[16:08]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Í umræðunni hér áðan um Seðlabankann töluðu menn m.a. um misnotkun, um pólitíska misnotkun og það er kannski einmitt það sem þessi umræða snýst um. Hún snýst um pólitíska misnotkun. Og því miður er það nú nánast daglegt brauð að við verðum vör við slíkt framferði svona almennt í þjóðfélaginu en slík misnotkun kristallast kannski hvað best í þessu máli sem við erum með til umfjöllunar. Og það þarf ekki lengi að lesa skýrslu Ríkisendurskoðunar til að sjá þetta svart á hvítu. Við þurfum ekki annað en lesa hérna helstu niðurstöður þar sem kemur fram að umfangsmikil viðskipti stofnunar við starfsmann sinn í stjórnaraðstöðu almennt séð, þessi viðskipti hljóti að orka tvímælis vegna hættu á hagsmunaárekstrum. Að mati Ríkisendurskoðunar var það óheppilegt að skipa dagskrárstjóra sjónvarpsins sem fulltrúa menntmrh. í stjórn Menningarsjóðs útvarpsstöðva. Þá er talað hér um að það sé farið á svig við hæfisreglur stjórnsýsluréttar. Það er talað um að það orki tvímælis að maður í þessari stjórnunarstöðu taki sér launalaus leyfi í þeim mæli sem gert hafi verið.
Við sem höfum verið að taka þessa umræðu upp á þingi höfum haft hugmyndir um það að valdamikill embættsmaður --- sá sem er í framkvæmdastjórastöðu sjónvarpsins er mjög valdamikill embættismaður, hann er ekkert síður valdamkill en seðlabankastjóri --- misbeiti valdi og við viljum fá um það umræðu og það er ekki nema eðlilegt og þingið væri að bregðast skyldu sinni ef það tæki þetta mál ekki til umfjöllunar. Ég minni á að það var fjárln. sem m.a. samþykkti að láta gera slíka úttekt og þess vegna mjög eðlilegt að taka hana hér til umfjöllunar.
    En hvað gera sjálfstæðismenn þegar þessi umræða kemur upp um þeirra heittelskaða Hrafn Gunnlaugsson? Jú, þeir sitja meira og minna --- ég sé að þeir eru nú ekki mjög margir hér í salnum, en mér finnst yfirleitt þegar þetta mál kemur til umfjöllunar að þeir séu með þunglyndislegan hundshaus yfir málinu vegna þess að þarna er verið að ofsækja þeirra mann. Það er verið að gera þeirra mann að einhvers konar píslarvætti. Þetta er það viðhorf sem maður mætir hjá allt of mörgum sjálfstæðismönnum. Það þarf að segja mér þá sögu oft áður en ég viðurkenni það að Hrafn Gunnlaugsson sé einhver píslarvottur í þessu máli. Maður sem í stöðu sinni er í raun valdaður, bæði af forsrh. og menntmrh., slíkur maður er enginn píslarvottur í mínum huga. En okkur er sagt það sem viljum taka þetta mál upp og gagnrýna það og þau skilaboð eru send mjög sterkt út í samfélagið að þarna séu einhverjar ofsóknir á ferðinni, þarna sé öfundarhyggja á ferðinni, þarna sé málefnafátækt á ferðinni o.s.frv. Það er slegin skjaldborg um Hrafn Gunnlaugsson, settan framkvæmdastjóra sjónvarpsins, sem er bara, svo að maður segi það nú hreint út, á barmi

siðferðisbrests í þeirri stöðu sem hann hefur gegnt.
    Hér hefur stundum borist í tal hin svokallaða nómenklatúra í kringum Alþfl. og hún er vissulega talsverð eins og hefur verið rakið hér í stöðuráðningum. En nómenklatúran í kringum Hrafn Gunnlaugsson og forsrh. Davíð Oddsson er ekki minni. Ég hef fylgst með því, ekki bara í gegnum þetta mál, ég hef fylgst með því eins og ég hef sagt hér áður m.a. í gegnum borgarstjórn Reykjavíkur og þaðan dreg ég m.a. mína reynslu. Ég hef fylgst með því hvernig þessir menn gera nákvæmlega eins og þeim sýnist og svo senda þeir okkur bara langt nef þegar við leyfum okkur að gagnrýna það. Og svo útdeila þeir gæðum og refsingu eftir hentugleikum. Það væri hægt að rekja þessa slóð dálítið langt aftur ef tími gæfist til þess hér. Og þegar við síðan gagnrýnum þetta, hvað heyrum við þá? Þá er kvartað og þá er bara vællinn einn uppi. Ég kalla þetta væl eins og menn hafa mætt þessari gagnrýni. Þá er kvartað og þá eru þeir með væl þegar tekið er á móti. Menn sem haga sér með þessum hætti eru bara ofaldir í ríkiskerfinu og þar sem þeir hafa verið á jötu.
    Það var líka talað hér áðan í seðlabankamálinu um tiltrú og menn sem gegndu valdamiklum embættum þyrftu að hafa tiltrú fólks, ekki bara tiltrú þeirra sem eru pólitískir samherjar þeirra heldur hinna líka, þ.e. að maður geti verið viss um að það sem ráði för hjá mönnum séu fagleg sjónarmið burt séð frá því hvaða pólitískar skoðanir þeir hafi svo. Hafi Hrafn Gunnlaugsson haft einhvern snefil af tiltrú í vor þegar hann var settur í þetta embætti, þá er svo mikið víst að sú tiltrú er farin. Eftir að hafa fylgst með störfum hans síðan hann var settur í þessa stöðu, þá er ekki hægt að treysta Hrafni Gunnlaugssyni til þess að gegna því þannig að maður geti verið viss um að það sé fagmennskan sem þar ráði för. Og ég vil bara benda á þessa þáttagerð sem hv. þm. Páll Pétursson nefndi hér áðan. Ég verð að segja fyrir mig, að mér finnst raun að fylgjast með þessum þáttum, mér finnst það raun. Mér finnst það ekki samboðið sjónvarpinu eftir alla þessa reynslu sem það á að vera komið með að bjóða okkur upp á slíka þætti. Skorturinn á fagmennsku sem þar ræður för er slíkur svo ekki sé nú talað um hina pólitísku einsleitni sem þar ræður ríkjum, ekki síst í vali á stjórnendum.
    Ég get ímyndað mér að það sé ansi hentugt fyrir Sjálfstfl. að hafa Hrafn Gunnlaugsson í þeirri stöðu sem hann er í. Og ég vil benda á það að með Hrafn Gunnlaugsson í þessari stöðu hefur Sjálfstfl. í rauninni ægivald í fjölmiðlaheiminum. Þeir hafa Ingimund í Heklu uppi í Stöð 2 sem stjórnarformann. Það er Hrafn Gunnlaugsson sem er framkvæmdastjóri ríkissjónvarpsins og síðan eru þeir með Morgunblaðið. Þetta eru áhrifaríkustu fjölmiðlar á landinu. Svo höfum við aðra fjölmiðla sem reyna að reka sjálfstæða fréttamennsku og sjálfstæða pólitík í sinni fagmennsku. Þetta eru ekki hvað síst kannski Rás 2 og fréttastofa Ríkisútvarpsins en þessir fjölmiðlar virðast vera eitur í beinum þessara manna og eru sífellt undir gagnrýni fyrir það hvernig þeir taka á máli, m.a. þessu máli sem við erum að ræða um hér. Og allt sem fréttastofa Ríkisútvarpsins eða Rás 2 hefur látið frá sér fara um þessi mál er undir einhverju stækkunargleri og er litið á sem einhverja tortryggilega aðför að Sjálfstfl. eða Hrafni Gunnlaugssyni eða guð veit hverjum.
    Virðulegur forseti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að segja meira um þetta mál. Ég fagna því að það skuli komið hér inn og ég hefði talið mjög miður ef Alþingi hefði ekki tekið á málinu, þá hefði Alþingi brugðist skyldu sinni. En ég átti svo sem aldrei neitt sérstaklega von á því að hér kæmi eitthvað sérstakt út úr því. Ég átti svo sem ekki von á öðru en að ráðherrann mundi a.m.k. reyna að búa til einhverja skjaldborg utan um Hrafn Gunnlaugsson.