[16:26]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu skýrsla Ríkisendurskoðunar um fjármálaleg samskipti Hrafns Gunnlaugssonar við ýmsa opinbera aðila. Ég held að það sé alveg ljóst að þessi skýrsla hefur orðið þeim sem óskuðu eftir því að sérstök nefnd yrði sett í það að rannsaka samskipti Hrafns Gunnlaugssonar við opinbera aðila mikil vonbrigði og er það að vonum vegna þess að meginniðurstaða skýrslunnar er að sjálfsögðu sú að hvorki hafi þessi starfsmaður brotið af sér í starfi né heldur hyglað sér. ( Forseti: Forseti hlýtur að biðja hv. þm. að hlífa þingheimi við fullyrðingum af þessu tagi, að þingmenn hafi ætlast til að umræddur einstaklingur hafi brotið af sér. Forseti hlýtur að gera athugasemd við þetta.) ( GunnS: Er þingmaðurinn víttur?) Má þingmaðurinn heyra þetta aftur? ( GunnS: Verður þingmaðurinn víttur?) ( Forseti: Já, forseti skildi svo orð hv. þm. að hann gerði hv. þm. sem um skýrsluna báðu þann hug að ætlast hefði verið til að hún væri áfellisdómur um umræddan einstakling.) Nei, svo er ekki hægt að skilja orð mín. ( GunnS: Er hv. þm. víttur?) Það er ekki hægt að skilja orð þingmannsins þannig. Það er gersamlega útilokað. ( Forseti: Þá vil ég gera sem hv. þm. og biðja hann að endurtaka það sem hann sagði. Vera má að ég hafi misskilið, en hv. þm. sagði að skýrslan hefði orðið þingmönnunum vonbrigði. Í því hlýtur að felast ákveðin skoðun og forseti telur skyldu sína að leiðrétta það.) Þingmaðurinn telur sig hafa fulla heimild til þess, forseti, að halda því fram að þessi skýrsla hafi verið þingmönnunum vonbrigði. ( Forseti: Hv. þm. er leyft að halda áfram máli sínu.) Gott og vel.
    Ég vil því halda því fram að meginniðurstaða þessarar skýrslu sé að umræddur starfsmaður hafi hvorki brotið af sér í starfi né hyglað sér. Þetta er meginniðurstaða sem skiptir miklu máli vegna þess að það hafði verið ýjað að því í umræðu á þingi að um brot í starfi hefði verið að ræða og að starfsmaður hefði hyglað sér.
    Athugasemdirnar í skýrslu Ríkisendurskoðunar eru margar og merkilegar. Ein af meginniðurstöðum skýrslunnar er sú að það eru gerðar alvarlegar athugasemdir við starfsemi ýmissa opinberra sjóða. Varða þessar athugasemdir í raun og veru bæði Alþingi að því er varðar lagasetningu, en einnig störf núverandi og fyrrverandi ráðherra að því er varðar setningu reglugerðar um störf og starfsemi þessara sjóða. Ég vil geta þess að sérstaklega kemur fram gagnrýni hjá Ríkisendurskoðun á bls. 7 í þessari skýrslu þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Þegar litið er heildstætt á mál er tengjast stjórn og starfsemi Kvikmyndasjóðs er það mat Ríkisendurskoðunar að hæfisreglna stjórnsýsluréttarins hafi ekki verið gætt sem skyldi á vettvangi sjóðsins á undanförnum árum, en fyrir liggur að einstakir stjórnarmenn í Kvikmyndasjóði hafa tekið þátt í skipun manna í úthlutunarnefnd þrátt fyrir að þeir hafi sótt um eða ætlað sér að sækja um styrki úr sjóðnum.``
    Hér er í raun og veru verið að finna að störfum þeirra ráðherra sem skipuðu Hrafn Gunnlaugsson í stjórn Kvikmyndasjóðs. Þeir ráðherrar munu sennilega hafa verið þrír, en sá síðasti sem það gerði var hv. þm. Svavar Gestsson sem hefur haft uppi í umræðum í þinginu um þetta mál hin verstu orð. Ég held að það sé rétt að benda á þetta í þessari umræðu.
    Sá hv. þm. hafði um þessa skýrslu þau orð áðan að hún færi sæmilega í málið. Ég geri ráð fyrir því að það sé ekki í fornri merkingu orðsins sem þýðir að gera það með sóma heldur svo að það sé rétt viðunandi. Það er vonlegt vegna þess að Ríkisendurskoðun ómerkir m.a. það sem þessi þingmaður sjálfur setti fram í ræðu sinni í þinginu hér í fyrra, hún ómerkir ummæli hans þar sem segir að umræddur settur framkvæmdastjóri hafi fengið styrk út á mynd úr Norræna kvikmyndasjóðnum með venjulegum hætti, en þetta er borið til baka í skýrslu Ríkisendurskoðunar.
    Í raun og veru er þessi skýrsla athyglisverð fyrir margra hluta sakir. Ég mun ekki fara í mörg atriði hér í þessu stutta máli mínu. Það er alveg rétt að það kemur fram í skýrslunni að víða eru hagsmunaárekstrar sem Ríkisendurskoðun gagnrýnir og varar sérstaklega við. Slíkir árekstrar eru mjög algengir í svo smáu samfélagi sem hér þrífst og það er ljóst að ef farið yrði almennt yfir gildandi lög um opinbera sjóði, þá munu margir þeirra reynast afskaplega veikir fyrir slíkri gagnrýni, en engu að síður er slík gagnrýni velkomin inn í umræðuna.
    Ég vil taka það fram að í þessum umræðum hér, sem hafa yfirleitt verið frekar málefnalegar, hefur þó ýmislegt verið sagt sem ég hygg að betur hefði verið látið ósagt. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði hér áðan að settur framkvæmdastjóri hefði notað Ríkisútvarpið sem hækju. Er með þessu átt við að hann hafi notað Ríkisútvarpið til þess að hygla sér? Slík ummæli eru lítillækkandi, í raun og veru bæði fyrir settan framkvæmdastjóra og þau eru líka lítillækkandi fyrir Ríkisútvarpið.
    Hér kom fram einnig áðan hjá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu að Sjálfstfl. bæri nú ægivald yfir fjölmiðla og var þar getið sérstaklega um setu ákveðins framkvæmdastjóra hér í borg í stjórn Stöðvar 2. Hvað þýða slík ummæli sem þessi? Þýðir þetta það að Stöð 2 sé stjórnað af þeim sem þar sitja í stjórn? Þýðir þetta það að fréttamenn Stöðvar 2 séu undir ægivaldi þeirra sem sitja í stjórn? Má skilja þessi orð þannig að bæði fréttamennsku og dagskrárgerð sé bókstaflega fjarstýrt af þeim sem sitja í stjórn? Hvers lags virðing er þetta fyrir þeim fjölmiðli sem hér hefur haslað sér völl, Stöð 2, sem stundar heiðarlega fréttamennsku og reyndar vaxandi dagskrárgerð, hvers konar virðing er þetta fyrir þessum fjölmiðli? Hvers vegna er verið að ganga inn á þessar brautir? Er verið að gefa það í skyn hér að á Stöð 2 séu grundvallarlögmál --- sem hafa verið færð sérstaklega inn í umræðuna hjá Evrópuráðinu um sjálfstæði fréttamanna og um

frelsi þeirra sem vinna innan fjölmiðlanna til þess að vinna að sínum málefnum afskiptalaust og óháð þeim sem eiga fjölmiðlana --- er verið að gefa það í skyn að þetta lögmál gildi ekki hér? Þetta eru merkilegar athugasemdir. Þetta eru merkileg skilaboð til fjölmiðlanna og ég hygg að því miður hafi það nú gerst enn einn ganginn í umræðum um þetta mál á Alþingi að menn hafi sagt ýmislegt sem betur hefði verið látið ósagt og það á einnig við um forseta þingsins hér í upphafi.