[16:16]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég hafði ekki alveg lokið við það sem mig langaði til að segja í þessari umræðu áðan og þess vegna held ég nú áfram þar sem frá var horfið.
    Ég hafði lagt þá spurningu fyrir hæstv. menntmrh. hvort hann teldi að tilganginum hefði verið náð þegar hann stóð að þeirri embættisfærslu sem hér hafði verið rædd og var umdeild og er enn. Mig langar til þess að koma aðeins frekar inn á þessa dagskrárgerð sem hér hefur orðið að umræðuefni hjá nokkrum hv. þm. því að dagskrárgerðin sem hefur verið á ábyrgð skrifstofu setts framkvæmdastjóra hefur orðið til þess að útvarpsráð bókaði einróma 22. okt. sl. svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt 15. gr. útvarpslaga skal Ríkisútvarpið halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur um mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Það skal og gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð. Á liðnum vikum og mánuðum hefur sjónvarpið sent út viðræðuþætti, bæði í svokallaðri þriðjudagsumræðu og nú síðast í síðdegisumræðu á sunnudögum þar sem þátttakendur hafa nær einvörðungu verið karlkyns og með áþekk stjórnmálaviðhorf. Þættir þessir hafa flestir verið unnir á vegum skrifstofu framkvæmdastjóra sjónvarps.
    Útvarpsráð hefur ítrekað fundið að þessari framkvæmd sjónvarpsins án þess að breyting hafi orðið á. Útvarpsráð átelur harðlega að sjónvarpið skuli ekki við framkvæmd viðræðuþátta þessa taka mið af fyrrnefndum ákvæðum útvarpslaga og felur útvarpsstjóra að sjá til þess að grundvallarreglur þessar séu í heiðri hafðar.``

    Svo mörg voru þau orð. Það sem þarna er talað um sem áþekk stjórnmálaviðhorf þýðir það tæpitungulaust að allir stjórnendur þessara umræðuþátta eru sjálfstæðismenn og þættirnir eru vel á annan tug. Og finnst hæstv. menntmrh. þetta samræmast 15. gr. útvarpslaga?
    Hlutfall kvenna í áðurnefndum viðræðuþáttum er 11 á móti 60 og ég tek það fram að þessi úttekt miðast við 20. okt. þar sem ég hef ekki upplýsingar um þá þætti sem hafa farið fram síðan og reyndar er ég ekki alveg frá því að hlutur kvenna hafi aðeins aukist núna síðustu tvær vikurnar.
    Þetta er heldur ekki ásættanlegt og samræmist ekki heldur 15. gr. útvarpslaga að mati útvarpsráðs og það væri fróðlegt að heyra hvað hæstv. menntmrh. hefur um þetta að segja.
    Mig langar þá að síðustu, hæstv. forseti, að koma aðeins inn á þá umfjöllun í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem fjallar um gerning hæstv. menntmrh., sem fjallað er um á bls. 61, og hefur verið gerður að umræðuefni hér, en þar er í sjálfu sér niðurstaða Ríkisendurskoðunar að hæstv. menntmrh. hafi brostið heimildir til þess að gefa út óskilyrta yfirlýsingu sem fólust í kaupum á kvikmyndum Hrafns Gunnlaugssonar. ,,Í báðum tilvikum`` stendur hér, með leyfi forseta ,,er um að ræða ráðstöfun fjármuna áður en ljóst er hversu háum fjárhæðum Alþingi mun veita til viðkomandi verkefna.``
    Í þessu tilfelli er framkvæmdarvaldið að traðka á löggjafarvaldinu og það er reyndar engin nýlunda í tíð þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Það er einu sinni þannig samkvæmt íslenskri stjórnskipan að það er löggjafarvaldið sem fer með fjárveitingavaldið og það er svo sem alltaf gott þegar menn iðrast synda sinna og ég heyrði hæstv. menntmrh. svara því þannig sl. sumar að hann skyldi aldrei gera þetta aftur. Nú fannst mér hann hafa dregið nokkuð í land og miðað við orð hans hér áðan sagðist hann ekki ætla að kaupa fleiri kvikmyndir á þessu ári. Og hvort er nú rétt, hæstv. menntmrh.? En mér finnst spilling í stjórnmálum áhyggjuefni hér á landi og hún veikir lýðræðið, hún dregur úr tiltrú almennings á stjórnmálamönnum sem síðan getur leitt það af sér að það fáist ekki vandað og frambærilegt fólk til þess að taka þátt í stjórnmálum. Og hvar erum við þá stödd? Hæstv. forseti. Þá erum við illa stödd.