lagasetninguna upphaflega var eingöngu gert ráð fyrir því að útvarpsstöðvar geti fengið úthlutað styrkjum úr Menningarsjóði útvarpsstöðva. En hvað með það, þá held ég satt að segja að það væri réttast að leggja þennan sjóð niður og það hafa komið fram á hv. Alþingi þingmál sem ganga út á það. Ég minni á þingmál hv. varaþm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur í þeim efnum. En með því fyrirkomulagi sem nú ríkir þurfa útvarpsstöðvarnar að kaupa efni oft og tíðum tvívegis, fyrst með styrkjum úr Menningarsjóði af auglýsingatekjum sínum og síðan þegar þær kaupa efnið af framleiðanda og er myndin Þjóð í hlekkjum hugarfarsins gott dæmi um slík vinnubrögð. Fyrst fær Baldur Hermannsson 3 millj. á árinu 1992. Síðar á árinu 1992 3,5 millj. og síðan snemma árs 1993 2,4 millj. Síðan kaupir ríkissjónvarpið myndina Þjóð í hlekkjum hugarfarsins árið 1993 fyrir 3 millj. kr. Ég treysti mér ekki til þess að fullyrða það hversu oft stofnunin hefur keypt myndina, en það getur hver og einn reiknað það dæmi út með sjálfum sér.
    En hver var svo tilgangurinn með þessari umdeildu ráðningu hjá hæstv. menntmrh. og skyldi hann vera ánægður með afraksturinn? Það væri kannski forvitnilegt að heyra það núna 7 mánuðum síðar, hvort honum finnist að tilganginum hafi verið náð. Það sýnir sig m.a. í skýrslu Ríkisendurskoðunar að settur framkvæmdastjóri sjónvarpsins hefur farið kæruleysislega og á óábyggilegan hátt með fjármuni og hann heldur því áfram. Og nú hefur það gerst að dagskrárgerð á vegum skrifstofu framkvæmdastjóra hefur stóraukist á milli áranna 1992 og 1993 og í lok júlí var búið að eyða ríflega 70% af fé skrifstofu framkvæmdastjóra og vegur þar þyngst verkefnið Þjóð í hlekkjum hugarfarsins og Hin helgu vé sem er kvikmynd framkvæmdastjórans. En það hefur gerst núna í fyrsta sinn að settur framkvæmdastjóri gerir ágreining um mánaðarlegt uppgjör fjármáladeildar Ríkisútvarpsins á deildum sjónvarpsins og hefur útvarpsstjóri gripið til þess ráðs að fá endurskoðunarskrifstofu úti í bæ til þess að fara yfir resktraryfirlit stofnunarinnar þar sem framkvæmdastjórinn hunsar niðurstöðu fjármáladeildar. Skyldi hæstv. menntmrh. vera kunnugt um þetta?
    Hæstv. forseti. Ég hefði viljað segja hér miklu meira en tíma mínum er lokið a.m.k. að sinni, en ég kannski kemst að síðar í umræðunni.