Búfjárhald

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 13:52:23 (1139)

[13:52]
     Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyingar á lögum nr. 46/1991, um búfjárhald. Þetta er 28. mál á þskj. 28.
    Flm. ásamt mér eru hv. þm. Árni M. Mathiesen, Ingibjörg Pálmadóttir, Kristín Ástgeirsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Ragnar Arnalds.
    Frumvarpsgreinin er aðeins ein og gengur út á það að við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo, með leyfi forseta:
    ,,Eigendum stórgripa, þ.e. nauta og hrossa, er skylt að hafa gripi sína í vörslu allt árið og sjá til þess að þeir gangi ekki lausir á eða við þjóðvegi. Ákvæði þetta skal þó ekki hindra hagagöngu stórgripa utan girðinga þar sem tryggt þykir að af því hljótist engin hætta fyrir umferð, svo sem í heimalöndum eða afréttum sem liggja hvergi að alfaraleiðum. Viðkomandi sveitarstjórn eða sveitastjórnir skulu setja í samþykktir sínar um búfjárhald, sbr. 3.--5. gr., [þ.e. 3.--5. gr. laga um búfjárhald] nauðsynleg ákvæði í þessu sambandi að höfðu samráði við lögreglustjóra. Engin slík ákvæði, sem heimila hagagöngu stórgripa utan girðinga, sbr. 2. málsl. þessarar greinar, öðlast þó gildi nema landbúnaðarráðherra staðfesti þau.``
    Í öðru lagi að lög þessi öðlast gildi 1. september 1994.
    Frumvarp þetta var flutt á síðasta þingi en varð þá ekki útrætt.
    Það er væntanlega kunnara en frá þurfi að segja því miður að tíðni alvarlegra umferðaróhappa og slysa sem rekja má til lausagöngu stórgripa á og við þjóðvegi víða um landið er mikið áhyggjuefni. Á árinu 1989 starfaði nefnd að því að kanna til hvaða ráðstafana væri unnt að grípa í því skyni að minnka umferð vörslulauss búfjár á þjóðvegum og gera tillögur til úrbóta. Nefndin var m.a. skipuð fulltrúum frá Vegagerð, Búnaðarfélagi og Umferðarráði, auk þess sem í henni sat einn bóndi, landgræðslustjóri og deildarstjóri umhverfisdeildar landbúnaðarráðuneytisins.
     Ein meginniðurstaða nefndarinnar var sú, sem hér er lögð til og flutt í frumvarpsformi, að leggja til að lausaganga stórgripa yrði endanlega aflögð. Rétt er að taka fram að

einn nefndarmanna hafði þó fyrirvara á um þessa niðurstöðu nefndarinnar sem laut í sjálfu sér ekki að hinni efnislegu niðurstöðu heldur því hvernig landeigendum yrði gert kleift að standa fyrir sitt leyti að efndum slíkra laga.
    Nú er það svo að þessi tillaga nefndarinnar náði ekki fram að ganga í sinni upphaflegu mynd hér í formi lagasetningar á Alþingi heldur varð niðurstaðan sú með setningu nýrra laga um búfjárhald vorið 1991 að gefa sveitarstjórnum afdráttarlausar heimildir til að fyrirskipa vörslu á sínu svæði en lögskylda hana ekki alveg. Síðan hafa fjölmargar sveitarstjórnir brugðist við í framhaldi af setningu laganna vorið 1991 og sett reglugerðir eða samþykktir um lausagöngu og mjög víða bann við lausagöngu stórgripa eins og sjá má í fskj. II með þessari tillögu. En hinu er ekki heldur að neita að á allmörgum svæðum hefur engin breyting orðið og lausaganga stórgripa tíðkast enn með tilheyrandi afleiðingum, það jafnvel við aðalþjóðvegi landsins í nokkrum tilvikum og hafa af því hlotist mikil slys.
    Nú má spyrja að því hvort ástæða sé til að gera jafnmikinn greinarmun á stórgripum og öðru búfé og hér er gert. Er því til að svara að í fyrsta lagi var það tillaga þessarar nefndar og tiltölulega vel rökstudd, og var vísað m.a. til þess að hrossum hefur stórfjölgað í landinu á undanförnum árum, að langflest alvarlegustu umferðaróhöppin þar sem búfé kemur við sögu eiga sér stað þegar um árekstur milli ökutækja og hrossa er að ræða. Það heyrir til undantekninga að meira en minni háttar tjón á ökutækjum verði þegar sauðfé eða annað búfé á í hlut.
    Mikil slys hafa orðið á mönnum og dauðaslys í allmörgum tilvikum á undanförnum árum, ökutæki hafa stórskemmst og gripir drepist. Bótakröfur eru miklar og ekki síst nú eftir að ný ákvæði um tryggingar hafa tekið gildi. Í flestum tilvikum, nánast undantekningarlaust eru það bifreiðaeigendurnir sem einhliða eru gerðir ábyrgir þegar slík atvik verða.
    Þá er á það að benda að mun auðveldara er að gera gripahelda girðingu fyrir hross og nautgripi en fyrir sauðfé. Enn fremur er það svo að fjölmargar sveitarstjórnir hafa þegar notfært sér heimildir í gildandi lögum um að fyrirskipa vörslu á stórgripum þannig að það að stíga skrefið til fulls og gera þetta að almennri reglu í landinu er miklu minna skref en ætla mætti við fyrstu sýn. Hér er nauðsynlegt að menn rugli alls ekki saman annars vegar lausagöngu stórgripa og hins vegar lausagöngu sauðfjár. Þar er um ósambærilega og allt aðra hluti að ræða og engin tillaga uppi um það af hálfu flm. að breyta því fyrirkomulagi sem þar gildir. Enda eins og áður sagði um allt annað og miklu smávægilegra vandamál að ræða í þeim tilvikum að óhöpp verði vegna samskipta ökutækja og sauðkinda. Takmarkanir á lausagöngu sauðfjár eru tiltölulega sjaldgæfar í landinu.
    Rétt er að minna á að í frv. til vegalaga, sem mun vera hér til umfjöllunar á Alþingi öðru sinni ef ég man rétt, er að finna tiltekið nýmæli í 56. gr. þess frv. eins og það var að minnsta kosti þegar það var lagt fram á síðasta löggjafarþingi þar sem kveðið er á um að ,,öll lausaganga búfjár skuli bönnuð á vegsvæðum þar sem girt er orðið beggja megin vegar og helt hólf hefur þar með myndast``. Slíkt lausagöngubann á vegsvæðum sem þegar eru lokuð hólf kemur þó engan veginn í stað vörsluskyldu stórgripa eins og hún er hér lögð til og er því ekki að okkar mati fullnægjandi lausn gagnvart þessu vandamáli.
    Það er lagt til að frv. öðlist gildi að tæpu ári liðnu, þ.e. 1. sept. 1994 þannig að sveitarstjórnum, landeigendum og öðrum málsaðilum gefist nokkurra mánaða aðlögunartími að gildistöku þess.
    Athuga mætti að sjálfsögðu ef svo bæri undir að tekið væri tillit til mismunandi aðstöðu sveitarfélaga og landeigeigenda í þessu sambandi þegar hinar einstöku reglur yrðu nánar útfærðar. Einnig í þeim tilvikum að sveitarstjórnirnar kysu að nýta sér heimildir síðari málsl. 5. gr. um hagagöngu, lausagöngu, utan þeirra svæða þar sem umferðar væri að vænta.
    Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta langt mál, ég held að frv. útskýri sig nokkuð sjálft og rökstyðji sig sjálft. Ég læt nægja að vísa í því sambandi til ítarlegra fylgiskjala sem því fylgja. Í fyrsta lagi upplýsinga frá Umferðarráði og lögreglustjórum um tíðni umferðaróhappa sem tengjast búfé. Fyrsti flm. lagði í það vinnu á sl. ári að draga saman gögn frá Umferðarráði og vinna úr þeim og setja upp á tiltölulega aðgengilegu formi þar sem eru töflur í fylgiskjali I um umferðaróhöpp, fjölda eða tíðni umferðaróhappa sem tengjast búfé á árunum 1987, 1988, 1989, 1990 og 1991. Og síðan að afla sérstaklega upplýsinga frá lögreglustjórum í Húnavatnssýslu og Skagafjarðarsýslu en þar er tíðni umferðaróhappa sem tengjast lausagöngu stórgripa hvað mest. Ég kann öllum þeim sem lögðu til upplýsingar eða aðstoðuðu við öflun þessara gagna bestu þakkir fyrir. Það ég best veit er staðan í grófum dráttum óbreytt hvað varðar lausagöngu í þeim sveitarfélögum sem hér eiga sérstaklega í hlut, bæði á Norðurlandi og Suðurlandi. En þar hafa þessi mál sérstaklega verið til skoðunar.
    Í öðru lagi í fylgiskjali II er yfirlit yfir samþykktir sveitarfélaga um búfjárhald. Það yfirlit er ekki tæmandi og næsta víst er að einhverjar samþykktir hafa bæst við síðan þessar upplýsingar voru teknar saman fyrir hartnær ári síðan. En af því fylgiskjali á bls. 16--18 í þskj. sjá menn þó að stór hluti sveitarfélaganna í landinu hefur tekið á þessum málum og algengast er að um sé að ræða bann við lausagöngu hrossa eða lausagöngu allra stórgripa.
    Í þriðja og síðasta lagi er svo birt sem fylgiskjal með frv. skýrsla sú sem ég vitnaði til og unnin var á árinu 1989 af sérstakri nefnd sem skipuð var til að athuga málefni varðandi lausagöngu búfjár eða ,,búfé á vegsvæðum`` eins og það var kallað. Þar geta þeir sem það vilja farið betur yfir helstu niðurstöður og efnisatriði nefndarinnar.
    Hæstv. forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Ég vona að frv. þetta fái efnislega og vandaða skoðun og treysti því að sjálfsögðu að svo verði. Ég held að það sé tímabært og nauðsynlegt að taka á þessum málum og betra að gera það fyrr en seinna. Ég held að hér sé valin skynsamleg málamiðlun ólíkra hagsmuna, annars vegar þeirra sem jafnvel telja að koma ætti með öllu í veg fyrir alla lausagöngu búfjár í landinu, sem er óraunhæf krafa að mínu mati og ástæðulaus, og hinna sem minni vilja breytingar með því að velja þá leið að beina þessum ráðstöfunum sérstaklega að þeim hluta búfjárins sem mestum og alvarlegustum slysunum veldur þá ætti að finnast á þessu máli ásættanleg lausn eða niðurstaða a.m.k. um eitthvert árabil þangað til annað yrði ákveðið.
    Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu, hæstv. forseti, verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.