[16:01]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Á sl. vori var felld till. til þál. um skipun rannsóknarnefndar samkvæmt 39. gr. stjórnarskrárinnar til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins. Ég vil segja, því miður, vegna þess að sú skýrsla sem hér hefur verið tekin til umræðu, og ég tel reyndar að hefði átt að ræðast fyrst og fremst í menntmn., svarar ekki öllum þeim spurningum sem fram hefðu komið í slíkri nefnd samkvæmt 39. gr. stjórnarskrárinnar. Og það sem verra er að Ríkisendurskoðun hefur ekki tæki og hún hefur ekki vald til þess að krefjast upplýsinga og bæta úr misbrestum með sama hætti eins og þingnefnd hefði getað.
    Það kemur út af fyrir sig ekkert mjög á óvart í þessari skýrslu. Mér hefur aldrei dottið það í hug að umræddur starfsmaður ríkissjónvarpsins, Hrafn Gunnlaugsson, hafi dregið sér fé. Hans aðferð er ekki sú og ég væni hann ekki um nokkurn óheiðarleika og hef aldrei gert. En hann hins vegar lætur skammta sér fé í krafti mikils persónuleika síns og hann er frekur til þess og það fé verður þá ekki notað til annars. En skýrslan út af fyrir sig hvorki þvær né óhreinkar Hrafn Gunnlaugsson eitt eða neitt. Það kom mér að vissu leyti á óvart hvað þessi viðskipti eru geysilega umfangsmikil. Ég hafði ekki hugmynd um sumt af því sem þarna er tekið fram.
    Þessi skýrsla vekur hins vegar athygli á afar mörgum misbrestum í stjórnkerfinu. Ríkisendurskoðun hefur ekki afl til að laga þá og þegar Ríkisendurskoðun kemst að því að fjmrh. hafi brostið heimildir, ekki farið að lögum, á bara yppir hæstv. menntmrh. öxlum og segir: Ég er bara ósammála og þar við situr, ég er bara ósammála því að ég hafi brotið lög. Og það gerist ekkert fleira í framhaldi af því. En það er ákaflega harður áfellisdómur yfir hæstv. menntmrh. í þessari skýrslu. Það er út af fyrir sig umhugsunarefni og það alvarlega við þessa skýrslu að menntmrh. þjóðarinnar skuli fá slíkan áfellisdóm sem hér er saman settur og settur fram af þeirri ágætu stofnun Ríkisendurskoðun.

    Þetta er alvörumál, ekki fyrir það um hvaða persónu það snýst fyrst og fremst heldur fyrir spillt vinnubrögð stjórnvalda. Og það var orsökin, spillt vinnubrögð stjórnvalda og framganga þeirra í málinu varð til þess að ég átti þátt í því að þetta mál var tekið hér til umræðu á Alþingi á sínum tíma í fyrravor. Gerðir hæstv. menntmrh. voru óverjandi. Þær voru ekki samkvæmt góðum starfsháttum. Það getur vel verið að þær hafi verið gerðar að fyrirmælum forsrh. en þær voru ekkert betri fyrir það. Þetta ber vott um vinnubrögð sem ekki eiga að eiga sér stað við íslenska stjórnarhætti. Það getur vel verið að svona sé tíðkanlegt í einhverjum öðrum löndum en við eigum ekki að taka það til fyrirmyndar.
    En það kann að vera að hæstv. menntmrh. hafi átt sér einhvern tilgang með þessu. Nú er uppi mikil alda einkavæðingar og einkavinavæðingar í flokki hans. Ég tel að ríkissjónvarpinu hafi með þessum aðförum öllum verið unnið tjón af hæstv. menntmrh. Það er verið að eyðileggja ríkissjónvarpið og það er það sem er alvörumál í þessu og það er það sem er harmsefni. Það er verið að eyðileggja ríkissjónvarpið og það er unnið markvisst að því. Sjónvarpið hefur verið dregið niður á lægra plan með ráðstöfunum hæstv. menntmrh. og starfsháttum sem þar hafa tíðkast núna. Það kann að fara svo að það verði engir til að andmæla því þegar tillagan kemur fram um að einkavæða sjónvarpið, það sjái bara enginn eftir því þó að þessi stofnun, sem einu sinni var mikil menningarstofnun og einu sinni var vel rekin, verði einkavædd og hverfi úr almenningseigu.
    Ég nefni ákaflega ámælisverða umræðuþætti sem þar hafa verið tíðkaðir upp á síðkastið og útvarpsráð hefur reyndar gagnrýnt einróma, umræðuþætti þar sem tekið hefur verið á málum með ákaflega einkennilegum og einhæfum hætti af vanhæfum stjórnendum. Núv. framkvæmdastjóri hótaði því reyndar áður en hann tók við framkvæmdastjórninni, það var meðan hann var dagskrárstjóri, hótaði því í umræðuþætti að hann mundi viðhafa spillt vinnubrögð, hann mundi afhenda vinum sínum verkefni sem starfsmenn sjónvarpsins hafa áður gegnt. Þetta hefur gengið eftir og það hefur ekki gefið góða raun fyrir sjónvarpið. Vinirnir duga nefnilega ekki, a.m.k. ekki nema í sumum tilfellum, til þess að gera góða þætti.
    Hér hafa verið nefndir dæmalausir ruglþættir Baldurs Hermannssonar. Umræðuþættirnir gilda sama máli flestir. Það er vond meðferð fjármuna undir hans stjórn. Mér er sagt að þáttastjórnendur fái helmingi hærra greitt fyrir stjórn þátta heldur en ef starfsmenn sjónvarpsins gera hliðstæða þætti og sjónvarpið hefur á að skipa enn þá sem betur fer nokkrum hæfum mönnum til þess að stjórna umræðuþáttum. Það er praktískara að láta þá stjórna þeim heldur en einhverja Heimdellinga utan úr bæ.